Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið að veita rúmlega 20 milljónum króna til uppbyggingar og landvörslu á friðlýstum svæðum og mikilvægum ferðamannastöðum. Um er að ræða verkefni á friðlýstum svæðum í umsjón Umhverfisstofnunar, og í Þórsmörk sem er í umsjón Skógræktar ríkisins.

Stofnanirnar telja þessi verkefni vera í forgangi yfir þær aðgerðir sem ráðast þarf í nú þegar til að koma í veg fyrir spjöll vegna ágangs ferðamanna. Stofnanirnar vinna að þessum verkefnum með ýmsum aðilum. Um er að ræða viðbótarframkvæmdir á nokkrum mikilvægum svæðum þar sem mikið álag er á náttúruna og verndaraðgerðir mikilvægar, svo og eflingu landvörslu í sumar.

Lagt verður m.a. til fjármagn til verkefna sem koma eiga til framkvæmda í vor og sumar í Mývatnssveit, Þórsmörk, Friðlandi að Fjallabaki, til gönguleiðarinnar „Laugavegarins“ og við Gullfoss. Jafnframt verður landvarsla og umsjón efld í vor og sumar í Mývatnssveit, Þórsmörk, Friðlandi að Fjallabaki og í Borgarfirði.

Þessi verkefni eru meðal annars umfangsmikil uppbygging og lagfæring göngustíga á Þórsmerkursvæðinu sem hefur látið mikið á sjá, göngustígar og aðrir innviðir við Skútustaðagíga í Mývatnssveit, lagfæringar á gönguleiðum við Gullfoss, auk þess að vinna áætlun um þær aðgerðir sem þarf að fara í við gönguleiðina „Laugaveginn“ milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Einnig verða lagðir fjármunir í öryggismál við Dyrhólaey og aðgerðir gegn utanvegaakstri á Friðlandi að Fjallabaki.

Í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu er einnig unnið að gerð lagafrumvarps um heildstæða framkvæmdaáætlun um vernd og uppbyggingu í íslenskri náttúru í þágu ferðaþjónustu sem umhverfis- og auðlindaráðherra mun leggja fyrir Alþingi. Samhliða vinnur iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið að útfærslum á leiðum til tekjuöflunar til að fjármagna þá vernd, uppbyggingu og rekstur sem framkvæmdaáætlunin mun skilgreina til framtíðar

Ljósmynd: Illagil að Fjallabaki. Ljósmyndari: Árni Tryggvason.

Birt:
March 21, 2014
Tilvitnun:
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „Verndaraðgerðir á friðlýstum svæðum og í Þórsmörk í sumar“, Náttúran.is: March 21, 2014 URL: http://natturan.is/d/2014/03/21/verndaradgerdir-fridlystum-svaedum-og-i-thorsmork-/ [Skoðað:Nov. 30, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: