Rússneski blaðamaðurinn og umhverfissinninn Grigory Pasko er væntanlegur til landsins þann 4.október næstkomandi en hann kemur í boði Íslandsdeildar Amnesty International. Haldið verður málþing í Norræna húsinu honum til heiðurs og til minningar um samstarfskonu Pasko í blaðamennsku, Önnu Politkovskaju, en hún var myrt þann 7.október fyrir tveimur árum.

Málþingið er öllum opið og hefst það klukkan 8:30 að morgni þriðjudagsins 7.október og lýkur klukkan 10:30. Eru allir, félagar og aðrir, hvattir til að mæta.

Grigory Pasko hefur starfað sem blaðamaður í 25 ár og helgað skrif sín ástandi mannréttinda- og umhverfismála í Rússlandi. Á þessum tíma hefur hann upplifað miklar breytingar í kjölfar Perestrojku Gorbatsjovs og falls Sovétríkjanna, aukið frelsi fjölmiðla og síðan aftur hertar reglur í valdatíð Pútíns. Sjálfur þurfti hann að þola harða varðhalds og vinnubúðavistun til nokkurra ára í heimalandi sínu fyrir það eitt að nýta sér grundvallarmannréttindi til tjáningar.
Sjá frekar upplýsingar á vefsíðu Amnesty International, Íslandi.
Birt:
Oct. 6, 2008
Tilvitnun:
Náttúruverndarsamtök Íslands „Grigory Pasko á Íslandi“, Náttúran.is: Oct. 6, 2008 URL: http://natturan.is/d/2008/10/06/grigory-pasko-islandi/ [Skoðað:Aug. 11, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: