Birkigreinar31.

Atli: Hvað þarf eg fleira að vinna fyrir sláttinn?

Bóndi: Þú gerir til lédengingarkola 1) og af sama birki safnar þú berki til að lita föt fyrir ykkur. Það er þér betra að brenna vaðmál þitt í sortu. Það slitnar öllum þriðjungi verr, missir allan náttúrulegan yl og er því oft kalt á vetrum en á sumrum of heitt, vegna litarins, og dyrir utan langa suðu hjálpar járntegund sortunnar að gjöra stirt og stutt í því. Enga þessa galla hefur barkarlitur. Þar að auki er hann ósaurljótari. Þú getur barkað skinn fyrir ykkur, treyjur og fleiri föt. Ske má líka að þú getir unnið þér nokkuð töluvert inn á vetri með því að barka og tilbúa skinnföt fyrir sjóbændur; þeir gefa þér fiskfang í staðinn. Aðferðin og kostnaðurinn eru létt og hæg sem flestir vita og þú líka. Eg veit að þú ert nokkuð hagur. Þú verður að byggja þér smiðjukofa, það er þér gott að þú getir smíðað þér ljái og annað búsmíði. Líka má þér það gagn að því verða, getir þú á vetrum smíðað það nokkuð, sem útgengilegast sé hjá öðrum bændum. Þá er þetta févænlegra en margs þarf búið með og lítið áttu enn fyrir allt að gefa, sem þig brestur, frumbýlinginn.

32.

Atli: Hverninn á eg að smíða, þó eg kunni nokkuð til þess. Sýslumaðurinn bannar öllum að höggvar skógana nema sem allra minnst til dengingar.

Bóndi: Rétt gjörir sýslumaður það, sem von er af honum. Því svo hefur kóngurinn áskilið; hann vill menn fari sem sparlegast með alla landkosti, er eyðast af brúkun. Hefur kóngur frétt það sem þú veist er satt er að allir skógar eyðast mjög hér í landi. Og ef hans föðurlega umsorgun fyrir Íslandi hefði ekki reist þær skorður við, myndum vér, Íslendingar eftir hundrað ár hér frá þurfa viðarkola með frá útlendum þjóðum nema nýr skógur verði hér í landi plantaður og þrifinn, sem er enn lítt byrjað. Nú mun eg ráða þér að brúka mótorf til eldiviðar. Enginn bannar þér að skera það ríflega.Gjörðu þér gröf í eldhúsgólfi, hlaðna þétt með grjóti all um kring, álnar djúpa og eins allar hliðar. Láttu þar hjá jafnan liggja þétta og þykka grastorfu, sem nái vel út yfir gröfina. Segðu konu þinni að brjóta hvorki smátt né sparlega undir pottin þegar hún eldar. En strax sem hver mótorfa er orðin glónandi í gegn þá skari hún henni fram úr hlóðunum og ofan í gröfina, lyki þar yfir með svarðtorfunni, sem til þess var ætluð, og snúi grasinu niður, þá kafnar eldurinn undir mótorfunni. Svo má hún gjöra við hverja mótorfu eftir aðra og verður þér þá það sama mótorf til margjörðar og járnsmíðis. Þessi kol eru góð til alls stórsmíðis og máttu jafnan hafa nóg af þeim. Þau gefa mikinn hita. Til þessa segja menn bestur sé hinn svarti mór og verða kolin því betri sem mórinn er harðari. (Sjá Oeconom. Magazin, Tom. 6. pag. 413). Þá eru enn kol, sem þér meinar enginn að brúka, ef þau má fá í landareign þinni, það er surtarbrandur. Hann er malinn viðlíka smátt og kol, brenndur nokkuð minna en kol og að öðru leyti tilhafður sem þau. Surtarbrandskol eru miklu drjúgari en viðarkol og betri til smásmíðis en steinkol. Hvar surtarbrandur er í fjöllum þar er oft hjá honum ein steintegund ei ólík steinkolum. Hún verður brúkuð til drýginda með viðarkolum í steinkola stað en gefur mikið sindur.

33.

Atli: Eg á ekkert húsgagn. Hverninn má eg bjargast?

Bóndi: Af reka eða skógi máttu á Konungstöðum smíða þér í bú allt hvað þú þarft og þótt þú værir leiguliði máttu samt bæta búshluti þína. En haglega áttu með skóg og reka að fara svo engum sé skaði að. (Landsleigubálkur  (Llb.). kap. 6-7). Gefa lögin þér meira frelsi en þetta: Þú mátt gjöra nýja búshluti af skógi og rekaviði og brúka þá á meðan þú býrð á sömu jörð. En hvorki máttu selja þá nér burtu með þér flytja því þeir eru eign landsdrottins og ekki þín; en fyrir smíðakaupið hefur þú not búshlutarins á meðan þú á jörðu býr. Grágás segir svo í Lanbrigðahætti (Lbþ., kap. 46), hvaðan þessi vor lagagrein er tekin: 1) Nú vill hann (leigumaður) gera nýja búhluti og á hann gjöra ef hann vill og láta eftir þar er hann fer á braut, vanda svo við til sem þá myndi hann ef hann ætti sjálfur skóg og fjöru. 1) Grág. I.b., 138; Grág. II. 502. Höfundi finnst þau styrkja fyrirmælin um þetta í landslögum Noregs og í Jónsbók að þau skuli vera í öndverðu tekin úr Grágas.

34.

Atli: Mjög hrósar þú kostum mínum á Konungsstöðum. En þar verð eg þó að hýsa og halda húsum við fyrir ekki. Á öðrum jörðum geld ég að sönnu landskuld en þar þarf eg ekki að byggja nema faðmslangan vegg á ári.

Bóndi: Ekki muntu vel þakka kónginum þá náð, sem hann veitir þér, á meðan þú þekki hana ekki betur en svo. Vænt þótti Íslands bændum þegar í landið kom fororðning af dato 5. maí 1591 og aftur önnur af 21. aprilis 1619 hvar þeim var lofað að búa sína lífstíð á kóngs- og krónunnar jörðum og skyldu ekki landsskuldir hækka á þeim. Þó var þar með sá skilmáli að landsetar betri jarðir með húsabyggingu og túngörðum og síðan haldi þeim við góða bygging. Þrem árum seinna, 1622 (29. Nóv., í 4. art. þeirrar foroðningar), býður kóngur að allir bændur á Íslandi útvegi sér sjálfir húsavið til að byggja og bæta sín hús og garða, eftir þeirra efnum. Hér lýtur fororðn. 15. maí 1705 og nú síðast fororðn um prestsekknajarðir 5. júní 1750. Hér af sérðu að þú hefur engu harðari kjör á Konungsstöðum en þar á móti stórmikil fríheit og óðalsrétt að auki. Hér hjá óska eg þér að þú njótir betur laga en þú ert réttorður að bera þau fyrir þig. Þess getur hvergi að þú eigir að hlaða faðmslangan vegg á ári heldur segir Landsleigub. (3. kap.): Landsdrottinn er skyldur að fá við til að halda uppi húsum svo að þar sé óhætt mönnum og fé... En ef hann fær við til þá skal leiguliði ábyrgjast þó hús falli niður og hlaðs vegg, faðm saman eða lengri. Það er meiningin. Þegar húsveggi þarf að hlaða þá á landsdrottinn að fá leiguliða  stoðir og styttur og setja við hús svo hús falli ekki á meðan. En leiguliði á svo haganlega að byggja veggina að ei þurfi hús ofan að taka þar fyrir. Má hann því ekki hlaða alla veggina í senn, heldur á hann að hlaða veggi faðm saman eða lengra, svo langt sem styttur hrökkva til stuðnings. Þetta stykki af veggnum áttu að upp að hlaða þangað til það er svo hátt orðið að þaðgetur stutt húsið í þeim stað. Þá færir þú styttur og byggir eins vegginn þangað til þú hefur fullbyggt húsveggina allt um kring svo húsið stendur fyrir það. Hér getur þess að landsdrottin fái við til að halda uppi húsi en ei er sagt: til að byggja það. Þó að byggingarviður sé í sama kapítula skilinn af hendi landeiganda, með því leiguliði skal ei ábyrgjast þótt hans hús fyrnist. Þessi fyrri lagagrein má að sönnu ná heim til vorra bygginga en átti helst við það byggingarform, sem mest var brúkað hér á landi þann tíð lögbók vor var út gefin, en nú er mjög farin að úreldast nema myndin sést á fáeinum kirkjum. Grágás talar svo hér um (Lbr.þ., kap. 46): Leigumaður  á að ábyrgjast hús að ei falli ofan ef honum ertu steður til fengnar og hefja upp of faðm 1) saman og hlaða svo veggi , þ.e. föðmum saman svo lengi sem þarf. 1) steður ... faðm: hússtoðir til þess afhentar og að byggja upp faðmslengd(ir)? af húsi. Sjaldgæf er ft. Steður = stoðir. Tilvitnunin á við sama kap. Grág. II. Sem á undanfarinni síðu. Viðlíka er leiguliðaskylda í gulaþingslögum (Búnaðarb., kap. 1): Leiguliði skal þekja vel og halda droplausum húsum. 1) Hann skal uppi halda torfvölum 2) og vindskeiðum og krókaröftum og búa svo um að ei komi slag á vegg. Er þessi grein innfærð í Norsku lög (3.14.30). Hér sérðu að það er ber voði fyrir jarðarníslumenn að þykjast afsakanlegir þegar þeir klambra upp veggfaðm á ári. 1) koma í veg fyrir húsleka.
2) Torfvölur (ft. –velir) voru langbönd, sett fremst ofan á þakskör á báðum húshliðum svo þaktorf brattrar súðar skriði ekki fram af. Böndin (sívalt mjótt greni) voru sjaldan kanthöggvin að ráði.

Atli* er eitt af ritunum í Riti Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal og fæst hér á Náttúrumarkaði.

*Atli eður ráðagjörðir yngismanns um búnað sinn helst um jarðar- og kvikfjárrækt aðferð og ágóða með andsvari gamals bónda. Samanskrifað fyrir fátækis frumbýlinga, einkanlega þá sem reisa bú á eyðijörð.

Ljósmynd: Birkigreinar, Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
May 21, 2011
Tilvitnun:
Björn Halldórsson í Sauðlauksdal „Atli spyr að fleiri vorverkum - Atli VII“, Náttúran.is: May 21, 2011 URL: http://natturan.is/d/2009/08/31/atli-spyr-ao-fleiri-vorverkum-atli-vii/ [Skoðað:Jan. 27, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Aug. 31, 2009
breytt: May 21, 2011

Messages: