Málþing undir yfirskrifinni „Menntun til sjálfbærni“ verður haldið í Norræna húsinu laugardaginn 16. nóvember 2013 kl 10-12:30.

Dagskráin byggir á erindum starfandi kennara og umræðum um listir og  menntun til sjálfbærni
Í kjölfarið býðst þátttakendum leiðsögn um yfirstandandi sýningu Norrænahússins.

Hugrún Þorsteinsdóttir arkitekt og kennari FB - Hvernig nálgast ég menntun til sjálfbærni í starfi?

Í kennslu jafnt á grunnskóla- sem framhaldskólastigi hef ég leitast við að flétta sjálbærar áherslur inn í listræn verkefni. Sú nálgun hefur í senn skapað grundvöll spennandi umræðna og verið uppspretta skapandi nemendaverkefna.  Í erindinu mun ég kynna nokkur verkefni. Meðal annars Regnbogabrú sem var evrópskt samvinnuverkefni, hönnunarverkefni í FB þar sem lögð er áhersla á að halda við handverkshefð milli kynslóða auk Ferðaflækju á flakki sem unnin var á Barnamenningahátíð þar sem samspil lista og nærumhverfis var kveikja nemendaverkefna.

Ásdís M. Spanó, myndlistamaður og kennari við Hönnunar- og handverksskólann, nemandi í safnafræði Listkennsla, söfn og menntun til sjálfbærrar þróunar

Erindi Ásdísar fjallar um söfn sem námsvettvang í menntun til sjálfbærni. Í erindinu fjallar hún um námskeið fyrir 6-9 ára börn sem haldin voru í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur og Félagsmiðstöð Vesturbæjar. Skoðað er hvernig myndlist og umhverfi safna getur aukið skilning á tengslum listkennslu og sjálfbærrar þróunar.

Guðrún Gísladóttir listamaður og kennari í Sæmundarskóla - Líf og list á landi

Erindið er í formi kynningar á kennsluvefnum Líf og List á landi sem er hluti af mastersverkefni mínu. Meginmarkmið verkefnisins er að tengja saman náttúrugreinar og list- og verkgreinar en jafnframt er í verkefninu lögð áhersla á heildstæða skólasýn og  menntun til sjálfbærni. Í því felst meðal annars að kennsluverkefni veki nemendur til umhugsunar um eigið umhverfi, hvernig þeir nýta það og umgangast það. Þeim er jafnframt gefinn kostur á að tengjast eigin umhverfi á jákvæðan hátt með útiveru þar sem nánasta umhverfi er bæði kveikja að verkefnum og sýningarrými. Endurvinnsla, endurhönnun og nýting efniviðar úr nærumhverfi er þar einnig drjúgur þáttur.

Ása Hlín Svavarsdóttir leikari og kennari í Grunnskóla Borgarfjarðar - Fjölbreyttir kennsluhættir og vistvæn skapandi hugsun í gegnum söguaðferð.  

Ruslaþorpið er verkefni þar sem aðalmarkmiðið er að nemendur kynnist og tileinki sér vistvæna og skapandi hugsun  og fái að spreyta sig í að vinna skapandi. Verkefnið var unnið með 3-4 bekk í Hvanneyrardeild Grunnskóla Borgarfjarðar veturinn 2012-13. Kveikjan að verkefninu er stutt saga um lítið þorp í fjarlægum dal. Íbúar þorpsins hafa átt þar lengi heima en komu upphaflega úr mörgum fjarlægum stöðum heimsins. Tvö stór vandamál voru hinsvegar til staðar í þessu litla samfélagi, atvinnuleysi var mikið og ruslahaugur þorpsins  orðin svo fullur að úrgangur og rusl ýmiskonar flæddi um götur bæjarins. Sagt verður frá ferlinu og úrlausnum sem nemendur fundu

Magnús Valur Pálsson grafískur hönnuður og kennari Hlíðaskóla, Heiða Lind Sigurðardóttir myndlistarmaður og kennari Aþjóðaskólanum Garðabæ - Gagnvirkt námsefni kolefnisbindingu.

Fyrirlesturinn fjallar um gerð stafræns fræðsluefnis um kolefnisbindingu og loftlagsmál fyrir 10-12 ára börn sem unnið var fyrir Orkuveitu Reykjavíkur sumrið 2013. Á þeirra vegum hefur verið unnið að svonefndu CarbFix verkefni sem fæst við þróun tækni til að binda koltvísýring varanlega í jarðlögum til að draga úr gróðurhúsáhrifum. CarbFix verkefnið miðar að því að kanna fýsileika steindabindingar djúpt í berglögum í nágrenni Hellisheiðarvirkjunar. Rætt verður verður m.a. um hvernig listgreinakennarar og aðrir geta nýtt sér leikinn í eigin starfi.

Fundarstjóri: Ásthildur Jónsdóttir lektor Listaháskóla Íslands (astajons@lhi.is.

Ljósmynd: Fætur í sandi, ljósm. Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
Nov. 14, 2013
Höfundur:
Norræna húsið
Uppruni:
Norræna húsið
Tilvitnun:
Norræna húsið „Menntun til sjálfbærni“, Náttúran.is: Nov. 14, 2013 URL: http://natturan.is/d/2013/11/14/menntun-til-sjalfbaerni/ [Skoðað:March 20, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: