Nýlega birti Ríkisendurskoðun niðurstöður sínar af stjórnsýsluúttekt á starfsemi Umhverfisstofnunar þar sem skipulag og stjórnun UST hlýtur nokkuð harða gagnrýni.

Í úttektinni segir í lokin m.a.: „Til að leysa úr innri vanda stofnunarinnar þurfa að koma til skipulagsbreytingar innan hennar og/eða hugsanlegar breytingar í starfsmannahaldi. Enn fremur virðist nokkuð tilviljanakennt hvaða mál eru sett í forgang; huga þarf betur að forgangsröðun verkefna í samvinnu við umhverfisráðuneytið.“1)


Davíð Egilsson forstjóri stofnunarinnar hefur gert verulegar athugasemdir við aðferðir og framkvæmd úttektarinnar. Sjá fréttatilkynninguna. Hann tekur m.a. út tvö atriði og segir að „rekstur og uppbygging þjóðgarða og annarra friðlýstra svæða sé mun fjárfrekari en þær fjárveitingar sem stofnunin fær til þess málaflokks. Og að vinna við innleiðingu og framkvæmd alþjóðlegra skuldbindinga sem Ísland hefur gengist undir séu langt umfram fjárveitingar sem veitt er til þeirra verka“2).
Ríkisendurskoðun svarar fréttatilkynningunni á vef sínum daginn eftir (sjá).
Það virðist þó nokkuð ljóst að hin unga stofnun (stofnuð þ. 01. 01. 2003 við samruna þriggja stofnana, þ.e.: Hollustuverndar ríkisins, Náttúruverndar ríkisins og embætti Veiðistjóra auk hreindýraráðs og verkefnum á sviði dýraverndar) hefur verið ofhlaðið verkefnum en fjárveitingar ekki verið í samræmi við ábyrgðarpakkann.
-
1)Úr kafla 6.4 á bls. 46 í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á UST.
2)Af bls. 1 í fréttatilkynningu frá Davíð Egilssyni forstjóra UST.

Birt:
Oct. 15, 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Forstjóri Umhverfisstofnunar gagnrýnir stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar“, Náttúran.is: Oct. 15, 2006 URL: http://natturan.is/d/2007/03/19/gagnr_rikisendursk/ [Skoðað:Sept. 27, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: March 19, 2007
breytt: May 2, 2007

Messages: