Landgræðsluverðlaunin afhentSigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, veitti landgræðsluverðlaunin við hátíðlega athöfn í Gunnarsholti á dögunum. Að þessu sinni komu verðlaunin annars vegar í skaut ábúenda á Bíldsfelli II og III í Grímsnes- og Grafningshreppi og hins vegar Hafnarfjarðarbæjar.

Landgræðsla á Bíldsfelli á sér langa sögu, allt frá því húsdýraáburður, moð og annað sem til féll á búinu, var borið í rofabörð og moldarflög í fjallinu upp úr 1960. Þá voru haldnir sérstakir fjölskyldudagar þar sem landið var grætt og ábúendur fengu liðsinni áburðarflugvélar Landgræðlunnar til áburðardreifingar. Árni Þorvaldsson og Sigrún Hlöðversdóttir, Bíldsfelli III, og Guðmundur Þorvaldsson og Kristín Guðrún Gísladóttir, Bíldsfelli II, hófu þátttöku í Heimalandaverkefni Landgræðslu ríkisins árin 1991 og 1992, sem síðar varð Bændur græða landið en alls hafa ábúendur á Bíldsfelli II og III unnið að landgræðslu á um 360 hekturum. Jörðin er nú  að mestu gróin og víða kominn birkiskógur þar sem áður var örfoka land.

Hafnarfjarðarbær hefur lengi unnið ötullega að landgræðslu og gróðurverndarmálum. Sveitarfélagið kom á sínum tíma upp beitarhólfi á landi sínu í Krýsuvík fyrir sauðfé bæjarbúa sem varð öðrum sveitarfélögum hvatning til uppsetningu fleiri beitarhólfa. Þannig náðist það langþráða takmark að banna lausagöngu búfjár á öllum Reykjanesskaga og tókst að friða þúsundir hektara fyrir beit og gera tugi kílómetra af girðingum óþarfar. Þá hefur Hafnarfjarðarbær lagt mikla áherslu á að endurreisa landkosti í Krýsuvík frá 1990, þegar uppgræðslustarfið hófst.

Landgræðsluverðlaunin eru árlega veitt einstaklingum, félagasamtökum og skólum sem unnið hafa að landgræðslu og landbótum. Verðlaunagripirnir, Fjöregg Landgræðslunnar, voru unnir af Eik-listiðju á Fljótsdalshéraði.

 

Ljósmynd: Landgræðsluverðlaunin afhent; Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri, Sævar Andri Árnason, sem tók við verðlaununum fyrir hönd foreldra sinna, Árna Þorvaldsonar og Sigrúnar Hlöðversdóttur, Guðmundur Þorvaldsson og Kristín Guðrún Gísladóttir, Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar og umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson. Myndataka: Landgræðsla ríkisins.

Birt:
Dec. 3, 2013
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Ábúendur á Bíldsfelli II og III og Hafnarfjarðarbær hlutu landgræðsluverðlaunin“, Náttúran.is: Dec. 3, 2013 URL: http://natturan.is/d/2013/12/03/abuendur-bildsfelli-ii-og-iii-og-hafnarfjardarbaer/ [Skoðað:July 25, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: