Fjölskyldu nokkurri í Solna hverfinu í Stokkhólmi brá aldeilis í brún fyrir um þremur vikum síðan, þegar 40 sm löng rotta (+ rófa) kom í rottugildruna í eldhúsinu. Fjölskyldukötturinn hafði alveg þverneitað að fara inn í eldhúsið á meðan rottan lék þar enn lausum hala, enda kettir vitur dýr eins og allir vita.

Rottan komst víst inn í eldhúsið í gegnum loftræstigöng. En rottan var svöng þegar hún kom inn í eldhúsið og át bæði matarafganga og fullt af úrgangi í ruslatunnunni undir vaskinum. Synirnir á heimilinu, Justus 13 ára og Laurentíus 6 ára, reyndust vera hinir úrræðasömustu og hugrökkustu rottuveiðimenn. Þeir þorðu t.d. að ganga úr skugga um að risarottan væri loksins dauð.

Þessi saga um rottuna hefur vakið mikla athygli í Svíþjóð og sýnist sitt hverjum. Flestum íbúum Stokkhólms finnst óþægilegt að hugsa til þess að svona kvikindi skuli hugsanlega búa í holræsakerfunum undir fótunum á þeim, en þannig er það í öllum stórborgum heims, Reykjavík líka.

Talið er að risarottan sænska hafi vegið um eitt kíló. Almennt þekkjast varla stærri rottur, a.m.k. ekki í þróuðum ríkjum svokölluðum. En fræðilega séð ættu rottur að geta orðið æ stærri með tímanum, a.m.k. ef þær fá nóg að éta.

Þýtt og endursagt:  Ingibjörg Elsa Björnsdóttir. Heimild: http://www.bbc.com/news/world-europe-26764929

Ljósmynd: Rotta.

Birt:
April 1, 2014
Uppruni:
BBC Nature News
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Rottusaga frá Svíþjóð“, Náttúran.is: April 1, 2014 URL: http://natturan.is/d/2014/04/01/rottusaga-fra-svithjod/ [Skoðað:Feb. 22, 2020]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: