Nemendur í 5. og 6. bekk Kerhólsskóla í Grímsnes- og Grafningshreppi hljóta útnefninguna Varðliðar umhverfisins fyrir verkefnið Breytum rétt - mengum minna. Verkefnið gengur út á að nemendurnir safna saman smáraftækjum á borð við farsíma og tónhlöður í sérstök safnílát sem þeir hafa komið fyrir á áberandi stöðum í sveitarfélaginu. Nemendurnir hafa kynnt verkefnið með ýmsum hætti fyrir sveitungum sínum, s.s með því að skrifa í fréttablöð, útbúa kynningu fyrir samnemendur og bækling sem var dreift á netinu og í fréttablað sveitarfélagsins. Fyrir raftækin fæst svo skilagjald sem renna mun óskipt til UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Segir í umsögn valnefndar að með verkefninu Breytum rétt - mengum minna hafi nemendur í Kerhólskóla vakið athygli á neyslu og jafnvel ofneyslu á smáraftækjum og lagt sitt af mörkum til þess að gera öllum í samfélaginu kleift að skila þeim af sér á sem bestan hátt fyrir umhverfið.

Nemendur í 7. bekk Melaskóla í Reykjavík hljóta útnefninguna Varðliðar umhverfisins fyrir leikrit um umhverfismál sem sett var upp á jólaskemmtun skólans í desember síðastliðnum. Leikritið, sem byggir á smásögu eftir Ivan Gantschev, er ádeiluverk þar sem sjónum er beint að lífsgæðakapphlaupi og neyslumynstri nútímafólks. Um stóra uppfærslu er að ræða sem allir 80 nemendur árgangsins komu að og höfðu þeir mikil áhrif á útlit og innihald verksins. Var verkið sýnt á fjórum sýningum fyrir nemendur og foreldra. Er það mat valnefndar að „það sýni ábyrgð, áræðni og áhuga að velja að setja upp leikrit þar sem fjallað er um jafn aðsteðjandi umhverfismál og neyslu og græðgi. Nemendur vöktu athygli á málaflokknum með nýstárlegum hætti og hvöttu nærsamfélagið sitt til að taka gildismatið til endurskoðunar.“

Loks var Narfi Hjartarson, nemandi í 10. bekk í Patrekskóla – Grunnskóla Vesturbyggðar, útnefndur Varðliði umhverfisins. Narfi stofnaði Facebooksíðuna Fegrunarátak Patreksfjarðar þar sem hann fjallar um ýmislegt tengt umhverfismálum og ræktun. „Hann fer víða um sitt nánasta umhverfi vopnaður myndavél og tekur myndir af því sem betur mætti fara og kemur með uppbyggilegar ábendingar um umbætur. Einnig deilir hann góðum hugmyndum um endurvinnslu, nýtni og ræktun sem hann sankar að sér héðan og þaðan,“ segir í umsögn valnefndar sem telur frumkvæði Narfa sýna „að öll eigum við og getum haft áhrif á umhverfismál í stórum og smáum skilningi.“

Nemendur Kerhólsskóla og Narfi úr Patreksskóla gerðu sér sérstaka ferð til Reykjavíkur í dag til að veita viðurkenningum sínum viðtöku. Svo vildi hins vegar til að þeir nemendur Melaskóla sem hlutu viðurkenninguna, þ.e. 7. bekkir skólans, eru staddir í skólabúðum á Reykjum í Hrútafirði þessa vikuna. Þeir voru þó viðstaddir athöfnina með fulltingi tölvu- og fjarskiptabúnaðar og fylgdust með henni í gegn um netið.

Ljósmynd: Myndin er af „Varðliðum umhverfisins“ börn úr Kerhólsskóla í Grímsnes- og Grafningshreppi sem gerðu sér ferð til Reykjavíkur til að taka við sinni viðurkenningu fyrir útnefninguna, Guðrún A. Tryggvadóttir.

 

Birt:
April 24, 2013
Tilvitnun:
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „Varðliðar umhverfisins útnefndir“, Náttúran.is: April 24, 2013 URL: http://natturan.is/d/2013/04/24/vardlidar-umhverfisins-utnefndi/ [Skoðað:Dec. 7, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: