Eins og við höfum marg oft heyrt þá standa Íslendingar frammi fyrir erfiðu vandamáli.  Okkur vantar eitthvað stórt til að bjarga efnahagnum því að öðrum kosti getum við ekki haldið uppi háum lífskjörum.  Sérstaklega þurfum við snjalla hugmynd til að bjarga landsbyggðinni.
 
Mér hefur dottið í hug alveg ný hugmynd og það er sko engin aumingjaleg fjallagrasa- og hundasúruhugmynd.  Eyðileggjum listaverk Ásmundar Sveinssonar!
 
Hugmyndin gengur út á að selja útlendingum aðgang að höggmyndum Ásmundar, færa þeim sleggju í hönd og leifa þeim að mölva niður stytturnar.  Fyrir þetta þurfa þeir svo að borga álitlega upphæð.
Vissulega þarf að fara fram hagkvæmniathugun og meta þarf verðmæti listaverkanna.  Við þurfum væntanlega að gera arðsemismat og gera eðlilega arðsemiskröfu.  Að vísu mætti lækka arðsemiskröfuna verulega og eins vaxtakostnað af fjárfestingunni með því að fá ríki og Borg til að ábyrgjast þau lán sem taka þarf fyrir stofnkostnaði. Síðan þarf að gera markaðskönnun og athuga hvaða verð er hægt að fá fyrir hvert skemmdarverk.   Við ættum að geta boðið mun lægra verð en aðrar þjóðir sem hugsanlega vildu keppa við okkur með því að bjóða fram verk sinna meistara.  Íslendingar hafa aldrei verið mikið fyrir listaverk og þess vegna ætti verðið að geta orðið vel samkeppnisfært.  Það er mikið til af fallegum íslenskum listaverkum sem fáir hafa séð.
 
Rétt væri að setja upp formlegt matsferli þar sem metin eru menningarleg áhrif þessara skemmdaverka og eins getur almenningur þá komið fram með athugasemdir.  Listasafn Íslands getur svo verið úrskurðaraðili.  Við þurfum reyndar að tryggja að rétt fólk fari þar með völdin en svo má setja þann varnagla að ef úrskurðurinn verður neikvæður þá geti mennntamálaráðherra einhliða breytt þeim úrskurði.  Þannig getum við gert öllum sjónarmiðum jafn hátt undir höfði án þess að eiga það á hættu að þetta þjóðþrifamál verði stöðvað af misvitrum embættismönnum.
 
Ég legg til að listaverkunum verði komið fyrir á Ísafirði því þar gæti þetta skapað mörg störf.  Hægt væri að selja aðgang að frummyndunum sem væri dýrast en einnig mætti gera afsteypur í fáeinum númeruðum eintökum sem væri þá ódýrara að skemma.  Þannig gæti þetta orðið verulega atvinnuskapandi og gæti skapað allt að 400 störf og enn meira ef afleidd störf eru talin með.
 
Hugsanlega væri líka í framhaldinu hægt að selja aðgang að eyðileggingu verka annarra listamanna.  Mér dettur í hug Einar Jónsson og svo auðvitað Kjarval.  Það ætti að vera hægt að fá góðan pening fyrir að leyfa ríkum útlendingum að skera í sundur verk Kjarvals.
 
Fyrst væri samt best að taka verk Ásmundar Sveinssonar.  Það hafa hvort sem er ekki margir séð þau og sumum þykja þessi listaverk hreinlega ljót.  Ef farið verður í að skemma verk fleiri listamanna væri rétt að gera sérstaka verndunar- og nýtingaráætlun.  Þannig væri hægt, út frá hagfræðilegum forsendum, að meta hvaða verk væri hagkvæmast að eyðileggja og eins þarf hugsanlega að ná fram einhvers konar þjóðarsátt um að friða einstaka verk.
 
Ég geri mér grein fyrir að þetta gæti mætt hörðum mótmælum frá listaverkaverndunarsinnum.  Með öflugum áróðri ætti samt að vera hægt að berja það niður.  Svo má siga lögreglunni á þá sem vilja mótmæla þessu. Auðvitað er alltaf erfitt að fórna svona verðmætum en hvað eigum við að gera?  Sem þjóð þá verðum við að nýta okkar auðlindir og það má segja að listaverkin séu okkar olía.  Ég hef alltaf verið mjög hrifinn af íslenskum listaverkum en ekki viljum við fara aftur í torfkofana.  Ekki viljum við að Ísafjarðardjúp verði Hornstrandir 21. aldarinnar.  Þeir sem eru á móti þessari hugmynd verða þá líka að koma með einhveja aðra hugmynd sem er jafn arðsöm.  Það þýðir ekkert að segja bara eitthvað annað og ekki lifum við á fjallagrösum og hundasúrum.
 
Jón Kr. Arnarson
Birt:
Oct. 14, 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Listaverkin - okkar auðlind - Myndlíking eftir Jón Kr. Arnarson“, Náttúran.is: Oct. 14, 2006 URL: http://natturan.is/d/2007/03/19/myndliking_jkra/ [Skoðað:Oct. 7, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: March 19, 2007
breytt: April 14, 2012

Messages: