Bláklukka. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Umhverfis- og auðlindaráðuneytið leggur fram til kynningar drög að frumvarpi til breytinga á lögum um náttúruvernd. Markmiðið með endurskoðun laganna er að skýra betur framkvæmd þeirra og ná fram betri samstöðu um efni þeirra. Unnið var að endurskoðuninni með nefndarálit umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis að leiðarljósi.

Lög nr. 60/2013, um náttúruvernd, voru samþykkt á Alþingi 28. mars 2013 og áttu að taka gildi 1. apríl 2014. Þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra lagði fram á haustþingi 2013 frumvarp til laga þar sem gert var ráð fyrir að þau yrðu endurskoðuð frá grunni. Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis skilaði nefndaráliti 19. febrúar 2014 þar sem hún, að höfðu samráði við umhverfis- og auðlindaráðherra, lagði til að í stað þess að fella lögin úr gildi yrði gildistöku þeirra frestað til 1. júlí 2015 og umhverfis- og auðlindaráðherra falið að endurskoða lögin og gera nauðsynlegar breytingar.

Í nefndarálitinu kemur m.a. fram að „þótt einstakir þættir laga nr. 60/2013 séu umdeildir telja allmargir að ávinningur felist í þeirri vinnu sem lögð hefur verið í heildarendurskoðun laganna.“  Komst nefndin að samkomulagi um að leggja áherslu á endurskoðun tiltekinna ákvæða laganna.  Byggja skyldi á fyrirliggjandi vinnu og þeirri heildarhugmyndafræði sem lá að baki með það að markmiði að ná aukinni samstöðu um lokaniðurstöðu.

Í álitinu vísaði umhverfis- og samgöngunefnd til þess að þeir þættir laganna sem hefðu komið til sérstakrar skoðunar varði a) ákvæði um varúðarregluna b) kaflann um almannarétt, c) kaflann um utanvegaakstur og kortagrunn, d) ákvæði um sérstaka vernd og e) kaflann um framandi lífverur.  Nefndin bendir einnig á að „vera kunni að ýmislegt fleira þurfi að athuga betur“ og „að reynt verði að ná samstöðu um lögin með breytingartillögum eða samkomulagi um útfærslu sem þörf þykir vera á“.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur unnið að endurskoðun laganna með þessi meginsjónarmið að leiðarljósi.  Hefur ráðuneytið haft samráð við fjöldamarga aðila við endurskoðunina og hefur jafnframt átt fundi með umhverfis- og samgöngunefnd í upplýsingaskyni.

Ráðuneytið kynnir hér drög að endurskoðuðu frumvarpi til laga um náttúruvernd, þar sem leitast hefur verið við að skýra framkvæmd laganna og vinna með þær ábendingar og athugasemdir sem komið hafa fram.

Athugasemdir og ábendingar um frumvarpið skulu sendar á netfangið postur@uar.is eða í bréfpósti, á umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík, eigi síðar en 21. mars nk.

Word-skjal með breytingum sýnilegum

Nefndarálit umhverfis- og samgöngunefndar frá 19. febrúar 2014.

Birt:
March 10, 2015
Tilvitnun:
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „Drög að breytingum á lögum um náttúruvernd til kynningar“, Náttúran.is: March 10, 2015 URL: http://natturan.is/d/2015/03/10/drog-ad-breytingum-logum-um-natturuvernd-til-kynni/ [Skoðað:Aug. 14, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: