Um þessar mundir er verið að taka í notkun miðstýrt umferðaljósakerfi í Reykjavík. Það mun geta sparað allt að milljarð á ári. Ekki bara fé borgarinnar heldur einnig borgaranna þar sem kerfið á að gera hópum ökutækja mögulegt að fara eftir stofnbrautum á grænu alla leið. Það miðast auðvitað við að ökumenn fari á þeim hraða sem ætlast er til og að aftari hópar leggi ekki kapp á að fylla í "gatið" eins og mörgum ökumönnum höfuðborgarinnar er tamt.

Í frétt Vegagerðarinnar segir:

Grænar bylgjur gætu sparað allt að milljarð á ári

Miðlæg stýring umferðarljósa í höfuðborginni

23/1/2008
Miðlægt stýrikerfi fyrir fjölförnustu gatnamótin í Reykjavík var sett upp á árinu 2007 og nýlega var lokið við að taka kerfið út. Á þessum tímamótum var ákveðið að afhenda kerfið með formlegum hætti af hálfu Siemens AG sem er framleiðandi búnaðarins. Verkefnið er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar.

Í Reykjavík er 116 gatnamótum stjórnað með umferðarljósum, og í þessum fyrsta áfanga verkefnisins eru 36 gatnamót á stofnbrautum miðsvæðis í Reykjavík, auk þriggja gatnamóta á Hafnarfjarðarvegi. Í ársbyrjun 2006 var samið við þþska fyrirtækið Siemens AG um þennan fyrsta áfanga verkefnisins og honum lýkur nú eins og áður segir með formlegri afhendingu kerfisins.

Stjórntölva velur stýringu í takt við umferðarþunga

Miðlæga stýrikerfið aðlagar umferðarljósin umferðinni á hverjum tíma og velur það stýriforrit sem er hagkvæmast og lágmarkar biðtíma vegfarenda í gatnakerfinu. Miðlæg stýring umferðarljósa byggir á samskiptaneti milli stjórnkassa og stjórntölvu og umfangsmikilli söfnun umferðarupplýsinga. Út frá þessum upplýsingum reiknar stjórntölvan út flæði umferðarinnar á öllu svæðinu hverju sinni, ákvarðar hvaða stýring er við hæfi og sendir boð í stjórnkassana í gegnum samskiptanetið.

Aukið öryggi með sjálfvirku vöktunarkerfi

Hugbúnaðinum fylgir sjálfvirkt vöktunarkerfi þannig að bilanir eru tilkynntar samstundis með sjálfvirkum hætti í farsíma vaktmanna, með tölvupósti eða með villumeldingu á skjá. Hægt er að staðsetja bilunina nákvæmlega og að viðgerð lokinni er fljótlegt að endurstilla umferðarljósin með miðlægum hætti. Allt þetta verður til þess að stytta þann tíma sem ljós eru óvirk, draga úr umferðartöfum og auka til muna öryggi í umferðinni. - 2 - Umferðarljósin eru samtengd með ljósleiðurum við stjórntölvu. Notkun ljósleiðarkerfis er nýjung á heimsvísu, en þetta er fyrsta kerfið frá Siemens sem tengt er með þessum hætti. Þessi aðferð sameinar kosti öryggis og mikillar flutningsgetu og má telja líklegt að þessi tækni verði notuð í fleiri borgum í framtíðinni. Ljósleiðaranetið gefur einnig möguleika á tengingu við myndavélar til að fylgjast með umferðarflæði.

Fjárhagslegur ávinningur

Kostnaður við verkefnið á árinu 2006 – 2007 var 280 milljónir króna og skiptist sá kostnaður jafnt milli Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar. Kostnaður við næsta áfanga sem lagt er til að farið verði í á árunum 2008 – 2010 er um 500 milljónir króna og skiptist hann einnig jafnt á milli aðila.

Samkvæmt reiknilíkani umferðar fyrir höfuðborgarsvæðið eru eknir 1.260 milljón kílómetrar innan höfuðborgarsvæðisins á ári. Á því svæði sem fyrsti áfangi nær til, er reiknað með 150 milljónum ekinna kílómetra á ári og það taki ökumenn fjórar til sex milljón klukkustundir að aka þessa leið. Miðað við reynsluna erlendis (t.d. Prag 2005: 8%) má gera ráð fyrir að innleiðing miðlægrar stýringar í Reykjavík skili sér í 2-10% styttingu aksturstímans. Miðað við þessar forsendur má ætla að sparnaður bíleigenda verði í krónum talið 125-900 milljónir á ári. Hér er vitaskuld um áætlun að ræða, en af henni má þó ráða að arðsemi verkefnisins er mikil.
Birt:
Jan. 23, 2008
Höfundur:
Einar Bergmundur
Uppruni:
Vegagerðin
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Grænar bylgjur í Reykjavík“, Náttúran.is: Jan. 23, 2008 URL: http://natturan.is/d/2008/01/23/graenar-bylgjur-i-reykjavik/ [Skoðað:Dec. 9, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Jan. 24, 2008

Messages: