Hann var áður þekktur bæði sem tveggja postula messa og Valborgarmessa, og á fyrra nafnið við postulana Filippus og Jakob, sem báðir þoldu píslardauða. Síðara nafnið er tengt við Valborgu eða Valpurgis, sem samkvæmt helgisögn var dóttir Ríkharðs helga konungs á Englandi. Eftir sömu heimild varð hún abbadissa við nunnuklaustur í Heidenheim á Þýskalandi og dó árið 779 eða 80. Á legsteini hennar spruttu fram dropar, sem menn söfnuðu í glös og töldu meðal við ýmsum sjúkdómum, einkum í augum.

Síðar varð mikil trú á Valpurgis í Þýskalandi sem verndara gegn göldrum og hamförum eða svo var a.m.k. látið í veðri vaka. Því voru í hennar nafni tendraðir eldar á hólum og hæðum nóttina fyrir fyrsta maí, en þávar talið, að galdranornir og aðrar hamhleypur væru á ferð og flugi á kústsköftum til fundar við sjálfan Fjandann á Blokksfjalli. Um þetta athæfi eru til fjölmargar þjóðsagnir um svallveislur á þessari nóttu og er sú heimfrægust, sem Goethe býr til úr einn þáttinn í Fást. Aðallega eru þetta þýskar sagnir, en þó þekkjast þó einnegin frá Norðurlöndum.

Á Íslandi er þó ekki vitað um neina sérstaka þjóðtrú í tengslum við Valborgarnótt. Löngu er vitað, að hér er upphaflega um að ræða eina hinna mörgu vorhátíða í Evrópu, sem háðar voru á mismunandi tíma eftir landshlutum og breiddargráðum, því að vorið getur eðlilega ekki hafist allstaðar á sömu stundu. Mjög útbreidd var þó sú skoðun á síðari öldum í norðanverðri Evrópu, að maí væri fyrsti mánuður sumars. Rómverska gyðjan Maja var tákn æsku, vors og blóma, enda samstofna við íslenska orðið meyja.

Fyrsti maí var á Norðurlöndum utan Íslands mjög víða talinn fyrsti dagur sumars, og voru hátíðahöldin í samræmi við það. Dagsetningin sjálf á ´ser hinsvegar mjög greinilega sögu, komnar sunnar úr álfu. Frankakonungar á fyrri hluta miðalda héldu þing sitt 1. mars (campus martius), og þá kannaði konungur liðssveitir sínar fyrir sumarherferðinar. Um leið tók konungur við gjöfum lýðsins. Pípin litli, faðir Karls mikla (Karlamagnúsar), færði þingsetninguna til 1. maí árið 755, og hét hún eftir það campus maius. Þegar ríki Karls mikla tók að sundrast á 9. öld, minnkaði pólítískt gildi þessa þingdags, en rekja má alþýðulegar leifar hans noður eftir Evrópu allar götur síðan, t.d. í Hansaborgunum nálægt lokum miðalda. Var þá valinn "maígreifi" og fylkingar fóru um með heimatilbúið alvæpni.

Nú á dögum er 1. maí nær einvörðungu þekktur sem dagur verkalýðsins. Upptök þess er að rekja til þings Alþjóðasambands sósíalista, sem hófst í París á 100 ára afmæli frönsku byltingarinnar 14. júlí 1889. Að till-gu fulltrúa bandaríska verkalýðssambandsins (A.F.L.) var þar samþykkt að gera 1. maí að alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsstéttarinnar. Meginbaráttumálið á þeim árum var átta stunda vinnudagur. Fyrstu kröfugöngurnar 1.maí voru svo farnar í nokkrum löndum árið eftir, 1890, og kom sumstaðar til blóðsúthellinga, þar sem yfirvöldum þótti erfiðislýðurinn vera að "ægja" stórborgurum", eins og komið var að orði í Ísafold þetta ár. Fyrstu kröfuganga 1. maí á Íslandi var farin í Reykjavík árið 1923.

Enda þótt það liggi ekki fyrir í skjölum, mun óhætt að gera ráð fyrir því, að hin hefðbundna alþýðuhátíð í byrjun maí hafi átt sinn þátt í vali dagsins og ekki ófyrirsynju. Þessi dagur hafði jafnan haft á sér mjög alþjóðlegt yfirbragð og tilraunir kirkjunnar til að kristna hann snerust upp í móthverfu sína. Á 19. Öld var hann heldur á fallanda fæti vegna vaxtar borga á kostnað sveitanna. En undir lok hennar tekst hinni alþjóðlegu verkalýðshreyfingu að snúa alkunnri gamalli almenningshátíð upp í baráttudag.

Löngum hafa þessir tveir þættir togast á eða blandast saman í 1. Maí göngum meðal ólíkra þjóða. Á kreppu- og styrjaldarárum bera göngurnar mikinn svip af stéttabaráttu og þjóðfrelsishugskónum, en í annan tíma stinga allskyns gleðilæti upp kollinum í mörgum löndum, stundum með rætur aftan úr forneskju.

Fyrsti maí á sér enga hefð á Íslandi utan verkalýðsbaráttunnar. Sé einhver aukinn léttleiki yfir kröfugöngum og útifundum síðari ára, er þar um sjálfstæða og nýja þróun að ræða.

Birt:
May 1, 2015
Höfundur:
Árni Björnsson
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Fyrsti maí“, Náttúran.is: May 1, 2015 URL: http://natturan.is/d/2007/04/11/fyrsti-ma/ [Skoðað:Aug. 12, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: April 11, 2007
breytt: May 1, 2015

Messages: