Rabarbari með þroskuðum fræjumRabarbari eða tröllasúra (Rheum rhabarbarum / Rheum x hybridum) er ein besta matjurt sem völ er á hér á landi.

Mig hefur lengi langað að reyna að rækta rabarbara upp af fræi þó að ég viti að oftast sé honum fjölgað með því að skera hluta af hnaus á eldri plöntu og koma fyrir á nýjum stað. Það hef ég prófað og það gengur fljótt og vel fyrir sig.

Þessi fallegu þroskuðu rabarbarafræ eru af risastórri rabarbaraplöntu í mínu næsta nágrenni en afkastameiri rabarabarajurt hef ég ekki séð annars staðar. Því finnst mér tilvalið að gera tilraun með að fjölga einmitt þessari jurt.

Ég byrja á að losa fræin og þurrka betur og geymi svo þangað til að ég fæ leiðsögn um næstu skref. 

Kannski þurfa rabarbarafræ að frjósa í einhverja mánuði, eins og úti í náttúrunni, áður en þeim er sáð á nýju ári en ég veit það ekki ennþá. Ég mun spyrja mér fróðari manneskju og birti svarið hér um leið og það berst.

..

Svar hefur borist frá Hafsteini Hafliðasyni sem er svohljóðandi:

Hér er svarið Guðrún Tryggvadóttir: Langbest að taka fræin þegar þau byrja að hrynja af njólanum og sá þeim beint ef maður ætlar að auka við eigin rabbarbaraakur. En annars þarf að þurrka þau vel og geyma á þurrum stað ef á að skenkja þau burt. Ef fræið þornar fer það í frædvala - og þá þarf það að fá á sig vetrarkulda til að vekja það af frædvalanum ...

Meira um rabarbara á Wikipedíu.

RabarbarafræLjósmyndir: Rabarbari með þroskuðum fræjum og fræin losuð 28.08.2014, ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.

 

Birt:
Sept. 1, 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Fræsöfnun - Rabarbarafræ“, Náttúran.is: Sept. 1, 2014 URL: http://natturan.is/d/2014/08/28/fraesofnun-rabarbarafrae/ [Skoðað:Oct. 7, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Aug. 28, 2014
breytt: Sept. 8, 2014

Messages: