Þetta er grænt skref til framtíðar,“ sagði Ellý Katrín Guðmundsdóttir sviðsstýra Umhverfis- og samgöngusviðs þegar Vinnuskóli Reykjavíkur hlaut í dag alþjóðlega umhverfismerkið Grænfánann.

„Við þurfum ekki að kvíða framtíðinni ef ykkar kynslóð mun starfa í anda sjálfbærrar þróunar og gæta þess að öll skref séu græn,“ sagði Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra þegar hún afhenti Vinnuskóla Reykjavíkur grænfánann fyrir hönd Landverndar.   

Grænfáninn var dreginn að húni á Miklatúni föstudaginn 3. júlí. Fram kom þar að Vinnuskólinn hefur bryddað upp á nokkrum nýjum í sumar vegna Grænfánans til dæmis að flokka vinnuhópar skólans allan úrgang sem kemur frá þeim. Þá voru ráðnir átta fræðsluleiðbeinendur sem sjá um fræðslu til allra hópa skólans. Vinnuhóparnir setja sér einnig sína eigin umhverfisstefnu með því að ákveða meðal annars að fara vel með verkfæri, koma með nesti í boxum í stað einnota umbúða, hjóla eða ganga til vinnu, fara vel með vatn eða annað því um líkt.

Hver skóli sem hlotið hefur Grænfánann þarf árlega að bæta umhverfisstarf sitt til að halda fánanum. Um það bil 80 skólar á Íslandi eru nú með Grænfánann, í Reykjavík hafa Grænfánann auk Vinnuskólans 6 leikskólar, 11 grunnskólar og 2 framhaldsskólar. „Við höldum reglulega fundi í umhverfisráði Vinnuskólans til að finna leiðir til að bæta borgina og miðla fræðslu til nemenda í skólanum,“ segir Jón Ingi Hlynsson nemandi í Vinnuskólanum.

„Vinnuskólinn er útiskóli og eru nemendur og starfsfólk því í mikilli nánd við umhverfið,“ segir Þóra Bryndís Þórisdóttir umsjónamaður Grænna skrefa hjá Vinnuskólanum, „þannig veitist nemendum ótal tækifæri til fræðslu og umræðna um nánasta umhverfi, hringferil náttúrunnar, plöntur, dýralíf í borg og fleira.“

Sjá skóla með „Grænfánann“ og þá sem enn eru „Á grænni grein“ (í ferli að fá Grænfánann) hér á Grænum síðum.

Mynd: Ásgerður Ósk Ásgeirsdóttir, Naomi Róbertsdóttir og Jón Ingi Hlynsson nemendur í Vinnuskóla Reykjavíkur við hafhendingu Grænfánans á Miklatúni í dag. Mynd frá Reykjavíkurborg.
Birt:
July 3, 2009
Tilvitnun:
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur „Vinnuskóli Reykjavíkur fær Grænfánann“, Náttúran.is: July 3, 2009 URL: http://natturan.is/d/2009/07/03/vinnuskoli-reykjvaikur-faer-graenfanann/ [Skoðað:May 28, 2020]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: