Eftirfarandi bréf var sent öllum alþingismönnum í dag:

Eins og svo oft áður hefur umræðan um erfðabreyttar lífverur (EBL) og útiræktun þeirra verið töluverð undanfarið og sérstaklega eftir að rannsókn G.E. Séralini var gerð opinber í Frakklandi  sem kallaði fram miklar efasemdir um skaðleysi erfðabreyttra matvæla.  Hér á landi hafa vísindamenn, sérstaklega í Landbúnaðarháskóla Íslands og í Læknadeild Háskóla Íslands,  verið einkar duglegir að koma sínum skoðunum  á framfæri í fjölmiðlum og staðhæfa að sannað sé að erfðabreyttar lífverur séu með öllu skaðlausar og að regluverkið hér á landi sé nægilegt þannig að ekki þurfi að fara fram á stöðvun útiræktun EBL.  Umsögn  þeirra til Alþingis varðandi þingsályktunartillögu  (Þingskjal 196 — 193. mál) um bann við útiræktun erfðabreyttra lífvera sem 52 vísindamenn úr ýmsum deildum, þó aðallega erfða- og líffræðideildum, hafa undirritað er síðasta dæmi um það.

Bréf vísindamannanna tekur greinilega eingöngu mið af þeirri ræktun sem hefur farið fram í tilraunareit í Gunnarsholti á vegum Orf Líftækni, þar sem Umhverfisstofnun á að tryggja að öll framleiðsla sé  eyðilögð að lokinni tilraunum en ekki sett á markað.  Til marks um það segja vísindamennirnir:  : „Í ljósi þess að á Íslandi eru engar villtar tegundir, sem skyldar eru þeim nytjaplöntum sem ræktaðar eru hérlendis, verður að telja það langsótt í meira lagi að áhrif útiræktunar á erfðabreyttum lífverum komi fram á „hreinleika íslenskrar náttúru““.  Alþingi og borgarar þessa lands verða að vera víðsýnni en þetta og huga að því að til dæmis 80 % af þeirri repju  sem er ræktuð í BNA eða Kanada ererfðabreytt - hver veit nema óskir um að rækta hana hér á landi komi fram í náinni framtíð? Þar er smithættan reglan. Málið er því fordæmisgefandi fyrir framtíðarþróun í ræktun og landbúnaði hér á landi og á sér margar hliðar.

Við undirrituð viljum biðja Alþingismenn  að velta fyrir sér eftirfarandi spurningum, þar sem þeir eru kjörnir fulltrúar almennra borgara landsins en ekki eingöngu vísindasamfélagsins:

  1. Mörg lönd í Evrópu hafa stöðvað með lögum útiræktun erfðabreyttra lífvera (sjá GMO free regions of Europe) þótt löggjöfin sé sú sama og gildir á Íslandi - einhver ástæða er fyrir því; annars staðar í heiminum (eins og í Ecuador og Perú) gildir sama bann, sem er jafnvel skráð í stjórnarskrá.
  2. Hvaða gagn hefur Ísland af útiræktun erfðabreyttra lífvera þegar ókostirnir vega svo þungt á móti ?
  3. Skaðleysi erfðabreyttra plantna úti í náttúrunni og í matvælum er langt frá því að vera sönnuð og nokkrar  alþjóðastofnanir munu á næstunni endurskoða rannsókn Séralinis og jafnvel kosta langtímarannsóknir. Vísindasamfélagið á heimsvísu er langt frá því að vera einróma um  skaðleysi. Það væri þar af leiðandi mjög viturt að stöðva alla útiræktun á þeim hér á landi eins og annars staðar, þangað til þessar rannsóknir hafa verið gerðar, til þess að fórna ekki meiri hagsmunum fyrir minni. Hér þarf að hafa varúðarregluna í fyrirrúmi.
  4. Alþingi samþykkti einróma fyrr á árinu þingsályktunartillögu um Grænt Hagkerfi og þar er sett fram það markmið að lífræn lanbúnaðarframleiðsla verði 15% árið 2020. Þar er ekki  talað um að útiræktun erfðabreyttra lífvera væri forgangsmál,  og þar fyrir utan fara lífrænir búskaparhættir og útiræktun erfðabreyttra lífvera ekki saman því minnsta mengun þýðir að lífræn vottun verði fellt niður, og sá sem mengar með erfðabreyttum lífverum hefur í dag enga möguleika á að tryggja sig gegn þeim skaða sem hann myndi valda.  Það síðarnefnda á reyndar við um alla búskap, lífrænan sem hefðbundinn.

Við skorum á Alþingi um að ræða málefnalega um þessa þingsályktunartillögu og óskum þess að tekið verði mark á röddum almennings ekki síður en úr vísindasamfélaginu, og haft verði í huga að ekki hafa allir jafnan aðgang að  fjölmiðlum. Við teljum að þingsályktunartillöga um að stöðva ræktun erfðabreyttra lífvera á Íslandi sé í fullu samræmi við þá ímynd og áherslur landsins sem allar stofnanir í landinu vinna við að styrkja.

Dominique Plédel Jónsson, formaður Slow Food í Reykjavík (960 meðlimir á Facebook)

Svala Georgsdóttir, fulltrúi framkvæmdanefndar Samtaka Lífrænna Neytenda (1400 meðlimir á Facebook)

Þórður G. Halldórsson, formaður VOR, Verndun og Ræktun, félag framleiðands í lífrænni ræktun

Guðrún A. Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Náttúran.is (2000 áskrifendur að fréttabréfi, 500-800 daglegir gestir)

Birt:
Nov. 22, 2012
Tilvitnun:
Dominique Plédel Jónsson „Opið bréf til alþingismanna varðandi útiræktun erfðabreyttra lífvera“, Náttúran.is: Nov. 22, 2012 URL: http://natturan.is/d/2012/11/22/opid-bref-til-althingismanna-vardandi-utiraektun-e/ [Skoðað:Oct. 4, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: