Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun ríflega 350 milljóna króna fjárframlag til uppbyggingar og verndaraðgerða á ferðamannastöðum í sumar. Fjármunirnir verða notaðir til verkefna sem talin eru brýn vegna verndunar eða öryggissjónarmiða. 

Umhverfis- og auðlindaráðherra og Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hafa í samstarfi við  forsætisráðuneytið og stjórn Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða sett saman lista yfir staði í umsjón og eigu ríkisins og sveitarfélaga þar sem talið er brýnt að ráðast í aðgerðir á í sumar vegna aukins ferðamannastraums til landsins. Um er að ræða framkvæmdir á gönguleiðum/göngustígum sem liggja undir skemmdum. Framkvæmdirnar fela m.a. í sér að skipta um jarðvegsefni og verja gönguleiðir fyrir skemmdum svo hægt sé að beina ferðamönnum á þær. Þá þarf víða að koma upp öryggisgrindverkum og pöllum við fossa og hveri til að tryggja öryggi ferðamanna en talið er að slysahættan sé veruleg á mörgum þessara staða.

Er ljóst að framkvæmdirnar munu hafa jákvæð áhrif á atvinnuástand byggða og dreifast vel yfir landið allt, með tilliti til staðsetningar helstu ferðamannastaða. Meðal annars er um að ræða endurnýjun á útsýnispalli við Gullfoss, nýjan göngustíg við Dettifoss og viðhald á gönguleiðum í Þórsmörk.  

Styrkjum til framangreindra verkefna verður úthlutað úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og mun sjóðurinn ásamt Ferðamálastofu annast umsjón og eftirlit með úthlutun og framgangi verkefna.

Ljósmynd: Gönustígur í Landmannalaugum, ljósm. Árni Tryggvason.

Birt:
May 24, 2014
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Ríflega 350 milljóna framlag til framkvæmda á ferðamannastöðum í sumar“, Náttúran.is: May 24, 2014 URL: http://natturan.is/d/2014/05/24/riflega-350-milljona-framlag-til-framkvaemda-ferda/ [Skoðað:Dec. 2, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: