MývatnAlþingi hefur samþykkt breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Breytingin er til komin vegna skuldbindinga Íslands á grundvelli EES samningsins. Breytingin felur í sér að fleiri framkvæmdir falla undir lögin en verið hefur en málsmeðferð þeirra er einfaldari og styttri en annarra framkvæmda sem undir lögin falla í dag.

Sveitarfélögin skulu taka ákvarðanir um matsskyldu þeirra nýju framkvæmda sem falla undir lögin og eru háðar leyfum sveitarfélaga. Skipulagsstofnun hefur leiðbeininga- og eftirlitshlutverk með stjórnsýslu sveitarfélaganna vegna þessara framkvæmda.

Þá eru viðaukar laganna sem tilgreina framkvæmdir sem falla undir lögin skýrari og mælieiningum og stærðarmörkum tiltekinna framkvæmda hefur verið breytt. Einnig hefur almenningur og stjórnvöld aukin tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum vegna mats á umhverfisáhrifum framkvæmda, sem ná yfir landamæri.

Með breytingunni verður undirbúningur framkvæmda vandaðri af hálfu stjórnvalda og framkvæmdaraðila og fæst  aukin yfirsýn þar sem tilkynna þarf til Skipulagsstofnunar þær framkvæmdir og leyfi til framkvæmda sem falla undir lögin.

Lögin taka þegar gildi að undanskildri breytingu er varðar nýjar framkvæmdir, en hún tekur gildi þann 15. júní 2015.

Birt:
Dec. 19, 2014
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Alþingi samþykkir breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum“, Náttúran.is: Dec. 19, 2014 URL: http://natturan.is/d/2014/12/19/althingi-samthykkir-breytingu-logum-um-mat-umhverf/ [Skoðað:Dec. 2, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: