Íbúar Jarðar er nú komnir upp í um 7,1 milljarð og fæðast um 300.000 börn á dag. Þessi mikla fólksfjölgun endurspeglar einkum slæma stöðu kvenna víðs vegar í veröldinni, vegna þess að ef konur fá að menntast, og ráða lífi sínu að mestu leyti sjálfar, þá velja þær yfirleitt að eignast færri börn. Einnig endurspeglar þetta slæma stöðu barna, þar sem konur velja að eignast fleiri börn þar sem læknisþjónustu er ábótavant og þar sem ungbarnadauði er mikill.

Umræðan um fólksfjölgun snýst því annars vegar um hvernig hægt er að búa öllum börnum Jarðar mannsæmandi líf, og hins vegar hvernig hægt er að bæta stöðu kvenna, einkum í þróunarríkjum, þannig að þær séu ekki fastar í hringrás endalausra barneigna og þrældóms.

Það má heldur ekki gleyma því að hvert barn felur í sér mikla möguleika fyrir allt mannkyn, en einungis ef hlúið er að barninu og því veitt möguleiki á því að eiga sér framtíð. Allt of mörg börn enda sem betlarar eða götubörn, eða lenda í verksmiðjum sem nýta sér börn sem ódýran vinnukraft. Því þarf einnig að bæta stöðu barna.

Ein besta leiðin til að forðast að kaupa vörur sem eru framleiddar með barnaþrælkun, er að kaupa vörur sem eru sanngirnisvottaðar (Fair trade). Þær tryggja að vel er farið með þá sem framleiða vöruna, og að allir í framleiðslukeðjunni fá greidd mannsæmandi laun. Barnaþrælkun er alls ekki leyfð þegar um er að ræða sanngirnisvottaðar vörur.

Það er ljóst að við verðum að stemma stigu við veldisvexti fólksfjölgunar í heiminum. Það er einungis hægt að gera með því að bæta stöðu þeirra sem verst standa, fátækra kvenna og barna. Bæta þarf læknisþjónustu og mæðravernd, draga úr ungbarnadauða og dreifa getnaðarvörnum og veita fræðslu. Mannúðarsamtök ýmisskonar gegna hér lykilhlutverki, en við getum öll lagt okkar af mörkum t.d. með því að styrkja menntun barns í fátækum ríkjum, en slíkt er hægt að gera gegnum hjálparsamtök er einbeita sér að því að bæta stöðu barna í veröldinni. Einnig er hægt að styrkja alþjóðleg hjálparsamtök er bregðast við hungursneyðum og bjarga fólki í náttúruhamförum.

Grafík: Kona með nýfætt barn sitt, Guðrún A. Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir.

Birt:
March 6, 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Um fólksfjölda, konur og börn“, Náttúran.is: March 6, 2013 URL: http://natturan.is/d/2013/03/06/um-folksfjolda-konur-og-born/ [Skoðað:Jan. 24, 2020]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: