Íslensk stjórnvöld vilja draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um að minnsta kosti 15% til 2020, miðað við árið 1990. Ríkisstjórnin samþykkti tillögu Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra þess efnis á fundi í dag. Þessi tölulegu markmið verða tilkynnt á næsta samningafundi um loftslagsmál sem hefst í Bonn í næstu viku og verður það í fyrsta sinn sem íslensk stjórnvöld tilkynna á alþjóðavettvangi að þau séu tilbúin að taka á sig skuldbindingar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Samkvæmt Kýótó-bókuninni fékk Ísland heimild til að auka losun sína um 10% á tímabilinu 2008-2012. Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í dag felur því í sér um 25 prósentustiga samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

Nú standa yfir samningaviðræður um nýjar skuldbindingar ríkja heims þegar skuldbindandi ákvæði Kýótó-bókunarinnar renna út árið 2012. Vonast er til að hægt verði að ganga frá samkomulagi á loftslagsráðstefnu í Kaupmannahöfn í desember á þessu ári. Nú þegar hafa mörg ríki tilkynnt um töluleg markmið um samdrátt losunar gróðurhúsalofttegunda fyrir 2020. Evrópusambandið hefur t.d. sagst vera tilbúið að draga úr losun um 30% til 2020 og Noregur, Sviss og Ástralía hafa gefið út svipaðar yfirlýsingar. Nýtt markmið íslenskra stjórnvalda er sambærilegt þeim yfirlýsingum.

Það er mat ríkisstjórnarinnar að hægt sé að ná umræddu markmiði með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og með bindingu kolefnis með skógrækt og landgræðslu. Það mat byggir á niðurstöðum sérfræðinganefndar á vegum umhverfisráðuneytisins sem metið hefur möguleika Íslands til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í hinum ýmsu geirum. Nefndin hefur kynnt stjórnvöldum frumniðurstöður sínar, en mun kynna endanlegar niðurstöður fyrri hluta júnímánaðar. Á grundvelli þeirra verður unnin aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, en þar verður skoðað hvort Ísland geti sett sér enn metnaðarfyllri markmið í minnkandi losun gróðurhúsalofttegunda en nú hefur verið gert.

Í yfirstandandi samningaviðræðum hefur Ísland lagt fram tillögu um að heimila endurheimt votlendis sem aðgerð til að binda GHL, í viðbót við skógrækt og landgræðslu. Verði þessi tillaga samþykkt gæti Ísland hugsanlega tekið á sig metnaðarfyllra markmið.

Fyrir liggur að losun frá stóriðju á Íslandi mun falla undir reglur viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir eftir 2012, samkvæmt EES-samningnum. Þá munu öll stóriðjufyrirtæki í Evrópu, þar á meðal á Íslandi, sitja við sama borð. Vegna þess er líklegt að ákvörðun 14/CP.7, eða hið svokallaða íslenska ákvæði falli brott þegar reglur ESB um losun gróðurhúsalofttegunda frá stóriðju taka gildi 1. janúar 2013. Þá verður ákvörðun um losunarheimildir til stóriðju ekki lengur í höndum íslenskra stjórnvalda.
Birt:
May 29, 2009
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Tímamót í stefnu ríkisstjórnar Íslands um losun gróðurhúsalofttegunda“, Náttúran.is: May 29, 2009 URL: http://natturan.is/d/2009/05/29/timamot-i-stefnu-rikisstjornar-islands-um-losun-gr/ [Skoðað:Aug. 6, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: