Laugardaginn 10. mars kl. 11-13 verður haldið málþing í Listasafni Íslands um listir og menntun til sjálfbærni.

Rúrí - yfilitssýning

Í nær fjóra áratugi hefur Rúrí staðið framarlega í fylkingu íslenskra listamanna í gjörningalist, innsetningum, rafrænum miðlum og höggmyndagerð. Dirfska hennar sem tilraunalistamanns hefur birst í gjörningnum sem hafa þótt ganga undrum næst. Eftir að hafa brotið með sleggju gullna Mercedes-bifreið á Lækjartorgi klæddist hún íslenskum kvenbúningi, ísaumuðum bandaríska fánanum, á fjölmennum hátíðarfundi í Háskólabíói. Þessir gjörningar höfðu sterka pólitíska skírskotun en mörkuðu samt upphaf að fínlegri og persónulegri verkum þar sem náttúra og óendanleiki, örskotsstund og tímaleysi voru skilgreind með nýjum hætti með hverfulum verkum. Þar má nefna verk eins og  Regnbogi I, 1983, þar sem himinhá bambusstöng með marglitum línfána í ljósum logum markaði hápunkt langs gjörnings sem festur var á filmu sem helgileikur tileinkaður lífi og náttúru.

Á sýningunni í Listasafni Íslands gefur að líta helstu verk Rúríar auk mynda af mörgum þekktustu gjörningum hennar, um 100 verk, bæði stór og smá. Sýningarstjóri er þýski listfræðingurinn Christian Schoen.

Málþing - Listir og menntun til sjálfbærni

Laugardaginn 10. mars kl. 11-13 í Listasafni Íslands

Dagskrá:

11:00 - Kynning á eigin verkum, Rúrí

11:20 - Menntun er sjálfbærni, Ásthildur Jónsdóttir LHÍ

11:40 - Nám á safni, Rakel Pétursdóttir safnafræðingur

12:00 - Umræður og vinnustofa. Myndmenntahluti Aðalnámskrár grunnskóla með hliðsjón af menntun til sjálfbærni.

Samstarfsverkefni við Listaháskóla Íslands, listkennsludeildar og Listasafns Íslands.

Ókeypis aðgangur - Allir velkomnir!

Sunnudagsleiðsögn: kl. 14 í fylgd Sigríðar Melrósar Ólafsdóttur deildarstjóra sýningadeildar.

Ljósmynd: Frá sýningu á einu fossaverka Rúríar til stuðning baráttunni Verjum Þjórsá 12. febrúar 2008, ljósm. Guðrún Tryggvadóttir

Birt:
March 9, 2012
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Málþing um listir og menntun til sjálfbærni í Listasafni Íslands“, Náttúran.is: March 9, 2012 URL: http://natturan.is/d/2012/03/09/malthing-um-listir-og-menntun-til-sjalfbaerni-i-li/ [Skoðað:May 30, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: March 10, 2012

Messages: