Síðastliðinn föstudag opnuðu bændur í Beint frá býli á Vesturlandi, ásamt handverksfólki í Borgarfirði og nágrenni, matar- og handverksmarkað í Brúartorgi 4 í Borgarnesi. Margir gestir lögðu leið sína á markaðinn þar sem kaupa má ís, konfekt, kjöt, sultur, sælgæti, prjónles, kerti, smyrsl, sápur, skartgripi og kort, svo fátt eitt sé nefnt.

Að sögn Hönnu Kjartansdóttur hjá Mýranauti, sem á aðild að markaðinum, þá hefur um nokkra hríð verið rætt um að koma á fót bændamarkaði þar sem heimavinnsluaðilar geti boðið viðskiptavinum vörur sínar til sölu á einum stað. Skriður komst á hugmyndina á dögunum og úr varð að nokkur hópur tók nyrsta enda Brúartorgs 4 á leigu út desember. Eftir því sem nær dró opnun hafi fleiri aðilar sett sig í samband við hópinn um þátttöku í markaðinum, sérstaklega handverksfólk.

Hanna kveðst ánægð með þessi jákvæðu viðbrögð og hvetur fólk til að koma að skoða það sem markaðurinn hefur upp á að bjóða. Markaðurinn kemur til með að vera opinn á föstudögum frá klukkan 13:00 -19:00 og laugardögum frá kl. 12:00 - 16:00 fram að jólum, en að auki verður opið á sunnudögum í desember frá kl. 12:00 - 16:00.

Ljósmynd: Erna Einarsdóttir til hægri og Hanna Kjartansdóttir afgreiða Helgu Björk Bjarnadóttur á markaðinum, Skessuhorn.

Birt:
Nov. 13, 2012
Höfundur:
Skessuhorn
Uppruni:
Skessuhorn
Tilvitnun:
Skessuhorn „Matar- og handverksmarkaður í Borgarnesi fær jákvæðar undirtektir“, Náttúran.is: Nov. 13, 2012 URL: http://natturan.is/d/2012/11/13/matar-og-handverksmarkadur-i-borgarnesi-faer-jakva/ [Skoðað:May 28, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: