eða hugleiðingar varðandi rannsókn Gilles Eric Séralinis á skaðsemi eða skaðleysi erfðabreytts mais og Round Up

Þann 19. september sl. kom út í Food and Chemical Toxicology, merkileg, ritrýnd rannsókn gerð í Frakklandi, í Háskólanum í Caen undir stjórn Gilles Eric Seralini, prófessors í sameindalíffræði (molecular biology) sem sýnir fram á það að erfðabreytt matvæli (nánar tiltekin maístegund NK 603 frá Monsanto sem hefur verið genasplæst til að þola Round Up, illgresiseyði sem Monsanto framleiðir) og Round Up illgreysiseyðir séu skaðleg heilsu manna. Þessi rannsókn hefur tekið tvö ár og var gerð á 200 rottum sem þróuðu illkynja æxli í brjóstkirtlunum eða í nýrum og/eða lifur. Sömuleiðis var dánartíðni mun hærri en í samanburðarhópnum. Nóg er af tenglum á Facebook síðunni „Nei erfðabreytt“  þar sem hægt er lesa sig betur til um rannsóknina. Það verður líka að taka fram að þessi rannsókn, sem kostaði alls rúmlega 3 miljónir € (480 milj. ISK) var gerð af óháðu teymi og fjármögnun kom ekki frá sjálfum iðnaðinum eins og tilfellið hefur verið hingað til, heldur frá sjóði þar sem tvær af heimsins stærstu verslunarkeðjum, Carrefour og Auchan, eiga meirihluta. Ástæðan fyrir þeirra þátttöku er einföld: leyfilegt er orðið í Frakklandi að merkja matvæli „án GMO“ eða „afurð af dýrum sem hafa ekki neytt GMO fóðurs“ og verslunarkeðjur kæra sig ekki um að vera lögsóttar fyrir að selja afurðir sem gætu reynst skaðlegar viðskiptavinum sínum.

Ekki er hægt að segja annað en að niðurstöður rannsóknarinnar hafa valdið algjörri sprengju í fjölmiðlum, í heimi vísindamanna og neytendasamtaka um heim allan. G.E. Seralini er heldur ekki hefðbundinn vísindamaður: hann hefur frá upphafi verið gagnrýndur fyrir að vera andstæðingur notkunar erfðabreyttra lífvera í matvælum vegna þess að allar rannsóknir hafi verið gerðar af iðnaðinum, og vegna þess að margt bendir til þess að þau séu skaðleg heilsu manna. En vísindamaður er hann svo sannarlega. Hann stofnaði CRIIGEN (rannsóknarmiðstöð um „genetic engineering“) ásamt Corinne Lepage, fyrirverandi umhverfisráðherra Frakklands og Evrópuþingmanni fyrir Græningja. Enda er iðnaðurinn sjálfur eða háskólar sem þessi sami iðnaður fjármagnar, ekki áfjáðir í að sýna fram á að eigin afurðir séu í raun eitur. Phil Angell, yfirmaður almannatengsla Monsanto, sagði þessi háfleygu orð eitt sinn: „Monsanto á ekki að tryggja öryggi erfðabreyttrar fæðu, okkar hagsmunir felast í því að selja eins mikið og við getum. Það er hlutverk matvæla- og lyfjastofnunar Bandaríkjanna [FDA] að tryggja öryggið.“ Svo fara yfirmenn og lögfræðingar Monsanto í stjórnunarstöður hjá FDA til að fylgja málinu eftir...

Það leið ekki sólarhringur þar til að vísindasamfélagið, hvort sem er í Frakklandi, á Íslandi eða annars staðar í heiminum, byrjaði að tæta í sig rannsókn Séralini:

 • Tölfræðilega glötuð (þó að staðall OECD um hópa tilraunadýra og samanburðarhópa hafi verið notaður)
 • Rotturnar væru hvort sem er líklegri en aðrar til að fá illkynja æxli
 • Að rannsaka áhrif erfðabreytta matvæli og Round Up á rottum væri ekki það sama og að rannsaka á manneskjum þó að allar rannsóknir sem hafa átt að sýna fram á skaðleysi hafi líka verið gerðar á rottum.
 • Greinin hafi birst í lélegu vísindatímariti sem sé varla lesið og þó hún hafi verið ritrýnd þá hafi það ekkert gildi því það sé hægt að birta lélegar greinar þó þær séu ritrýndar (þó að það sé mjög virt tímarit í faginu...)
 • Séralini sé  á móti erfðabreyttum matvælum og hafi þar af leiðandi hagsmuna að gæta. Þar að auki sé  hann að gefa út bók og kvikmynd í kjölfarið („Við erum öll tilraunadýr“, kemur út 26. september nk.)
 • Rannsóknin væri fjármögnuð af hagsmunaaðilum (þó að fjármögnun hafi komið frá óháðum aðilum, sbr fyrir ofan)
 • Rannsóknarteymið hafi beygt að vild þær niðurstöður sem fengust úr rannsókninni
 • ...og tölum ekki um séríslensku viðbrögð þar sem staðhæft er að þessi rannsókn sýni og segi ekki neitt vegna þess að erfðabreytt matvæli séu ekki að neinu leyti hættuleg annars myndum við „ganga með tómatagen í okkur“ (sic).

Allar vísindarannsóknir verða að þola gagnrýni og ef þarf, að vera endurteknar til að sanna eða afsanna hvort niðurstöðurnar standist. En bæði rannsóknin og gagnrýnin í þessu tilfelli vekja ótal margar spurningar, sem gagnrýnir fjölmiðlar (sem endurtaka ekki eins og guðspjall fréttatilkynningar iðnaðarins eða hagsmunaaðila) og neytendur frá grasrótinni hafa fullan rétt á að koma með spurningar, sérstaklega hér á Íslandi þar sem vísindasamfélagið á sviði erfða- og líftækni hefur þjappast í kringum hagsmuni Orf Líftækni og eru algjörlega úr tengslum við neytendamál. Hér eru nokkrar:

 • Rannsóknir sem hafa verið gerðar hingað til um áhrif erfðabreyttra lífvera á heilsu manna hafa verið gerðar á mismunandi tegundir af rottum (einu sinni hefur verið prófað á fólki, „Golden Rice“ hrísgrjón með gensplæstu A vítamíni, sem var prófuð á skólabörnum í Kína án þeirra vitundar - nýjasta hneykslið) - og ALLAR rannsóknir  EINUNGIS Í 90 DAGA - er það marktækt? Hafa þær rannsóknir verið tættar af vísindamönnum og þær gagnrýndar fyrir að geta ekki sýnt fram á skaðleysi erfðabreyttra lífvera á heilsu manna þar sem þær séu prófaðar á rottum og einungis í þrjá mánuði? Nei!
 • Jafnvel þó tölfræðin sé ekki eins og vísindamennirnir sem hafa gagnrýnt rannsóknina harðast vilja sjá og vilji meina að eyðileggi fyrirfram niðurstöður rannsóknarinnar, er það staðreynd að rottur sem fengu erfðabreyttan maís, NK 603 og Round Up, fengu fleiri æxli, meiri skemmdir á líffærum og höfðu hærri dánartíðni en þær sem fengu hann ekki. Er það ekki nóg til að fá öll viðvörunaljós til að loga? Hafa læknar ekki tekið eftir því hversu mikið brjóst- og ristilskrabbameinum hefur fjölgað undanfarin 15 ár eða svo (það mætti leita að þeim tölum) og hversu ofnæmistilfellum hefur fjölgað (þrefaldast í BNA eftir að EB matvæli voru sett á markað)? Er ásættanlegt að við séum öll tilraunadýr?
 • Sumir vísindamenn ná ekki að greina á milli þegar talað er um erfðabreytingar í rannsóknastofu og erfðabreytt matvæli sem eru þegar á markaði - sbr. viðbrögð vísindamanna á Íslandi. Í þessari rannsókn er verið að tala um erfðabreyttan maís sem inniheldur gen sem gerir hann ónæman fyrir eiturefninu Round Up. Þessi mais er fyrst og fremst notaður í dýrafóður  og einnig í maisafurðir sem notaðar eru í unnin matvæli. Nei, við erum ekki með tómata-gen í okkur, en vísbendingar voru komnar áður en Séralini rannsóknin var birt um skaðsemi Round Up : kanadísk rannsókn sýndi fram á að Round up finnst í blóði ófriskra kvenna og fóstra sem rannsökuð voru.
 • Séralini hefur opnað aðgang að gögnum sem voru notuð í rannsókninni - það er meira en hægt er að segja um þær rannsóknir sem hafa verið gerðar hingað til og hafa sýnt fram á að erfðabreytt matvæli séu ekki frábrugðin venjulegum matvælum, því öll gögn voru álitin vera „iðnaðarleyndarmál“ þannig að ekki var hægt að sannreyna niðurstöðurnar.
 • Er það ekki merkilegast í þessu öllu að viðurkenndur og virtur vísindamaður sem er starfsmaður ríkisrekinnar stofnunnar, þurfi að leita eftir fjármögnun úr einkasjóðum til að geta rannsakað í leynd mál sem er í þágu almennings? Er það ekki á ábyrgð yfirvalda að láta rannsaka á hlutlausan hátt, óháð iðnaðinum, hvort erfðabreytt matvæli séu skaðleg eða ekki, þegar umræðan og efasemdir um þau hafa verið viðloðandi í 15 ár og hafa svo gríðarleg áhrif á landbúnaðinn og heilu löndin?

Blaðamaðurinn Hervé Kempf í Le Monde spyr svo:

„Hafa opinberar rannsóknarstofur svo lítið fé og svo fáa vísindamenn að þær þurfa að sækja niðurstöður úr rannsóknum úr smiðjum Monsanto, Syngenta og Pioneer sem leggja bann við birtingu rannsóknargagna þar sem þau séu „iðnaðarleyndamál“? Að spyrja jafngildir það að draga fram í dagsljósið aðgerðaleysi stjórnmálamanna og vísindasamfélagsins, sem útskýrist þegar maður skoðar hvernig það síðarnefnda hefur verið á villigötum undanfarin 30 ár. Vísindarannsóknir voru áður fyrr fjármagnaðar með opinberu fé og fengu rýmra rannsóknarfrelsi og -sjálfstæði. Nú eru þær í meira mæli fjármagnaðar eða pantaðar af fyrirtækjum sem hafa takmarkaðan áhuga á grunnrannsóknum og kæra sig ekki um að vita um afleiðingar nýtækni sem þau vilja setja á markað. Vísindin eru ekki lengur sjálfstæð og það er mest áberandi í tilfelli erfðabreyttra lífvera í landbúnaðinum. Með því að bera málið á torg, sendir Séralini boltann til borgaranna. Á bak við deilur vísindamanna um það hvort afurð eða tækni sé skaðleg, er drama sem á heima í leikritum Shakespeare: Tengslin á milli peningavaldsins og sannleikans.“

Ljósmynd: Greinarhöfundur Dominique Plédel Jónsson, Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
Sept. 24, 2012
Tilvitnun:
Dominique Plédel Jónsson „Um rannsóknir á erfðabreyttum matvælum, gagnrýni og neytendur“, Náttúran.is: Sept. 24, 2012 URL: http://natturan.is/d/2012/09/24/um-rannsoknir-erfdabreyttum-matvaelum-gagnryni-og-/ [Skoðað:Feb. 3, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: