Náttúruverndarsamtök Íslands hafa gefið út veggspjald með yfirskriftinni „Dynkur, fossinn sem ekki má hverfa - Verndum Þjórsárver og fossa Þjórsár“. Veggspjaldinu er ætlað að hvetja almenning til að standa vörð um Dynk og hálendi Íslands.

Friðlýsing í uppnámi:
Þjórsárver voru fyrst lýst friðland árið 1981 og friðlýsingin var endurskoðuð árið 1987. Haustið 2013 var búið að ganga frá nýrri verndaráætlun fyrir Þjórsárver og var Dynkur innan þeirra marka. Skömmu áður en hún var staðfest frestaði umhverfisráðaherra friðlýsingu svæðisins. Hann gerði tillögu að breyttum mörkum friðlandsins þannig að þau yrðu dregin í kringum fyrirhugað lónsstæð sem Landsvirkjun hafði lagt til. Með því verður hægt að byggja Norðlingaveituvirkjun sem samkvæmt Rammaáætlun 2 hafði verið sett í verndarflokk. Með virkjun fyrir ofan Dynkt eins og lagt er til mun fossinn breytast mjög mikið og jafnvel hverfa að mestu.

Náttúruverndarsamtök Íslands, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Suðurlands og félagið Vinir Þjórsárvera mótmæltu þessum áformum harðlega í bréfi til ráðherra í byrjun janúar 2014.

Veggspjaldinu var dreift á STOPP náttúrutónleikunum í Hörpu í gærkveldi en hægt er nálgast eintak á 500 kr. á skrifstofu Náttúruverndarsamtaka Íslands sem er til húsa í Reykjavíkurakademíunni, Hringbraut 121. Síminn á skrifstofunni er 551 2279. Sjá nánar hér á Grænum síðum.

Ljósmyndina af Dynk tók Ólafur Haraldsson en hann hannaði einnig plakatið.

Birt:
March 19, 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Dynkur - fossinn sem ekki má hverfa“, Náttúran.is: March 19, 2014 URL: http://natturan.is/d/2014/03/19/dynkur-fossinn-sem-ekki-ma-hverfa/ [Skoðað:June 3, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: