Icelandair hefur markað stefnu í umhverfismálum. Höfuðmarkmið með sérstakri umhverfisstefnu er að lágmarka umhverfisáhrif frá starfsemi Icelandair og taka upp vinnubrögð sem stuðla að sjálfbærni með því að nýta eins vel og kostur er þær auðlindir sem félagið hefur yfir að ráða.

Icelandair og loftslagsbreytingar: Stefnt að jafnvægi árið 2020
Icelandair leggur metnað í að draga úr mengandi útblæstri frá flugvélum. Í samræmi við markmið Alþjóðasambands flugfélaga (IATA) mun Icelandair halda áfram að leitast við að minnka kolefnisútblástur. Við stefnum að jafnvægi í kolefnisútblæstri (carbon neutral growth) árið 2020 og styðjum heils hugar þá framtíðarstefnu Alþjóðasambands flugfélaga að kolefnisútblæstri frá flugsamgöngutækjum verði hætt árið 2050.

Flugfloti Icelandair: Umhverfisvænna flug með vængflipum og betri leiðsögutækni
Sparneytnar flugvélar eru lykilatriði þegar draga á úr útblæstri kolefnis.  Með þetta í huga hefur Icelandair nýtt ýmsar tækniframfarir og –úrbætur, bæði í hönnun flugvéla og flugtækni. Sem dæmi má nefna að félagið hefur látið setja vængflipa (winglets) á allar B757-200 vélar sínar. Þessi einfalda viðbót við vængina minnkar eldsneytisnotkun um 4% með því að draga úr vindmótstöðu. Niðurstaðan verður minni útblástur.

Icelandair hefur einnig látið setja í vélar sínar nýjan tæknibúnað eins og P-RNAV (Precision Area Navigation) og ADS-B (Automatic Dependent Surveillance-Broadcast), nýjung í leiðsögukerfum sem ætlað er að auðvelda stjórn flugumferðar. Nýja kerfið gerir mönnum kleift að fylgjast með flugumferð frá fleiri stöðum en á jörðu niðri og í flugvélum með þennan búnað er hægt að fá leiðsögn og nákvæma staðsetningu frá gervihnöttum. Hin nýja leiðsögutækni verður til þess að tilskilið bil á milli flugvéla af öryggisástæðum styttist úr 80 sjómílum (148 km) í 5 sjómílur (9,2 km). Þar með opnast fleiri styttri flugleiðir þar sem eldsneyti sparast og útblástur minnkar.

Þegar aðstæður leyfa koma vélar Icelandair inn til lendingar í aðflugi með jafnri og stöðugri lækkun jafnframt því sem beitt er sérstökum aðferðum til að draga úr hávaða við aðflug. Þetta minnkar ekki aðeins hávaðamengun heldur sparast líka eldsneyti og útblástur minnkar. Í akstri á flugbrautum er það regla hjá Icelandair að notast við einn hreyfil, þar sem aðstæður leyfa og með mismunandi farflugshraða, farflugshæð, farflugsleiðum og flugtaksleiðum upp í farflugshæð er útblæstri við þessar aðstæður haldið í lágmarki.  

Heildaraðgerðir: Endurnýjanleg orka og betri nýting
Stefna Icelandair er að verða „grænt fyrirtæki“.  Ráðstafanir hafa verið gerðar um borð til að gera reksturinn „grænni“, með því að t.d. draga úr pappírsnotkun, minnka viðbótarbirgðir af vatni, selja máltíðir á öllum flugleiðum og fækka hlutum í bítibúri (glösum, diskum, matseðlum, tímaritum o.s.frv.). Að auki hefur verkaskiptingu áhafnar í farþegarýminu verið breytt svo að nú er einum færra en áður í áhöfn um borð. Allt verður þetta til þess að draga úr óþarfa þyngd um borð í vélum félagsins. Þegar flugvél er léttari nýtir hún eldsneytið á hagkvæmari hátt og dregið er úr útblæstri.

Icelandair hefur einnig gripið til ýmissa umhverfisvænna ráðstafana í starfsemi sinni á jörðu niðri, í skrifstofuhaldi og á öðrum rekstrarsviðum. Áhersla er lögð á endurvinnslu og minnkun pappírsnotkunar. Öll raforka, sem við notum, er fengin frá endurnýjanlegum orkugjöfum (vatnsafl og jarðhitaorka) og öll ljós eru tengd við tímarofa svo að ekki logar á þeim alla nóttina þó einhver gleymi að slökkva.Icelandair hefur í allmörg ár boðið viðskiptavinum að nota rafmiða (e-tickets) og vonumst við til að pappírsmiðar verði úr sögunni innan tíðar. Þess utan hafa æ fleiri þættir starfseminnar og samskipta við viðskiptavini færst af pappír yfir á rafrænt form á Netinu. Þessi samskipti um tölvur eru þægilegri fyrir viðskiptavini og mun umhverfisvænni þar sem dregið er til muna úr öllum pappírsúrgangi.
Kolviðarsjóðurinn: Skógrækt til að binda kolefni
Nýjasta verkefni Icelandair í umhverfismálum er samstarf við Kolvið, kolefnissjóð Íslands, sem gefur viðskiptavinum okkar færi á að leggja sitt af mörkum til að gera flugferðir umhverfisvænni. Þegar viðskiptavinur kaupir flugmiða á vef Icelandair er honum gefinn kostur á að kolefnisjafna flugferðina sem hann á fyrir höndum.

Framlag til Kolviðarsjóðs er breytilegt eftir lengd flugferðar og fer eftir því hversu mikið koldíoxíð tengist flugferðinni sem bókuð er. Framlagið er síðan notað til þess að planta trjám og rækta skóga á Íslandi (sjóðurinn er einnig með ráðagerðir uppi um að styrkja skógrækt í hitabeltinu). Það er viðurkennd aðferð um allan heim að rækta trjáplöntur til þess að binda kolefni í jörðu. Skógar binda drýgstan hluta af koltvísýringi  úr andrúmslofti jarðar, gefa frá sér í þessu ferli lífsnauðsynlegt súrefni og eru þannig í raun „lungu heimsins“.

Skógrækt gegnir mikilvægu hlutverki í umhverfisvernd á Íslandi. Með skógrækt er unnið gegn uppblæstri og komið að nýju á jafnvægi í vistkerfum landsins.

Flugþjónustan IGS verður umhverfisvænni
Icelandair hefur í samvinnu við Flugþjónustuna Keflavíkurfluvelli (Icelandair Ground Services, IGS) unnið að því að færa starfsemi flugþjónustunnar í eins umhverfisvænt horf og kostur er.
Allir flutningabílar og farangursvagnar ganga fyrir umhverfisvænu eldsneyti (t.d. lífeldsneyti eða metangasi). Starfsmenn flugþjónustunnar hafa einnig gripið til samræmdra aðgerða sem miða að því að draga úr eldsneytisnotkun, t.d. að takmarka eins og kostur er akstur á flughlaði og láta ökutæki ekki vera í lausagangi nema brýna nauðsyn beri til. Þar að auki hefur Flugþjónustan Keflavíkurflugvelli sett sér áætlun um hvernig starfsemin muni þróast á næstu árum og þar er gert ráð fyrir að skipt verði úr tækjakosti, sem gengur fyrir eldsneyti, yfir í tæki sem knúin eru raforku (öll raforka, sem Icelandair notar á Íslandi, kemur frá endurnýjanlegum auðlindum).

Umhverfisvæn og hnattræn
Enda þótt við séum sannfærð um að starfsemi Icelandair sé eins umhverfisvæn og kostur er, gerum við okkur grein fyrir að nú er brýnt að hvetja flugsamgöngufyrirtæki um allan heim til að starfa með umhverfisvernd og sjálfbærni að leiðarljósi.

Icelandair hefur heitið fullum stuðningi við Samevrópskt loftrými (Single European Sky, SES), verkefni sem hrundið hefur verið af stað að frumkvæði Evrópustofnunar um öryggi flugleiðsögu (EUROCONTROL). Verkefnið felur í sér að stigið er stórt skref í átt til þess að búa til eitt sameiginlegt loftrými yfir Evrópu með því að byggja upp nýtt net af flugleiðsöguferlum þar sem tekið er fremur mið af flæði flugumferðar en landamærum einstakra ríkja.

Icelandair telur mikilvægt að góð samskipti og samvinna ríki á milli stofnana og fyrirtækja sem koma að flugsamgöngum í Evrópu. Í ljósi þess höfum við verið fylgjandi því að komið verði á í Evrópu viðskiptum með losunarheimildir. Við teljum að þessi viðskipti séu árangursrík aðferð til að draga úr umhverfisáhrifum frá útblæstri og okkur þykir ánægjulegt að skuli gert ráð fyrir að flugsamgöngufyrirtæki séu virkir þátttakendur í þessum viðskiptum með losunarheimildir. Við erum sannfærð um að með því að taka þátt í slíkum viðskiptum muni önnur flugfélög fara að dæmi Icelandair og taka öflugan þátt í að draga úr umhverfisáhrifum sem rekja má til flugsamgangna. Með því að vinna saman og samræma aðgerðir sín á milli geta flugfélög náð mun betri árangri í viðleitni sinni til að gera flugsamgöngur eins umhverfisvænar og tök eru á.

Ítarefni:
Talið er að 2-3% af gróðurhúsalofttegundum í andrúmslofti jarðar komi frá flugsamgöngutækjum. Fyrir þá sem vilja kynna sér málið betur, bendum við á skýrslu sem var gefin út af Milliríkjanefnd um loftslagsbreytingar, IPCC, nefnd sem starfar á vegum Sameinuðu þjóðanna og deildi friðarverðlaunum Nóbels með Al Gore, fyrrum varaforseta Bandaríkjanna, árið 2007.

Af hverju Kolefnisjöfnun?
Nú geta allir farþegar okkar kolefnisjafnað flugferðir sínar með einföldum hætti. Við höfum reiknað út hversu mikið koldíoxíð (CO2) að meðaltali tengist flugi hvers farþega til allra áfangastaða okkar. Á borðanum hér við hliðina á býðst þér að greiða framlag til Kolviðarsjóðsins sem verður notað til að planta trjám á Geitasandi á Suðurlandi, fyrsta skógræktarlandi Kolviðar. Framlagið er breytilegt eftir lengd flugsins hverju sinni og nemur kostnaði við að planta nógu mörgum trjám til að kolefnisjafna ferðir þínar.

Mikið hefur verið rætt að undanförnu um svokölluð gróðurhúsaáhrif. Notkun jarðefnaeldsneytis, eyðing skóga og jarðvegseyðing eru talin vera helstu orsakavaldar aukins magns gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu, sem aftur leiðir til hlýnunar. Koldíoxíð (CO2) er að magni til talin ein mikilvirkasta gróðurhúsalofttegundin. Ein leið til að stemma stigu við þessari þróun er að binda kolefni í jörðu með ræktun trjáplantna. Með því að binda kolefni úr koldíoxíði (CO2) andrúmsloftsins með skógrækt verður til súrefni.

Við erum stolt af að vera með í þessu mikilvæga verkefni og skorum á alla okkar farþega að kynna sér málið og taka þátt í því með okkur!

Kolvidur.is

Birt:
July 15, 2013
Höfundur:
Icelandair
Uppruni:
Icelandair
Tilvitnun:
Icelandair „Umhverfisstefna Icelandair“, Náttúran.is: July 15, 2013 URL: http://natturan.is/d/2013/07/15/umhverfisstefna-icelandair/ [Skoðað:Sept. 20, 2020]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: