Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, kynnti áherslur í umhverfismálum vegna formennsku Íslands í norrænu ráðherranefndinni árið 2014, á fundi norrænu umhverfisráðherranna í Osló í dag. Yfirskrift formennskunnar er Gróska – lífskraftur þar sem aðaláherslan verður á lífhagkerfið.

Formennska í samstarfsvettvangi norrænu ríkisstjórnanna, Norrænu ráðherranefndinni, gengur á milli norrænu ríkjanna fimm og tekur Ísland við stjórnartaumunum á næsta ári. Þema Íslands verður lífhagkerfið þar sem áherslan verður á sjálfbæra framleiðslu og bætta nýtingu hráefnis til að minnka umhverfisáhrif og efla nýsköpun og atvinnulíf á Norðurlöndum. Er markmiðið að styrkja lífhagkerfið á Norðurlöndum og ýta undir stefnumörkun í þessum efnum.

Loftslagsbreytingar, vernd sjávar og vefnaður

Á fundi sínum í dag komust norrænu umhverfisráðherrarnir einnig að samkomulagi um að vinna áfram saman að því að komið verði á alþjóðlegu loftslagssamkomulagi og ítrekuðu stuðning við loftslagssamninga Sameinuðu þjóðanna. Er ljóst að þörf er á öflugum aðgerðum af hálfu alþjóðasamfélagsins eigi að tryggja að hitastig í heiminum hækki ekki um meira en tvær gráður.

Ráðherrarnir ræddu einnig hvernig unnt væri að auka umhverfisvernd sjávar í því skyni að takmarka ofauðgun og súrnun.

Þá samþykktu ráðherrarnir tillögu um verkefni með það að markmiði að minnka notkun efna sem eru skaðleg heilsu og umhverfi, auka arðsemi auðlinda og ýta undir sjálfbæra framleiðslu og neyslu í textíl- og fataiðnaði.

Gróska - lífskraftur: Formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2014

Birt:
Nov. 2, 2013
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Formennskuverkefni Íslands kynnt “, Náttúran.is: Nov. 2, 2013 URL: http://natturan.is/d/2013/11/04/formennskuverkefni-islands-kynnt/ [Skoðað:Feb. 3, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Nov. 4, 2013

Messages: