Hér á eftir fer ávarp umhverfisráðherra Svandísar Svavarsdóttur v. dags íslenskrar náttúru sem haldin verður hátíðlegur í fyrsta sinn þ. 16. september nk.

Vart þarf að tíunda hversu mikilvæg íslensk náttúra er okkur öllum. Náttúra landsins gegnir lykilhlutverki í sjálfsmynd okkar sem þjóðar, í menningu okkar, efnahags- og atvinnulífi, ferðamennsku og afþreyingu. Í aldanna rás hefur íslensk náttúra gefið okkur kraft og veitt  innblástur. Íslenska þjóðin hefur frá örófi alda nýtt efnisleg gæði náttúrunnar og þannig lifað af í harðbýlu landi.

Æ fleiri gera sér grein fyrir mikilvægi þess að njóta þess sem íslensk náttúra hefur að bjóða og við erum stolt af því að sýna gestum hina einstöku náttúru landsins. Með því að tileinka íslenskri náttúru sérstakan heiðursdag er mikilvægi hennar undirstrikað um leið og við erum minnt á hversu mikils virði hún er okkur Íslendingum sem þjóð. Slík áminning er okkur nauðsynleg og holl, enda hefur afstaða manna til náttúrunnar löngum borið sterkan keim af því siðfræðilega viðhorfi sem kennt er við mannhyggju. Það leiðir af sér að náttúran og afurðir hennar eru fyrst og fremst metnar út frá rétti og hagsmunum mannsins. Þetta endurspeglast meðal annars í löggjöf um umhverfis- og náttúruvernd.

Í seinni tíð hefur það viðhorf fengið aukið vægi að náttúran eigi sjálfstæðan rétt og hafi sjálfstæða stöðu, óháð tengslum við manninn og umhverfi hans. Þetta viðhorf er ekki aðeins rökrétt heldur virðist augljóst þegar við höfum í huga að náttúran getur lifað án mannsins en maðurinn ekki án náttúrunnar. Slík auðmýkt í nálgun okkur að náttúrunni er nauðsynleg eigum við að bera gæfu til að ganga ekki á möguleika komandi kynslóða til að njóta hennar á sama hátt og við höfum fengið að gera.

Dagur íslenskrar náttúru ber upp á fæðingardag Ómars Ragnarssonar. Sem frétta- og þáttagerðarmaður hefur hann verið óþreytandi við að opna augu almennings fyrir þeim auðæfum sem felast í náttúru landsins og mikilvægi þess að vernda hana og varðveita. Það er ósk mín að Dagur íslenskrar náttúru megi verða til þess að halda þeim kyndli á lofti.

Birt:
Sept. 2, 2011
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Svandís Svavarsdóttir „Dagur íslenskrar náttúru “, Náttúran.is: Sept. 2, 2011 URL: http://natturan.is/d/2011/09/02/dagur-islenskrar-natturu/ [Skoðað:Oct. 2, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Nov. 17, 2014

Messages: