Það er hægt að hafa ofnæmi fyrir ótrúlegustu hlutum. Eitt af því sem hægt er að hafa ofnæmi fyrir er efni sem kallast í daglegu tali Thiuram mix eða Thiuram blanda. Efnið er notað til að hraða myndun fjölliða við framleiðslu á gúmmí, og er það í næstum öllum hlutum sem innihalda gúmmí.  Það er því ekki svo auðvelt að komast hjá því að lenda í snertingu við Thiuram blönduna í samfélagi nútímans. Yfirleitt er um að ræða ofnæmi sem lýsir sér sem slæmt exem og sár á húð. Það getur verið langvarandi og erfitt viðureignar.

Næstum allir bílar eru klæddir að innan með plasti og gúmmí. Gúmmíhanskar, skór og innlegg geta innihaldið Thiuram blöndu. Gúmmístrengur í nærbuxum og sundbolir geta framkallað ofnæmisviðbrögð og skilið eftir sig rauða húð. Plastmálningin sem íbúðin er máluð með getur innihaldið Thiuram blöndu og getur slíkt valdið vægri útsetningu gegn efninu.

Listinn hér að neðan er ekki tæmandi en gefur þó vissa vísbendingu við hvað er að eiga. Thiuram blanda getur verið í eftirfarandi hlutum:

 • Hönskum, skóm, innleggjum
 • Í nærfötum og sundbolum
 • Í sárabindum og lækningatækjum
 • Í tækjum sem notuð eru við blóðskilun nýrna
 • Í hljólbörðum og slöngum t.d. garðslöngum
 • Í plasti og kennaratyggjói
 • Í plöntueitri í landbúnaði og í skordýraeitri
 • Í efnum sem virka fælandi á dýr
 • Í svömpum og augnskuggum, snyrtivörum
 • Í gúmmílökum, koddum og hitapokum
 • Í hettum og smokkum
 • Í blöðrum, alls kyns leikföngum
 • Í lími í skó og í veggfóðurslími
 • Í sápum og sjampóum
 • Í lyfinu Antabus sem er notað gegn alkóhólisma
 • Í plastmálningu

En hvaða lausnir eru þá til? Hægt er að ganga í leðurskóm og skór úr plasti eru skárri en skór með gúmmísólum. Einnig eru góðu gömlu tréklossarnir æskilegir. Forðast skal gúmmíhanska og nota í staðinn vínylhanska. Einnig má nota hanska úr neopreni ef vínylhanskar henta ekki.

Til eru sárabindi sem innihalda ekki Thiuram blöndu. Þau eru t.d. gerð úr viskósa, pólýamíði, elastani og bómull. Nota má pressusárabindi eins og Tensopress og Setopress. Ef nota þarf sjúkrasokka er gott að nota þá sem gerðir eru úr Lycra eða næloni.

Fullt af leiðbeiningum um ofnæmi gegn Thiuram blöndu er að finna á internetinu. Gallinn er sá að flestar þær síður eru á ensku. Hér fylgir þó listi yfir nokkrar upplýsingasíður um Thiuram blöndu ofnæmi. Gangi ykkur vel að finna frekari upplýsingar:

http://www.dermnetnz.org/dermatitis/rubber-antioxidant-allergy.html
www.truetest.com/PatientPDF/Thiuram-Mix-Patient-Info.pdf
www.cutaneousallergy.org/downloads/patient/standard/thiuram.pdf
http://contactallergy.com/contact_allergy_069.htm

Birt:
March 9, 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Um ofnæmi fyrir gúmmíefninu Thiuram mix“, Náttúran.is: March 9, 2014 URL: http://natturan.is/d/2013/03/01/um-ofnaemi-fyrir-gummiefninu-thiuram-mix/ [Skoðað:Feb. 27, 2020]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: March 1, 2013
breytt: March 9, 2014

Messages: