Ráðherrarnir ásamt stjórnendum veðurstofanna tveggja og ráðuneytisstjórum. ljósm: UARSigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Rasmus Helveg Petersen, loftslags- og orkumálaráðherra Danmerkur, undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um samstarf landanna tveggja á sviði rannsókna á loftslagi, veðurfari og haffræði. Þá kveður viljayfirlýsingin á um aukið samstarf Veðurstofu Íslands og Veðurstofu Danmerkur.

Forsendur yfirlýsingarinnar eru m.a. að löndin tvö hafa lengi átt samstarf á sviði veðurþjónustu og að staðsetning Íslands og Grænlands sé heppileg með tilliti til rannsókna á norðurslóðum. Sameiginlegar rannsóknir á veðri, loftslagi og hafinu skili margvíslegum ábata fyrir íslenskt og danskt samfélag, ekki síst varðandi þróun nýrra og betri aðferða við veðurspár. Er stefnt að samnorrænni gagnahýsingu og rekstri ofurtölvu til að reikna veðurspár fyrir öll Norðurlöndin frá árinu 2020.

Fyrr um daginn skrifuðu Hafdís Þóra Karlsdóttir, staðgengill forstjóra Veðurstofu Íslands, og Marianne Thyrring, forstjóri Veðurstofu Danmerkur, undir samning í anda viljayfirlýsingarinnar, þar sem kveðið er á um aukið samstarf stofnananna tveggja, meðal annars á sviði rannsókna og veðurvöktunar og sameiginlegs reksturs ofurtölvu dönsku Veðurstofunnar sem staðsett verður á Íslandi, sjá nánar frétt á heimasíðu Veðurstofu Íslands. 

Birt:
Nov. 12, 2014
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Aukið samstarf milli veðurstofa Íslands og Danmerkur“, Náttúran.is: Nov. 12, 2014 URL: http://natturan.is/d/2014/11/12/aukid-samstarf-milli-vedurstofa-islands-og-danmerk/ [Skoðað:Dec. 2, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: