Plastpokar. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Innan skamms verður stjórnvöldum í aðildarríkjum Evrópusambandsins og þar með EES-svæðisins heimilt að skattleggja innkaupapoka úr plasti að vild og jafnvel banna notkun þeirra alfarið ef þeim sýnist svo.

Þetta var samþykkt á fundi umhverfisráðherra Evrópusambandsins á mánudag, en fyrri tilraunir til að ná svipuðu samkomulagi hafa ætíð strandað á fulltrúum Breta og nokkurra nýjustu aðildarlanda sambandsins.

Markmið samkomulagsins er að draga verulega úr notkun plastpoka innan vébanda Evrópusambandsins, eða um allt að áttatíu af hundraði fram til ársins 2025. Þá er ætlunin að meðalnotkun evrópska meðaljónsins á hefðbundnum innkaupapokum úr plasti verði komin niður í 40 poka á ári, en 2010  nam hún hátt í 180 pokum á hvert mannsbarn. 

Reglugerðin, sem væntanlega tekur gildi innan skamms þótt gefinn sé þriggja mánaða kærufrestur, tekur ekki til þykkari, sterkari margnota-innkaupasekkja úr plasti, né heldur til hinna svokölluðu nískupoka, það er hinna þunnu, laufléttu smápoka sem meðal annars eru notaðir undir grænmeti, ávexti og aðra lausavöru í verslunum. Hvort þeir skjattar verði leyfðir miklu lengur er síðan annað mál, því afar brýnt þykir að draga sem allra mest úr þeirri gegndarlausu plastnotkun sem tíðkast í heiminum í dag.

Niðurstöður rannsókna vísindamanna við Georgíuháskóla í Bandaríkjunum, sem kynndar voru á dögunum, benda til þess að um 275 milljónir tonna af plastúrgangi falli til í heiminum á ári hverju, en mikill minnihluti hans er endurnýttur. Af þessum 275 milljónum tonna lenda á bilinu fimm til þrettán tonn í sjónum, samkvæmt þessari sömu rannsókn.

Þannig ógnar plastmengun lífríki heimshafanna, og fara jafnt sjávarspendýr, sjófuglar og hvers kyns fiskar og sædýr önnur illa út úr því gríðarlega magni af plasti sem þar flýtur um á ýmsu formi, allt frá örsmáum tætlum upp í heilu plasteyjarnar. Skjaldbökur kafna á samankuðluðum plastpokum sem þær gleypa í misgripum fyrir marglyttur, sjófuglar og selir éta sig sadda af plasti en fá að vonum enga næringu úr ruslfæðinu atarna og svelta jafnvel í hel fyrir vikið og fjöldi sjávarskepna endar ævina flæktur í alls kyns plastdrasl. 

Allra smæstu plastagnirnar rata síðan í iður flestra eða allra þeirra dýra sem synda um heimsins höf, ósjaldan mengaðar af skordýraeitri og öðrum álíka heilsusamlegum efnum, sem skila sér upp eftir næringarkeðjunni alla leið á borð mannfólksins.

Birt:
March 3, 2015
Tilvitnun:
Ævar Örn Jósepsson „Leyfilegt að banna plastpoka“, Náttúran.is: March 3, 2015 URL: http://natturan.is/d/2015/03/03/leyfilegt-ad-banna-plastpoka/ [Skoðað:July 26, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: