Hinderjarunni í skógi í Grafarvogi.Tilgangur vistræktar er að viðhalda og fjölga lífheiminum. Varðveisla fræja er hluti af því fjölbreytta verkefni. Að safna og geyma fræ snertir við öllum grunngildum, hún snýst um að viðhalda og deila jarðgæðum og fæða okkur öll.

Ég fór í fræðslugöngu um söfnun og meðhöndlun fræja sem Garðyrkjufélagið stóð fyrir seint í ágúst. Frá henni gekk ég með nokkur hindber í poka.

Berin voru fullþroskuð og gómsæt. Gnægð þeirra vex á runna í skógræktarreit innst í Grafarvogi. Einhvern tímann var hann settur þar niður og einhver kastaði því fram að þeir væru um 25 ára gamlir. Runninn var heilbrigður og virtist lifa góðu lífi innan á þessum gróðursæla reit. Þennan runna vil ég klárlega hafa í mínum ætigarði og  því greip ég nokkur ber með heim.

Hindberin fyrir meðhöndlun.Ég fór svo eftir ábendingum leiðbeinanda fræðslugöngunnar; náði fræjum úr berjunum og setti þau í vatn. Aðferðin sem reynist ágætlega var að nudda berjunum þétt með fingrinum í lófann, en einnig tókst það með að hreinsa þau í viskastykki. Athugið að þetta er fínhreyfingaverk og tekur allnokkurn tíma. Fræin söfnuðust smám saman í litla dós með vatni.

Fræ hreinsuð úr berjum í lófa.Fljótandi fræ vísar á ónýt fræ og þau fjarlægði ég áður en ég sigtaði fræin ofan á disk. Þar lágu þau til þurrkunar í nokkra daga áður en ég pakkaði þeim í umslag, tilbúin til geymslu eða notkunar. Samkvæmt þeim upplýsingum er best er að geyma fræ í pappír (eins og litlu pappaumslagi) á köldum dimmum stað.

Fljótandi fræ eru fjarlægð. Hin eru þurrkuð og geymd.Ég náði allmörgum fræjum úr þessari reynslu og hef ekki hugsað mér að nota þau öll. Afraksturinn rennur því að stórum hluta til fræbanka Garðyrkjufélagsins, en þar er dásamleg samvinna að verki.

Ljósmyndir: Himber og fræhreinslun, ljósm. Guðrún Hulda Pálsdóttir.

 

 

 

Birt:
Sept. 4, 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Hulda Pálsdóttir „Fræsöfnun: Varðveisla hindberja“, Náttúran.is: Sept. 4, 2014 URL: http://natturan.is/d/2014/09/04/fraesofnun-vardveisla-hindberja/ [Skoðað:May 17, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: