Þótt jólagjafir þekktust að fornu og nýju meðal konunga og stórhöfðingja, einkum erlendis, hafa þær aldrei tíðkast að ráði meðal almennings á Íslandi fyrr en á síðustu hundrað árum í hæsta lagi. Sumargjafirnar voru enda eldri.

Að vísu munu flestir hafa fengið frá húsbændum einhverja flík og nýja sauðkinnsskó, sem kölluðust jólaskór En þetta eru ekki einstaklingsbundnar gjafir, og kannski mætti eins vel líta á þær sem einskonar “persónuuppbót” í jólamánuðinum.

Snemma á 19. öld hefur það þó verið nokkuð almennur siður að gefa öllum börnum kerti á jólunum og jafnvel öllu heimilisfólkinu. Þetta var ekki svo lítilfjörlegt þá, því að ólíkt var kertaljósið bjartara en hitt sem grútalampinn veitti. Þetta voru tólgarkerti, og var steypa þeirra eitt af því sem vinna þurfti fyrir jólin. Þegar svo hver maður kveikti á kerti við sitt rúm, má nærri geta, að það hefur sett hátíðablæ á baðstofuna.

Frá því seint á 19. öld taka jólagjafir að færast í aukana, enda er þá orðið meira um verslanir. Koma þá til sögunnar hlutir einsog spil, sápa, vasaklútur, svuntuefni, húfa, tefill og annað slíkt, jafmvel bækur handa börnum. T.d. fær Stefán frá Hvítadal bókina um Mjallhvít í jólagjöf 1896.

Úr því að minnst er á spilin, er rétt að geta þess, að langalgengasta skemmtun fólks á jólunum var að spila. Helstu spilin voru alkort og púkk, en marías, vist og lomber koma seinna til sögunnar. Almenn regla var sú, að ekki mætti byrja að spila fyrr en á annan í jólum, en þá var líka spilað langt fram á nætur. Mjög lengi loddi það við meðal eldra folks, að ekki mætti spila á aðfangadagskvöld og jafnvel ekki jóladag og gerir e.t.v. enn.

Það er ekki fyrr en á stríðsárunum seinni eða eftir 1940, að jólagjafir aukast svo gífurlega í það horf, sem enn ríkir, a.m.k. ekki utan Reykjavíkur. Þess var heldur ekki að vnta. Þær voru ekki gamalg´roin hefði og fólk var almennt mjög fátækt fram eftir öldinni, og ekki bættu kreppuárin úr skák 1930-40. Segja má, að jólagfafarganið fylgi hinni margrómuðu lífskjarabyltingu verkalýðsins í kringum 1942, sem seljendur jólavarnings hafa ótæpilega notið góðs af.

Birt:
Dec. 16, 2013
Höfundur:
Árni Björnsson
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Jólagjafir“, Náttúran.is: Dec. 16, 2013 URL: http://natturan.is/d/2007/04/12/jlagjafir/ [Skoðað:Nov. 29, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: April 12, 2007
breytt: Jan. 1, 2013

Messages: