Daníel skoðar jurtirÞegar fullorðnir fylgja börnum út í náttúruna getur samvera þeirra orðið að ógleymanlegum stundum uppgötvana og ánægju.

Jákvæð upplifun af náttúrunni er lykillinn að umhverfisvitund einstaklingsins og því mikilvægur grunnur til að auka vilja okkar og getu til að lifa í sátt við Jörðina.

Að sjálfsögðu getur slík stund orðið án þess að nokkur undirbúningur hafi átt sér stað en með því að vera betur meðvitaður um það, hversu dýrmætrar reynslu við erum að stuðla að, getum við með einföldum hætti fjölgað slíkum stundum.

Joseph Cornell er bandarískur frumkvöðull í því að fara með börn og fullorðna út í náttúruna í þeim tilgangi að opna augu þeirra fyrir margbreytileika umhverfisins og gildi hennar. Hann er m.a. höfundur bókanna Sharing Nature with Children I og II sem eru uppspretta hugmynda að leikjum og samverustundum í náttúrunni. Eftirfarandi fimm lykilatriði frá Joseph Cornell hafa reynst mörgum gagnleg til að fjölga jákvæðum stundum í náttúrunni og ef til vill geta þau hjálpað þér líka til að dýpka þá upplifunina af umhverfinu.

1.  Teach less, share more. Deilið og upplifið en kennið minna. Segið frá upplifun ykkar og líðan og þeim tilfinningum sem náttúran vekur hjá ykkur. Það hvetur þátttakendur til að gera slíkt hið sama, e.t.v. ekki í dag, en í framtíðinni.

2.  Be receptive. Verið vakandi, hlustið og fylgist með. Takið þátt. Hver spurning, hver uppgötvun er tækifæri til samskipta.  Fylgist með því sem er að gerast í náttúrunni hverju sinni (hvort fugl flýgur yfir, gelt í hundi, laufblað sem fellur).

3.  Focus the child's attention without delay. Náðu athygli barnanna strax. Ekki eru öll börn vön því að veita náttúrunni eða umhverfinu athygli á sama hátt og ætlast er til. Áttaðu þig á því hvað í umhverfinu vekur áhuga barnanna og láttu það leiða uppgötvunina áfram. Nýttu áhuga barnanna á tilteknum atriðum til að koma því á framfæri sem þú vilt segja þeim.

4.  Look and eperience first; talk later. Notaðu stundina til að gefa börnunum tækifæri til að upplifa umhverfi sitt í næði. Gefðu þeim tíma til beinnar upplifunar. Það sem við upplifum sjálf festum við frekar í minni og það er hægt að ræða um síðar.

5.  A sence of joy should permeate the experience. Það verður að vera gaman. Ekki halda einhverju til streitu sem börnunum finnst ekki skemmtilegt því þá vekur það heldur ekki áhuga þeirra. Það er þinn eigin eldmóður og áhugi sem er kannski mikilvægasta tækið til að hafa áhrif á aðra.

Birt:
Aug. 22, 2014
Höfundur:
Helena Óladóttir
Tilvitnun:
Helena Óladóttir „Að leika og læra í náttúrunni“, Náttúran.is: Aug. 22, 2014 URL: http://natturan.is/d/2014/08/22/ad-leika-og-laera-i-natturunni/ [Skoðað:Nov. 30, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: