Í dag, 25. apríl, á degi umhverfisins eru 2 ár síðan þáverandi umhverfisráðherra Jónína Bjartmarz opnaði vefinn Náttúran.is við athöfn á Kjarvalsstöðum. Síðan þá hafa tvær konur sest í stól umhverfisráðherra og margt drifið á daga þjóðarinnar. Árið 2007 var útrásin á fullri ferð og ef til vill lítill hljómgrunnur fyrir sjálfbærum lífsháttum og nægjusemi í neyslu. Nú tveimur árum síðar hafa vindar snúist og helsta von þjóðarinnar og raunar alls heimsins er einmitt breyttir lífshættir, samvinna og aðhald. Sérstaklega í hinum vestrænu löndum. Sóun og óhóf vesturlanda hafa gengið svo nærri auðlindum jarðarinnar að ef allur heimurinn ætti að ganga fram með sama hætti þyrftum við 5 Jarðir til að fullnægja kröfum um hráefni og orku. Og það dygði aðeins tímabundið.


En til að breyta heiminum verður maður að byrja á sjálfum sér. Þegar óstjórn neysluhyggjunnar hefur hlaupið á vegg er betri tími en nokkurntíma til að snúa við blaðinu og hefja líf sem veldur ekki eyðingu auðlinda, fátækt og örbirgð í löndum sem framleiða hráefni og spillingu þeirra sem hagnast á viðskiptunum.


Eitt af meginmarkmiðum vefsins Náttúran.is er að benda á vörur og þjónustu þar sem sjálfbærni, sanngjörn viðskipti og virðing fyrir náttúrunni og fólki að leiðarljósi. Einnig hefur vefurinn reynt að efla þekkingu á íslenskri náttúru og mun á næstu mánuðum auka verulega við þann þátt. Að gerð vefsins hefur komið hópur sérfræðinga og almenns starfsfólks á ýmsum sviðum, um tuttugu manns í heildina. Einnig hefur fjöldi stofnana fyrirtækja, einstaklinga og sjóða lagt verkefninu lið með fjárstuðningi eða hlutafé.


Á síðasta ári opnaði Náttúran.is Grænt Íslandskort sem er samvinnuverkefni við land- og ferðamálafræðistofu Verkfræði og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands og Green Map Systems™. Þar hefur þegar verið kortlagður mikill hluti vistvænnar starfsemi og menningarsetra á Íslandi og í sumar mun enn bætast við kortið. Það mun þá verða eitt metnaðarfyllsta Græna kortið í heiminum en verkefnið er alþjóðlegt og Ísland fyrsta landið sem kortlagt er í heild sinni.


Nú á fyrsta degi þriðja árs í starfi vefsins eygja aðstandendur hans von um að í þeim þjóðfélagsbreytingum sem nú eiga sér stað muni skynsemi, virðing við náttúruna og auðlindir hennar og aðlögun lífshátta okkar til sjálfbærrar sambúðar við land og haf verða leiðarljós leiðtoga okkar og kappsmál þjóðarinnar.  

Birt:
April 25, 2009
Höfundur:
Einar Bergmundur
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Náttúran.is er tveggja ára í dag“, Náttúran.is: April 25, 2009 URL: http://natturan.is/d/2009/04/24/natturan-er-2ja-ara-i-dag/ [Skoðað:Dec. 7, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: April 24, 2009
breytt: April 25, 2009

Messages: