Hér að neðan má sjá ályktun Náttúruverndarsamtaka Suðurlands frá 27. júní 2013 til umhverfis- og auðlindaráðherra Sigurðar Inga Jóhannssonar í tilefni af ákvörðun hans um frestun stækkunar friðlands í Þjórsárverum:

Náttúruverndarsamtök Suðurlands mótmæla frestun umhverfis- og auðlindaráðherra á ákvörðun um stækkun friðlands í Þjórsárverum. Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum er rökrétt framhald rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða þar sem athafnasvæði mögulegrar Norðlingaölduveitu var sett í verndarflokk. Rammaáætlun byggir á löngu og ítarlegu ferli samráðs þar sem fjöldi hagsmunaaðila, þ.á.m. Landsvirkjun, hefur haft tækifæri til álitsgjafar og umsagna á öllum stigum.

Stækkun friðlands í Þjórsárverum er vernd gagnvart orkuvinnslu sem á sér lagastoð í sjálfri rammaáætlun. Fullyrðingar Landvirkjunar um ólögmæti stækkunar friðlandsins vegna skorts á samráði fá því ekki staðist. Fullyrðingar umhverfis- og auðlindaráðherra um alvarlegar athugasemdir sveitarfélaga við stækkun friðlandsins hafa ennfremur verið hraktar á opinberum vettvangi.

Náttúruverndarsamtök Suðurlands gagnrýna einnig hvernig staðið var að afboðun samkomu vegna áformaðrar undirskriftar stækkunar friðlands í Þjórsárverum. Samtökin afþakka frekari afskipti Landvirkjunar af friðlýsingum svæða í verndarflokki rammaáætlunar. Samtökin skora á umhverfis- og auðlindaráðherra að standa vörð um rammaáætlun og jarða hið fyrsta þá stríðsöxi sem Landsvirkjun reiddi á loft með síðbúnum afskiptum af máli sem þegar var víðtæk sátt um í þjóðfélaginu.

Ljósmynd: Úr Þjórsárverum, af vef Landverndar.

Birt:
June 28, 2013
Tilvitnun:
Náttúruverndarsamtök Suðurlands „Ályktun vegna frestunar á stækkun friðlands í Þjórsárverum“, Náttúran.is: June 28, 2013 URL: http://natturan.is/d/2013/06/28/lyktun-vegna-frestunar-staekkun-fridlands-i-thjors/ [Skoðað:Jan. 31, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: