Þegar veður er gott, landsmenn í fríi og fáir við tölvu, stendur Orf Líftækni hf. í markvissri auglýsingaherferð í gegnum gagnrýnislausa fjölmiðla. Þar hefur verið talað um „stórfellda akuryrkju" á erfðabreyttu lyfjabyggi um allt land, í útiræktun og fullyrt að bændur bíði í röð eftir að fá að rækta þetta. „Verðmætara en gull" segir í millifyrirsögn Fréttablaðsins þann 10. júlí, já hvert gramm er mjög verðmætt í líftækni. – Það er greinilega ekki hægt að treysta fjölmiðlum til að standa fyrir eigin og nauðsynlegri rannsóknarvinnu í þessum málum. Gagnrýnisleysi blaðsins til að grafast fyrir um það hvað býr að baki þessum fullyrðingum er áberandi, áhugaleysi þess á sjónarmiðum þeirra sem hafa bent á að fara beri með gát í að sleppa erfðabreyttum lífverum út í náttúru Íslands er algert. Í orðum ritstjóra Fréttablaðsins í leiðara sínum 13. júlí sl. fólst í ofanálag hreinlega hótun í garð umhverfisráðherrans ef hún skyldi leyfa sér að greiða ekki götu Orf Líftækni í alla staði. Kynningarátak um erfðabreyttar lífverur (www.erfdabreytt.net) sendi frá sér fréttatilkynningu til allra fjöl- og netmiðla um málið stuttu seinna til að leiðrétta rangfærslurnar – ekki eitt orð hefur birst.Hver er raunveruleikinn í þessu máli?

1. Útiræktun á erfðabreyttum lífverum Orf Líftækni er háð leyfi sem veitt er skv. ESB tilskipunum, hvort sem hún er til matvælaframleiðslu eða lyfjaframleiðslu. Þetta gildir um öll fyrirtæki innan EES og ESB. Orf Líftækni hefur ekki sótt um leyfi til framleiðslu utan dyra, einungis um leyfi til tilrauna og Umhverfisstofnun ber fulla ábyrgð á að afurðir frá þeirri ræktun fari ekki á markað. Þannig að það er fullkomlega tilgangslaust af Orf Líftækni að tala um þessa „stórfellda akuryrkju á erfðabreyttu byggi" sem fyrirtækið boðar í fjölmiðlaumfjöllun um fyrirtækið. Leyfið sem Orf Líftækni fékk gildir einungis til að bera saman tvö mismunandi yrki (þar af eitt sem Orf Líftækni hefur einkaleyfi á) og ef milljarðar eru í húfi þá er það ekki af „framleiðslunni" sem verður í Gunnarsholti á þessum tilraunareit því þar verða aldrei framleidd lyfjaprótein í erfðabreyttu byggi til að senda á markað.

2. Útiræktun Orf Líftækni hf. er að eigin sögn ætluð snyrtivöruframleiðslu, sem sagt hrukkukremi sem hefur ákveðinn markað og gefur góðar tekjur fyrir fyrirtækið. Björn Lárus Örvar sagði sjálfur á opnum fundum í Gunnarsholti og á Grand Hótel í Reykjavík að lyfjaprótein fyrir lyfjaiðnaðinn séu of verðmæt til að taka þá áhættu að rækta utandyra. Samkvæmt því er eini tilgangurinn með „stórfelldri útiræktun" erfðabreyttra lyfjaplantna Orf Líftækni að það er ódýrara að framleiða prótein í hrukkukrem úti undir berum himni en í gróðurhúsi.

3. Nokkur öflug félagasamtök (Neytendasamtökin, Slow Food Reykjavík, Matvís, NLFÍ, VOR lífrænir bændur, Náttúruverndarsamtök Suðurlands og Dýraverndunarsamband Íslands) lögðu fram vel rökstudda stjórnsýslukæru gegn leyfisveitingu til Orf Líftækni fyrir ári síðan. Ákvörðunar umhverfisráðherra er að vænta í ágúst. Sú kæra, rökstudd með álitum ýmissa sérfræðinga og niðurstöðum vísindalegra rannsókna, undirstrikar að ekkert lögbundið áhættumat hefur farið fram. Ein rannsókn hefur farið fram sem á að sýna að bygg víxlfrjóvgast ekki við aðrar plöntur og að það dreifir sér lítið. Þessa rannsókn vísa umsækjendur (Orf Líftækni) oftast til sem sönnun þess að áhættulaust sé að stunda ræktun lyfjaplantna úti undir berum himni. Sá hængur er hins vegar á að hún var framkvæmd af aðila sem þá var hluthafi í Orf Líftækni, Landbúnaðarháskóla Íslands. Enn hefur ekkert verið skoðað t.d. varðandi genaflæði, áhrif á jarðveg, áhrif á dýr, svo eitthvað sé nefnt. Það hefur þar að auki sýnt sig ítrekað, nú síðast fyrir fáeinum dögum, að öryggiskröfum til að hamla aðgengi fugla og dýra á ræktunarsvæðinu eins og skilyrt er skv. leyfinu frá Umhverfisstofnun er alls ekki fylgt.

Enginn fjölmiðlamaður hefur gefið sér tíma til að setja sig inn í málið, t.a.m. lesið kæruna sem er aðgengileg öllum. Fjöldi Íslendinga er á móti því að erfðabreyttum lífverum sé sleppt út í náttúru Íslands, bændur eiga þarna beinna hagsmuna að gæta, s.s. bændur í lífrænum landbúnaði sem hafa sitt lífsviðurværi af ómenguðum jarðvegi og umhverfi. Mikið er gert til að láta þetta líta út eins og einhvern minnihlutahóp, jaðarhóp, já jafnvel skríl sem gerir hvað sem er til að koma í veg fyrir að sprotafyrirtæki með bjarta framtíð færi þjóðarbúinu milljarða á milljarða ofan. Að það sé ekki farið að lögum skiptir svo sem ekki öllu máli – vísindamönnunum liggur á að græða og engin umræða má eiga sér stað nema á þeirra forsendum og þegar þeim hentar, og öll brögð, almannatengslafyrirtækin og lögfræðistofur eru notuð í þeim tilgangi.

Það sem við förum fram á er einfaldlega að framleiðsla Orf Líftækni eigi sér stað í gróðurhúsi eins og í „Grænu Smiðjunni" þeirra og að það sé gert faglega og samkvæmt gildandi lögum, með virðingu fyrir umhverfi og samfélagi. Þeir hafa þegar forskot í samkeppninni í heiminum þar sem orkuverð hér er mun ódýrara en gengur og gerist erlendis – það þarf ekki að ganga nærri landinu og gegn hagsmunum annarra en þegar hefur verið gert, í málaflokki sem er einn sá umdeildasti í heiminum í dag. Ísland á að vera yfirlýst án erfðabreyttra lífvera eins og Írland, Austurríki, Grikkland og fleiri lönd, líkt og Norðurlönd stefna að því að verða.

Ef umhverfisráðherra gefur úrskurð sem verður Orf Líftækni ekki að skapi verða allir Íslendingar og fjölmiðlar að vita að það er ekki með því verið að eyðileggja milljarðadrauma fyrirtækisins – það er einungis verið að tryggja það að fyrirtækið framkvæmi loksins sínar tilraunir í samræmi við alþjóðleg lög svo og íslensk sem gilda í þessum umdeilda málaflokki í allri Evrópu, og að almenn umræða um erfðabreyttar lífverur sé höfð með heiðarlegum rökfærslum, ekki í áróðursskyni. Það ætti ekki að vera svo erfitt.

Orf kynning Grand Hóteli 09062009

Efri myndin er af greinarhöfundi Dominique Pledel Jónsson formanni samtakanna Slow Food Reykjavík á fyrsta kynningarfundi Umhverfisstofnunar v. umsóknar Orf líftækni um tilraunaræktun sem haldinn var í Gunnarsholti þ 26.05.2009. Sjá grein um fundinn hér: http://www.natturan.is/frettir/4432/.

Neðri myndin er af Birni Örvar framkvæmdastjora Orf líftækni á seinni kynningarfundi Umhverfisstofnunar vegna umsóknar Orf um tilraunaræktunina er haldin var á  Grand Hóteli þ. 09.06.2009 en kynning hans var um margt merkileg meðal annars líkir hann ræktun á erfðabreyttu byggi undir berum himni við kynbætur á hundum. Sjá geinar sem fjalla um erfðabreytingar og málefni Orf hér t.h. á síðunni undir „Tengt lesefni“.

Ljósmyndir: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
Aug. 28, 2010
Tilvitnun:
Dominique Plédel Jónsson „Erfðabreytt lyfjabygg í íslenskri náttúru“, Náttúran.is: Aug. 28, 2010 URL: http://natturan.is/d/2010/08/28/erfdabreytt-lyfjabygg-i-islenskri-natturu/ [Skoðað:Feb. 3, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Aug. 29, 2010

Messages: