Á miðnætti í kvöld rennur út frestur til að senda inn umsagnir vegna fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar í Þjórsá (sjá grein)

Ingibjörg Elsa Björnsdóttir, B.Sc. M.Sc. umhverfisfræðingur á Selfossi hefur skrifað vandaða umsögn en í niðurstöðu hennar segir svo:

Niðurstaða um umhverfisáhrif Hvammsvirkjunar og rökstuðningur af hverju ekki skal setja Hvammsvirkjun í nýtingarflokk

Hvammsvirkjun hefur eins og allar aðrar stórar vatnsaflsvirkjanir umtalsverð óafturkræf áhrif á allt umhverfi sitt. Hún gjörbyltir vatnsbúskap (hydrological regime) alls vatnasviðs neðri hluta Þjórsár og veldur hættu á jarðhræringum, þar sem til stendur að byggja virkjunina á flekaskilum. Virkjunin er sú fyrsta í röð þriggja virkjana í neðri hluta Þjórsár, og verði farið í Hvammsvirkjun aukast líkur á því að farið verði í fleiri virkjanir í neðri hluta Þjórsár.

Virkjunin hefur umtalsverð áhrif á lífríki, laxastofna, vatnsgæði og landslag. Langtímaáhrif eiga sennilega eftir að verða meiri og önnur en menn sjá fyrir sér í dag. Það er óásættanlegt að gera slíka fyrirhyggjulausa tilraun, bæði jarðfræðilega og líffræðilega, úti í náttúrunni með byggingu Hvammsvirkjunar eins og stendur til með þeirri tillögu sem hér er lögð fram af hálfu verkefnisstjórnar.

Hér er lagt til að fallið verði frá þeirri ætlan að setja Hvammsvirkjun í nýtingarflokk, þar sem enn sé margt á huldu um hugsanlega hættu á jarðhræringum og einnig lítið vitað um möguleg langtímaáhrif virkjunarinnar.

Sjá umsögn Ingibjargar Elsu í fullri lengd hér.

Umsögnum má skila á netfangið rammaaaetlun@rammaaaetlun.is.

Kort: Áformað Hagalón fyrir Hvammsvirkjun í Þjórsá.

 

Birt:
March 19, 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Umsögn vegna Hvammsvirkjunar í Þjórsá“, Náttúran.is: March 19, 2014 URL: http://natturan.is/d/2014/03/19/umsogn-vegna-hvammsvirkjun-i-thjorsa/ [Skoðað:Oct. 3, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: