Nú nýverðið stóðu Samtök avinnulífsins og Festa, miðstöð um samfélagsábyrgð, fyrir ráðstefnu um ábyrga starfshætti og sameiginlegan ávinning fyrirtækjanna og samfélagsins. Á dagskrá voru frásagnir fulltrúa 6 ólíkra fyrirtækja um hvernig samfélagsábyrgð birtist í störfum þeirra.

Það var sérlega góð mæting á þennan fund sem bendir til aukinns áhuga á málefninu en Ísland er mikill eftirbátur nágrannalandanna á þessu sviði. Fyrirlesarar komu frá fjórum stórum fyrirtækjum sem áttu við ólík vandamál að glíma varðandi samfélagsabyrgð og tveimur litlum fyrirtækjum þar sem samfélagsábyrgð er hluti af umgjörð, markaðssetningu og framleiðslu. Þetta voru Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan, Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar svo og Kristján Gunnarsson meðeigandi og framkvæmdastjóri vefstofunnar Kosmos og Kaos og Hulda Hreiðarsdóttir stofnandi og yfirhönnuður Fafu.

Kristján sagði að þegar fyrirtækið var stofnað í Keflavík árið 2010 hafi verið lögð áhersla á endurnýtingu og frumlegheit við innréttingu skrifstofunnar. Öll húsgögnin voru unnin úr mótatimbri og öðru endurnýttu efni og ýmis gömul húsgögn fengu nýtt líf. Meira að segja tölvurnar voru endurnýttar og endurbættar. Þetta fréttist út og skrifstofan vakti forvitni og virkaði sem kynning á fyrirtækinu og starfseminni. Í framhaldinu varð hugmyndafræði samfélagsábyrgðar og umhverfisverndar hluti af stefnu og menningu fyrirtæksins og eitt leiddi af öðru. Til varð umhverfisstefna, hamingjustefna og fjölskyldustefna. Mikil áhersla er lögð á vellíðan starfsmanna og fjölskyldna þeirra. Börn eru velkomin á vinnustað foreldranna og sérstakt leik- og vinnusvæði var útbúið fyrir þau. Kristján sagði leitast við að velja vörur og þjónustu frá ábyrgum fyrirtækjum og að viðskiptavininir væru hvattir til að taka upp samfélagslega ábyrga starfshætti. Fyrirtækið hefur vaxið mjög hratt og önnur skrifstofa er nú starfrækt í Reykjavík. Þar en ekki þótti æskilegt að þeir starfmenn sem búa í höfuðborginni ækju á milli á hverjum degi. Samskipti fara fram gegnum tölvu og allir hittast svo á fundum hálfs- mánaðarlega. Skrifstofan í Reykjavík er byggð upp á sama hátt og skrifstofan í Keflavík og þangað í Hellusund 3 eru allir velkoknir til að skoða .

Á heimasíðu Kosmos og Kaos má lesa eftir farandi undir liðnum hafið samband: - Gestir sem heimsækja okkur fá kaffi eða háfjalla-oolong sem hellt er upp á af mikilli natni. Hjá okkur má grípa í gítar, róla sér, teikna á töflur og blöð og spila foosball.
Hulda Hreiðarsdóttir stofnandi og yfirhönnuður Fafu sagði frá fyrirtækinu sem framleiðir leikföng, búninga og leiktæki sem ætlað er að styðja við þroska barna út frá þekkingu á taugasálfræði. Hulda sagði frá því að þegar það var stofnað árið 2009 voru gildi samfélagsábyrgðar strax höfð að leiðarljósi. Mikil áhersla var og er lögð á vistvæna framleiðslu sem unnin er samkvæmt Fair Trade hugmyndafræðinni. Verksmiðjurnar sem eru í Nepal voru valdar með það í huga og þar eru umhverfismál og aðbúnað starfsmanna í framleiðsluferlinu í fyrirúmi. Vegna þess hve mikil áhersla er lögð á sanngjörn laun, náttúruleg efni og vandaða vinnu verður vöruverðið nokkuð hátt. Þar sem það er kappsmál hjá Fafu að sem flest börn fái að kynnast þessum sérstæðu leikföngum er reynnt að halda kostnaði niðri á ýmsan hátt svo sem með óhefðbundinni markaðsstarfsemi og með því að selja beint um netið til leikskóla og foreldra barna sagði Hulda. Í upphafi hafði fyrirtækið íslenska fjárfesta sem ekki höfðu nægan skilning á sérstöðu fyrirtækisins. Nú er meðeigandi Fafu breskur aðili sem rekur meðal annars útileikskóla í Bretlandi og hefur mikinn áhuga á hugmyndafræði Fafu.

Á heimasíðu fyrirtækisins sem er fafuplay.com segir svo um hugmyndafræði og stefnu Fafu: - Hjá okkur eru engar málamiðlanir varðandi gæði, við notum einungis náttúruleg efni og vinnukraft úr héraði. Við leggjum mikið upp úr umhverfisvernd og greiðum sanngjarnt verð fyrir vinnuna. Við stefnum að bættum vinnuaðstæðum og að dregið verði úr vinnu barna. Við setjum öryggi framleiðslunnar í fyrsta sæti og viljum stuðla að því að neytendur séu félagslega og umhverfislega ábyrgir.

Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan sagði að fyrirtækið legði mikla áherslu á öryggi starfsmanna og að vinnuslysum hefði fækkað mikið. Áhersla væri lögð á að versla við íslenska aðila gjarnan úr heimabyggð og það hefði skapað störf og aukið nýsköpun. Unnið er samkvæmt jafnréttisáætlun inna fyrirtækisins og gengur það vel í sumum deildum en erfitt er að fá kvenkyns iðnaðarmenn. Rannveig sagði unnið að því að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda og verið væri að setja upp mjög dýrann lofthreinsibúnað til að draga úr losun flúors. 

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans sagði meðal annars að eftir hrun hafi bankinn verið rúinn trausti og mikil þörf hafi verið á að styrkja innviði hans og tengsl við samfélagið, viðskiptavinina og starfsfólkið. Mikil áhersla hafi verið lögð á að breyta menningu bankans innan frá og talað hafi verið við starfsfólk í öllum deildum og hlustað á skoðanir þess og tillögur. Mötuneytið hefur fengið Svansvottun og meðferð á pappír hefur verið endurskoðuð en hvoru tveggja hefur sparað bankanum tugmilljónir króna á ári.

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans sagði að fyrirtækið legði mikla áherslu á öryggi upplýsinga viðskiptavina sem jafnréttismál og aukinn hlut kvenna í stjórnendastöðum. Síminn hvetur til ábyrgðar í umhverfismálum meðal annars með verkefninu Græn framtíð en farsímaeigendur eru hvattir til að skila símum sem þeir nota ekki lengur svo hægt sé að endurnýta þá.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar sagði frá nýjum markmiðjum á sviði samfélagsábyrgðar sem eru aðgengileg á vef fyrirtækisins. Unnið er út frá sex áherslusviðum; Stjórnháttum, virðiskeðjunni, umhverfismálum, samfélaginu, mannauð og miðlun þekkingar. Fyrirtækið stefnir að því að hlutfall kvenkyns stjórnenda hjá fyrirtækinu verði 20% á þessu ári, að stefna um heilindi í viðskiptum verði innleidd. Hann sagði að krafa um arðsemi af rekstrinum og krafa um ábyrgð og sjálbærni í rekstri væru tvær hliðar á sama teningi.

Sjá myndir frá fundinum hér.

Birt:
Feb. 1, 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Steinunn Harðardóttir „Samfélagsábyrgð fyrirtækja í sviðsljósinu“, Náttúran.is: Feb. 1, 2014 URL: http://natturan.is/d/2014/02/01/samfelagsabyrgd-fyrirtaekja/ [Skoðað:March 22, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: