Græna netið, félag áhugamanna um umhverfismál í tengslum við Samfylkinguna, stendur á laugardaginn, 16. febrúar, fyrir heimsókn á Varmársvæðið í Mosfellsbæinn að skoða sig um undir leiðsögn heimamanna, njóta útivistar og þiggja veitingar. Samfylkingarfélagar og aðrir áhugamenn um samfélag og náttúru eru velkomnir með í skemmtilega og fróðlega ferð.
 
Hópurinn safnast saman kl. 11:00 á endastöð strætó við Reykjaveg (til austurs af þriðja hringtorginu á Vesturlandsvegi). Gengið um hverasvæðið í Reykjahverfi og upp í hlíðar Reykjafells ef veður leyfir undir leiðsögn Magnúsar Guðmundssonar sagnfræðings. Eftir gönguna þiggur hópurinn hressingu í bústað Hönnu Bjartmars bæjarfulltrúa á bökkum Varmár. Þar verður skipulagsspjall Jónasar Sigurðssonar oddvita Samfylkingarinnar í bænum og þeir Sigurður Ásbjörnsson og Magnús Guðmundsson skýra út jarðfræðina. Gengið niður að dælustöð Orkuveitunnar og gegnum Reykjalundarskóg að gljúfri Skammadalslækjar og síðan í Álafosskvos þar sem Palli hnífasmiður býður fiskisúpu og Katrín Theódórsdóttir lögmaður talar um Varmárdeiluna. Heimsókninni lýkur um 15.30 hjá Hildi Margrétardóttur myndlistarmanni sem sýnir okkur glefsur úr kvikmynd um lífið á Álafossi fyrr á tímum.
 
Til að tryggja að allir fái örugglega sinn skammt af indælli fiskisúpu Palla hnífasmiðs eru ferðalangar beðnir að skrá þátttöku í netfanginu graenanetid@gmail.com. Þetta verður mögnuð vettvangsferð – takið daginn frá og látið fiskisöguna fljúga. Reykvíkingar eru hvattir til að fara til Mosó á vistvænan hátt, með leið 15, sem fer frá Meistaravöllum kl. 10:04, frá Hlemmi 10:18, frá Grensási 10:21 og Ártúni 10:31 (sjá nánar: http://straeto.is/assets/Leidakerfi/xLeidakerfi_graen15.pdf. Það kostar 280 kr. í strætó fyrir þá sem ekki eiga miða, 100 kr. fyri börn 6–8 ára.
Sjá nánar um ferðina á: www.graenanetid.blog.is
 
Birt:
Feb. 14, 2008
Höfundur:
Græna netið
Tilvitnun:
Græna netið „Græna netið - Vettvangsferð á Varmársvæðið“, Náttúran.is: Feb. 14, 2008 URL: http://natturan.is/d/2008/02/14/graena-netio-vettvangsfero-varmarsvaeoio/ [Skoðað:Oct. 4, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: