Samtökin Sól á Suðurlandi átelja fréttastofu Stöðvar 2 fyrir einhliða og villandi fréttaflutning af mögulegum tekjum af virkjunum í Þjórsá. Samtökin velta fyrir sér tilgangi slíkrar fréttamennsku, sem virðist fremur vera að hafa mótandi áhrif á skoðanir fólks en flytja því fréttir.

Í fréttum Stöðvar 2 hinn 22. febrúar flutti Kristján Már Unnarsson frétt um mögulegar tekjur Landsvirkjunar ef ráðist yrði í áframhaldandi virkjunarframkvæmdir í neðri hluta Þjórsár. Var þar rætt um að mögulegar tekjur hlypu á „þúsund milljónum“ ef miðað væri við orkuverð árið 2010 í ársskýrslu Landsvirkjunar. Eftir ævintýralega reisu fréttamannsins um vasareikninn tvöfölduðust tekjurnar og enduðu í „yfir tuttugu milljörðum“ á ári. Sól á Suðurlandi dregur þessa tölu í efa og telur að framsetning hennar sé til þess fallin að slá glýju í augu fólks.

Hinir villandi útreikningar Kristjáns Más stafa af því að hann ber tekjur af Búrfellsvirkjun saman við virkjanir sem hafa ekki enn verið byggðar. Munurinn felst í því að Búrfellsvirkjun var vígð árið 1970 og lán af henni hafa þegar verið borguð upp. Að auki má benda á að þriðjungur fjármögnunar Búrfellsvirkjunar kom frá Alþjóðabankanum í formi þróunaraðstoðar, sem hefur veitt fyrirtækinu mun betri lánskjör en annars hafa verið í boði. Ráðist Landsvirkjun hins vegar í virkjanir í neðri hluta Þjórsár þarf fyrirtækið að taka lán fyrir þeim sem er eftir að borga af. Ekki var svo að skilja á fréttamanninum að hann hafi gert ráð fyrir kostnaði við byggingu virkjananna eða afborganir á lánum þegar hann flutti fréttir af þessum „milljarða króna tekjum.“ Hvorki hefur verið samið um kaup né verð á orku frá Þjórsárvirkjunum, ef úr þeim verður, og því hæpið að byrja strax að reikna þær í gróða.

Að auki tók fréttamaðurinn fyrir spádóma Landsvirkjunar um mögulega tvöföldun á raforkuverði eftir tuttugu ár og margfaldaði tekjurnar með tveimur, að því er virtist án þess að taka tillit til aukins kostnaðar. Hann virðist hins vegar ekki hafa tekið inn í myndina að raforkuverð til almennings myndi þá tvöfaldast líka, sem yrðu þá ekki jafn miklar gleðifréttir og fréttamaðurinn lét í veðri vaka.

Kristján Már lét sér ekki nægja að reikna út hagnað þeirra Þjórsárvirkjana sem raðað er í nýtingarflokk Rammaáætlunar, heldur bætir hann Norðlingaölduveitu við og hikar ekki við að fullyrða hvað hún muni skila miklum tekjum. Þess má geta að Þjórsárver falla í verndarflokk Rammaáætlunar en með því er Norðlingaölduveita úr sögunni. Tilgangur þess að hafa veituna með í þessari reikningsæfingu Kristjáns virðist því einvörðungu vera sá að hækka gróðatöluna.

Ekki virðist sem fréttamanninum komi til hugar að gæta hlutleysis í fréttaflutningi sínum, til að mynda með því að taka viðtöl við fólk sem draga slíka útreikninga í efa, né ræða við þá heimamenn sem munu hugsanlega stórtapa á virkjununum.

Samtökin vilja vekja athygli á því að þarna er um hreina spádóma er að ræða sem eiga lítið skylt við fréttir. Að lokum vilja þau velta upp þeirri spurningu hver sé tilgangur Kristjáns Más Unnarssonar með slíkum fréttaflutningi, annar en sá að hafa áhrif á almenningsálitið? Og ef sá er tilgangurinn, væri þá ekki heiðarlegra af honum að viðurkenna það og flytja áróðurspistla sína utan fréttatíma, svo almenningi sé nokkuð ljóst hvað sé þarna á ferðinni?

Ljósmynd: Áætluð lónshæð við Þjórsá, Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
Feb. 24, 2012
Tilvitnun:
Sóla á Suðurlandi „Sól á Suðurlandi átelja Fréttastofu Stöðvar 2“, Náttúran.is: Feb. 24, 2012 URL: http://natturan.is/d/2012/02/24/sol-sudurlandi-atelja-frettastofu-stodvar-2/ [Skoðað:Aug. 12, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: March 1, 2012

Messages: