Bungubeð (Hügelbett á þýsku) er tegund af gróðurbeðum sem virka eins og vítamínsprauta í matjurtarækt.

Gerð bungubeða var kennd á vistræktarhönnunarnámskeiði í Alviðru í síðustu viku (Permaculture Design Certificate Course) sem Jan Martin Bang frá Norsk Permaculture Association og Nordic Permaculture Institute kenndi ásamt Kristínu Völu Ragnarsdóttur prófessor við Háskóla Íslands.

Námskeiðið var skipulagt af þeim Örnu Mathiesen arkitekt starfandi í Noregi, Merði Ottesen, stofnanda Töfrastaða, Auði Ottesen hjá Sumarhúsinu og garðinum og Kristínu Völu Ragnarsdóttur. Námskeiðið stóð í 10 daga og tóku 18 nemendur þátt og luku með Permaculture Design Certificate Course viðurkenningu sem gefur leyfi til að leiðbeina öðrum á vistræktarnámskeiðum sem er nauðsynlegt skref til að afla sér diplómu í vistræktarfræðunum.

Gerð beða af þessu tagi er leikur einn þegar margir hjálpast að því nokkuð erfiði er að grafa upp torfur og moka mold upp úr gröfinni um 40 sm niður.

Þegar það hefur verið gert eru greinar lagðar ofan í gröfina og pressaðar vel niður með því að hópurinn hoppar ofan á þeim og hefur gaman af í leiðinni. Síðan er stráð duglega af afskorningi úr eldhúsinu, lífrænum afgöngum sem annars væri hent í ruslið eða settar í moltutunnuna. Torfunum er siðan hvolft öfugum aftur yfir og restin af moldinni sem grafin var upp mokað yfir hauginn.

Þannig er beðið orðið nokkuð vel upphækkað og myndar bungu sem um leið stækkar yfirborð beðsins og gefur möguleika á að sá eða gróðursetja í mun meira magn en venjuleg gróðurbeð bjóða upp á.

Það sem gerir gæfumuninn í bungubeðum af þessu tagi er að með þvi að grafa niður trjágreinar og matarafganga er undirbúin gróðrastíja fyrir alls kyns góðar örverur sem skapa frábær vaxtarskilyrði fyrir plöntur og það til margra ára.

Bungubeð eru fastur liður í hugmyndafræði vistræktar og það verður skemmtilegt að fyljgast með hvort að reynslan af þeim verði jafn góð hér á landi og víða annars staðar í heiminum og hvort að þau nái að festa sig í sessi þegar fram líða stundir.

Ljósmyndir: Gerð bungubeðs í Alviðru, ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.

 

Birt:
April 18, 2015
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Að gera bungubeð“, Náttúran.is: April 18, 2015 URL: http://natturan.is/d/2014/06/28/ad-gera-bungubed/ [Skoðað:Feb. 3, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: June 28, 2014
breytt: April 18, 2015

Messages: