Vallhumall (Achillea millefolium)Vallhumall lætur ekki mikið yfir sér en margir telja hann til leiðinda illgresis því hann velur sér gjarnan vegkanta og þurrar brekkur sem búsvæði en oft má einmitt þekkja góðar lækningajurtir á því að þær finna sér bólstað þar sem græða þarf upp landið.

Vallhumall er ein magnaðasta græðijurt sem vex á Íslandi og nú er ágætur tími til að uppskera hann.

Vallhumall er mikið notaður í smyrsl t.d. á sár, skrámur og brunasár og í lyf gegn ofvirkjum skjaldkyrtli svo fátt eitt sé nefnt.

Í Flóru Íslands segir svo um vallhumalinn:

Vallhumall er algengur við byggð ból í kringum allt landið.  Vallhumallinn hefur venjulega hvítar körfur, en oft eru þær nokkuð bleiklitar, sjaldnar nær rauðar. Í sumum landshlutum er vallhumallinn einkum í kringum bæi, og kemur því að nokkru leyti fram sem slæðingur sem gæti hafa borizt af manna völdum. Annars staðar, einkum á Norður- og Norðausturlandi er hann mjög rótgróinn í villtu landi og vex þar bæði upp til fjalla og inn á hálendið, á nokkrum stöðum upp fyrir 700 m hæð.  Hann er til dæmis mjög algengur víða um Ódáðahraun og hálendið þar í kring. Hæstu fundarstaðir vallhumals eru í 900 m hæð sunnan í Skessuhrygg austan Höfðahverfis við Eyjafjörð, og í 850 m hæð í Syðri-Hágangi við Vopnafjörð.

Nokkur blóm vallhumals standa saman í örsmáum (4-5 mm) körfum, sem í fljótu bragði líta út sem einstök blóm (sjá neðstu mynd). Körfurnar skipa sér síðan margar saman í þétta hálfsveipkennda blómskipan. Tungukróna jaðarblómanna eru hvít eða bleik, sjaldnar rauð, hjartalaga. Hvirfilblómin eru pípukrýnd, hvít-grágul. Reifablöðin eru græn með dökkbrúnum himnufaldi, langhærð. Stöngullinn er loðinn, með stakstæðum, 7-15 mm breiðum og 3-8 sm löngum, tvífjöðruðum, loðnum blöðum. Smáblöðin eru djúpskert með striklaga, oddmjóum flipum.

Sjá útbreiðslu á floraislands.is.

Ljósmynd: Vallhumall lagður til þurrkunar, ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
Aug. 5, 2014
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Uppskera – Vallhumall“, Náttúran.is: Aug. 5, 2014 URL: http://natturan.is/d/2014/08/05/uppskera-vallhumall/ [Skoðað:Feb. 4, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: