Skrúður við Núp í Dýrafirði hlaut nýlega alþjóðlega viðurkenningu ítalskrar stofnunar, sem árlega velur einn skrúðgarð sem vakin er sérstök athygli á. Árið 2013 er Skrúður valinn. Nýlega barst Brynjólfi Jónssyni skógfræðingi og formanni Skrúðsnefndar bréf, þar sem fram kemur að dómnefnd Premio Internazionale Carlo Scarpa per il Giardino [Alþjóðaverðlaun Carlo Scarpa fyrir garða] samþykkti einróma að tileinka sína árlegu hátið, sem nú er haldin í tuttugasta og fjórða skipti, Skrúði. „Þessum litla jurtagarði sem er hannaður eftir reglum rúmfræðinnar og staðsettur í mikilfenglegu landslagi Vestfjarða, og komið á fót í nágrenni Unglingaskólans á Núpi á árunum 1907-1909,“ einsog segir í bréfinu.

Verðlaunin eru árlega veitt til viðurkenningar stað sem er sérstaklega mikill að náttúru, minningum og uppgötvunum og þeim fylgir skipulagt menningarlegt og fræðilegt kynningarátak út árið. Skrúður við Núp í Dýrafirði er elsti skrúðgarður landsins. Árið 2009 voru 100 ár frá stofnun hans og þá birtist þessi fróðlega grein hér á skutli.is, eftir Samson Bjarnar Harðarson.

Viðurkenningin, The XXIV International Carlo Scarpa Prize for Gardens, 2013, felur í sér röð opinberra viðburða á Ítalíu, sem byrjar með blaðamannafundi sem áætlaður er í Mílanó þann 26. mars og öðrum í Treviso þann 9. maí, heimildasýningu sem verður opin í maí og júní í Treviso, og útgáfu greinasafns tileinkað Skrúði. Fyrir þá sem eru sleipir í ítölskunni, þá er hér slóð Fondazione Benetton Studi Ricercheog fbsr.it einnig má lesa um stofnunina á ensku.

Bréfið sem Skrúðsnefndin fékk, má lesa á thingeyri.is.

Sjá garða á Íslandi hér á Græna Íslandskortinu.

Sjá Skrúð og Hlið, grasa og trjágarða hér á Grænum síðum.

Lljósmynd: Skrúður ber við Gnúpinn, Einar Bergmundur.
Grafík: Merki Fondazione Benetton Studi Richerche

Birt:
Feb. 13, 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Skrúður fær alþjóðlega viðurkenningu“, Náttúran.is: Feb. 13, 2013 URL: http://natturan.is/d/2013/02/13/skrudur-faer-althjodlega-vidurkenningu/ [Skoðað:Oct. 4, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: