Komið þið sælir kæru náttúruunnendur!

Sigþrúður Jónsdóttir náttúrufræðingur í Eysta Geldingaholti í Gnúpverjahreppi er í eldlínunni hjá okkur í september. Hún hefur verið ötull baráttumaður fyrir verndun Þjórsárvera og Þjórsár allrar. Í fyrsta viðtalinu við hana sagði hún  frá tengslum sínum við Þjórsárver og sögu baráttunnar fyrir verndun þeirra. Síðan sagði hún frá ást sinni á sauðfé og áhuga á beitarmálum allt frá barnæsku,  landbúnaðarnámi í Walse og beitarrannsóknum á Auðkúluheiði. Í þriðja viðtalinu segir hún frá viðbrögðum við nýjum ógnunum við Þjórsárver og fallega fossa í ánni. Öll áin hefur vakið áhuga virkjunarsinna og auk Þjórsárvera er áhugi fyrir þremur virkjunum í neðri hluta Þjórsár. Þar gat Sigþrúður ekki setið hjá og hefur barist ötullega með samtökunum Sól á Suðurlandi. Hlusta á þáttinn.

Útdráttur úr viðtalinu

Barátta gegn virkjunum í neðri hluta Þjórsár

Þjórsá er lögð í einelti, berst gegn hugmyndum um þrjár virkjanir í byggð

Skiltið sem sýnir hve mikið land fer undir vatn verði af Hvammsvirkjun í Þjórsá.Sigþrúður segir að við Þjórsá séu margir einstaklega fallegir staðir bæði á hálendinu og í byggð. Þegar settar voru fram þrjár virkjanahugmyndir í neðri hluta árinnar gat hún ekki setið hjá en hellti sér í baráttuna gegn þeim áætlunum. Hún segir ána hreinlega vera lagða í einelti. Sumum finnst líklega ágætt að fórna einni á, en ég sem íbúi á bakkanum vill ekki að það verði gert, segir Sigþrúður. Þjórsá er búin að gera sitt og gefa Íslendingum mikla orku.

Mér finnst friður í samfélögum skipta miklu máli, ófriður er slæmur á allan hátt. Ég er sannfærð um að ef farið verður í Norðungaölduveitu eða virkjanir í sveitinni þá mun það spilla friðnum í langan tíma. Það eru svo margir sem munu ekki sætta sig við slíkar aðgerðir. Það verður eins og sár í hjartanu, því áin skiptir okkur máli. Landslag í Hreppunum er fíngert og fallegt og virkjanir munu hafa mikil áhrif á það, mikið af fallegu landi mun fara undir lón. Eyjarnar í Þjórsá munu sökkva, nema toppurinn á þeim stæstu og land meðfram ánni hverfa. Annar staðar verður áin vatnslaus. Þegar svona stórfljót verða vatnlaus er mikil hætta á foki sérstaklega þar sem árfarvegurinn er breiður. Fjöldi fólks var samankominn er skiltið var afhjúpað, þ.á.m. þrír íbúar við Þjórsá, þær Jóhanna Jóhannsdóttir í Haga (lést í nóv. sl. 99 ára að aldri), Margrét Eiríksdóttir, móðir Sigþrúðar og Stefanía Ágústsdóttir í Ásum.Sigþrúður segir að til að vekja fólk til umhugsunnar hafi Sól á Suðurlandi sett upp merki til að sýna hversu hátt vatnið myndi fara. Það eru svo margir sem fara þarna um sem átta sig ekki á hvað verið er að tala um, segir hún. Þegar maður fer inn í Þjórsárdal og sér þessar merkingar bregður manni í brún við að sjá hvað hátt vatnshæðin fer og maður gerir sér grein fyrir  hvað mikið land muni sökkva. Framkvæmdirnar voru kynntar sem saklausar rennslisvirkjanir eins og þær hefðu ekki áhrif á eitt eða neitt. Raunin er önnur þær munu breyta landslaginu mjög mikið og hafa gríðarleg áhrif á náttúruna segir Sigþrúður.

Áhrif á laxinn og lífríkið
Svo er það annað sem við skoðuðum ekki mikið í upphafi, það eru áhrifin á lífríkið í ánni  og laxastofninn sem er mjög stór og sérstakur og hefur mikið verndargildi. Það er mikið af fisk í Þjórsá, hann gengur upp ána og upp í þverárnar. Í fyrra veiddust til dæmis 400 laxar í litlu Kálfánni sem fer um landið heima. Í náttúrunni spilar þetta allt saman og það er svo hættulegt að slíta þessa keðju í sundur. Við vitum ekki hvar það endar. Því meira sem fiskurinn í ánni hefur verið rannsakaður því betur hefur komið í ljós hvað það er hættulegt að hrófla við þessu kerfi og trúa á einhverjar tæknilegar lausnir við náttúrfarslegum vandamálum eins og til dæmis seiðaveitur. Það er stórhættulegt, við reddum þessu ekki bara si svona með tækni, það er ekki alltaf sem hún virkar í náttúrunni. Við eigum ekki að taka svona áhættur.

Fyrir hvern á að virkja - hver eru áhrifin?Viðey í Þjórsá.
Ég hef ekki enn fengið svör við því til hvers og fyrir hvern þessar virkjanir eiga að vera. Einu svörin sem ég hef fengið er að þær séu svo hagkvæmar. Þá spyr maður, hvað er svona hagkvæmt? Hvað með alla þessa slæmu fylgifiska? Hver ætlar að setja verðmiða á neikvæð  samfélagslegáhrif sem engin hefur rannsakað? Vinslit og stirt samkomulag á milli manna eða fegurðina í landslagið og fjölbreytileikan í náttúrunni, hver setur verðmiða á þetta? Það hefur engin gert hingað til. Við viljum að samfélagsleg áhrif verði rannsökuð  til lengri og skemmri tíma, ekki bara á Íslandi í heild heldur einnig í þeim samfélögum sem búa á svæðinu. Það hafa verið gerðar ransóknir á áhrifunum á Þjóðarbúið en ég vil vita um áhrifin á fólkið sem býr þarna.  Þegar öllu er á botnin hvolt þá er náttúrunýting fyrir fólk.

Í neðri hluta Þjórsár er talað um þrjár virkjanir, Urriðafossvirkjun, Hvammsvirkjun og Holtavirkjun. Urriðafossvirkjun er enn í biðflokki og því ekki í hættu sem stendur en það er verið að reyna að færa hinar upp í nýtingaflokka, svo þær eru því í hættu.

Sveitungarnir taka afstöðu án þess að skoða allar hliðar
Afstaða fólks til málsins mótast af svo mörgu, meðal annars lífsgildum. Ég varð fyrir áfalli fyrir um tveimur árum þegar haldinn var fundur á vegum Landsvirkjunnar um Holtavirkjun, það átti að kanna sjálbærni hennar. það var erlennt fyrirtæki sem kom og talaði við fólk á svæðinu, fólk í Landvernd og fleiri. Nokkrir menn úr þessum hópi voru beðnir að koma og hitta rannsakendurna. Sigþrúður heldur uppi spjaldi gegn Hvammsvirkjun í grænni göngu þ. 1. maí 2013.Það sem sjokkeraði mig var hvað sveitungar mínir sem voru frekar hlynntir virkjunni höfðu lítið kynnt sér málið. Mér finnst ógnvænlegt þegar fólk tekur sterka afstöðu án þessa að vita um hvað málið snýst. Því miður var það raunin um þó nokkurn hóp sem þarna var. Sumir voru bara hrifnir af virkjunum almennt og  héldu að þetta væru mjög hagkvæmar aðgerðir. Einn sagði að þetta væri svo umhverfisvæn og  sjálfbær framkvæmd. Ég get ekki skilið hvernig hann komst að þeirri niðurstöðu. Mér fannst eins og menn hefðu ekki kynnt sér nema aðra hliðina á málinu og ekki skoðað umhverfisáhrifin nægilega vel . Fólk sagðist hafa fengið upplýsingarnar  á heimasíðu Landsvirkjunar sem er ekki hlutlaus. Það má segja að ég hafi ekki kynnt mér nægjanlega vel tæknilega útfæslu en ég hef eftir því sem hægt er skoðað vel þau áhrif sem framkvæmdirnar hafa á náttúru og landslag.

Ekki afturkræfar framkvæmdir - mútur en ekki mótvægisaðgerðir
Við í Sól á Suðurlandi gáfum út bækling fyrir þremur árum og sendum á öll heimili í þeim sveitum sem eru við ána, við sendum hann líka til þingmanna en ég veit ekki hvort þeir hafa lesið hann. Við komum þessum sjónarmiðum á framfæri og  reyndum að Fjölmenni var á fundi Sólar á Suðurlandi í Árnesi þ. 11. febrúra 2007 til bjargar Þjórsá.gera það eins vel og við gátum. Við höfum líka haldið fundi, en það er nú þannig að þú ferð ekki á fund hjá þeim sem þú ert ekki sammála, fólk vill ekki endilega heyra hina hliðina á málinu ef það hefur þegar mótað sér skoðun. Svo er alltaf fólk sem yppir öxlum og nennir ekki að hafa skoðun eða setja sig inn í hlutina. Í mínum huga þá skiptir þetta miklu máli. Okkur í Sól á Suðurlandi finnst um mikla skammsýni að ræða og að þau gildi sem ráða ferðinni séu ekki traustvekjandi til framtíðar. 

Við erum að ganga á náttúruna,  þetta eru ekki afturkræfar framkvæmdir þó svo segi í úrskurði um mat á umhverfisáhrifum. Þegar um svona mannvirki er að ræða er ekki hægt að snúa til baka, landið verður aldrei aftur óspillt. Það er svo margt sem er ekki afturkræft, maður treður til dæmis ekki berginu aftur inn í göng sem búið er að bora. Mótvægisaðgerðir hafa verið teygðar og togðaðar í alla enda og kanta. Að bæta símasamband eru ekki mótvægisaðgerðir eins og þær voru upphaflega hugsaðar, það er til  að draga úr umhverfiáhrifum. Það er búið að leggja vatnsleiðslu niðri í Flóa sem mótvægisaðgerð og það átti að bæta vegi sem mótvegisaðgerð. Það var verið að bjóða fólki hluti sem ekki teljast til slíkra aðgerða heldur eru eitthvað annað, t.d. mögulega bætur en ekki mótvægisaðgerðir. En þessi tilboð, þessar svokölluðu mótvægisaðgerðir hafa að öllum líkindum haft áhrif á viðhorf fólks, mótað hugann, vald peninganna er mjög mikið. Það er hægt að kaupa fólk.

Ef ég væri ekki bjartsýn væri ég löngu búin að gefast upp
Framtíðin er óráðin en Sigþrúður er bjartsýn, ef hún væri það ekki væri hún löngu búin að gefast upp. Hún trúir því að það takist á endanum að stoppa þessi skelfilegu áform sem munu leiða til ills  eins. Þegar baráttan á móti Norðlingaölduveitu hófst árið Fjölmenni á fundi um áformaða Urriðafossvirkjun í félagsmiðstöðinni Þjórsárver í Flóahreppi þ. 25. júní 2007. 2001 var svo margt á móti okkur og margir sögðu að það þýddi ekkert að  vera að þessu, það væri búið að ákveða þetta, segir hún. Ef ég hefði hlustað hefði ég bara hætt. Eina ráðið sem ég get gefið fólki er að halda bara áfram og gefast ekki upp, segir Sigþrúður. Við höfum svo oft rekist á að því er virðist ókleifar hindranir en höfum alltaf fundið einhverja leið yfir þær. Ég er ekki ein, við erum mjög mörg, fjöldi fólks sem höfum unnið saman. Það sem þetta hefur gefið mér er að ég hef kynnst mjög mikið af góðu fólki. Ég legg áherslu á að segja einungis það sem ég tel satt og rétt. Það þýðir ekkert að reyna að segja ósatt, þá mun maður lenda í vandræðum fyrr eða síðar. Ég vona að ég eigi ekki eftir að fara að bulla mig út úr aðstæðum. Það má ekki hætta, það er alltaf þess virði að reyna, sýna þrautseigju og halda stöðugt áfram. Þetta er erfitt og hefur tekið mjög mikið á mig persónulega gegnum árin. Verkefnin hafa komið í hrinum og stundum hefur maður náð að hvíla sig og safna kröftum á milli. Ég veit að það er mjög mikill stuðningur við þessi sjónarmið og stuðningsmönnum hefur fjölgað frá 2001. Þeir eru mjög margir sem standa á bak við þessi gildi, fólk sem er allt í startholunum. Ef eitthvað verður gert varðandi Þjórsarver munu þúsundir manna rísa upp og mótmæla.  Það verður ekki auðvellt.  Ef menn vilja frið í landinu verður að hætt að ræða um Norðlingaölduveitu, það er löngu orðið tímabært segir Sigþrúður að lokum.

Steinunn Harðardóttir.

Hlusta á þáttinn.

Náttúruverndarsjóður Pálma Jónssonar styrkir þáttagerðina.

Tengdar hjóðupptökur:

Sigþrúður Jónsdóttir IV


Birt:
Sept. 27, 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Steinunn Harðardóttir „Með náttúrunni - Sigþrúður Jónsdóttir í eldlínunni - 4. þáttur“, Náttúran.is: Sept. 27, 2014 URL: http://natturan.is/d/2014/09/25/med-natturunni-sigthrudur-jonsdottir-i-eldlinunni-/ [Skoðað:Sept. 21, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Sept. 25, 2014
breytt: Oct. 18, 2014

Messages: