Umhverfis- og auðlindaráðuneytið stendur fyrir morgunverðarfundi um matarsóun undir yfirskriftinni „Hættum að henda mat“, á Degi umhverfisins, 25. apríl næstkomandi.

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) áætlar að árlega fari 1,3 milljarðar tonna matvæla til spillis. Þetta er álíka mikill matur og framleiddur er árlega í Afríku sunnan Sahara eyðimerkurinnar.  Á sama tíma fer ein af hverjum sjö manneskjum í heiminum svöng að sofa og yfir 20 þúsund börn deyja daglega úr næringarskorti.

Þessar staðreyndir endurspegla verulegt ójafnvægi þegar kemur að lífsstíl fólks sem aftur hefur stórfelld áhrif á umhverfið, m.a. vegna losunar gróðurhúsalofttegunda, land- og vatnsnotkunar og ýmissar mengunar sem hlýst af matarframleiðslu.

Á fundinum verður fjallað um umfang, ástæður og afleiðingar matarsóunar, hvað stýrir okkur sem neytendum þegar kemur að kaupum á mat, hvernig nýta má betur hráefni við matvælaframleiðslu, hvernig draga má úr matarsóun í mötuneytum og þá vitundarvakningu sem hefur orðið meðal almennings og stjórnvalda varðandi þessi efni.

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra ávarpar fundinn.

Morgunverðarfundurinn fer fram föstudaginn 25. apríl næstkomandi í Heklusal Hótel Sögu og hefst kl. 8:30 en áætlað er að honum verði lokið kl. 10:30. Fundurinn er öllum opinn og er aðgangur ókeypis en óskað er eftir því að fundargestir skrái sig fyrir kl. 12 á hádegi 23. apríl. Afgangs matur verður nýttur í Kaffistofu Samhjálpar.

Hættum að henda mat!

  • Ávarp - Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra
  • Sóun matvæla – umfang, ástæður og afleiðingar - Dr. Daði Már Kristófersson, umhverfis- og auðlindahagfræðingur.
  • Neytendasálfræði: Hvað stýrir ákvörðunum neytandans? - Dr. Ragna Benedikta Garðarsdóttir, lektor í félagssálfræði við Sálfræðideild Háskóla Íslands
  • Að auka nýtingu í matvælaframleiðslu - Þóra Valsdóttir, verkefnastjóri hjá MATÍS
  • Matarsóun stóreldhúsa má minnka - Heiða Björg Hilmisdóttir, deildarstjóri Eldhúss og matsala á Landspítala Íslands.
  • Enga matarsóun! Vitundarvakning í fullum gangi - Dr. Rannveig Magnúsdóttir, starfsmaður Landverndar og verkefnisstjóri „Zero Waste“.
  • Umræður

Fundarstjóri er Sigríður Auður Arnardóttir, ráðuneytisstjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Fundurinn er ókeypis og öllum opinn. Skráningarform er að finna á uar.is/matarsoun.

Ljósmynd: Matur í ruslagámi í Reykjavík.


Birt:
April 14, 2014
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Matarsóun í brennidepli á Degi umhverfisins“, Náttúran.is: April 14, 2014 URL: http://natturan.is/d/2014/04/14/matarsoun-i-brennidepli-degi-umhverfisins/ [Skoðað:June 5, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Aug. 11, 2014

Messages: