Umhverfissinninn Olli Manninen frá Finnlandi hlýtur eftirsóttustu umhverfisverðlaun Norðurlanda þetta árið og verðlaunafé að andvirði 350.000 danskra króna. Verðlaunin eru veitt fyrir framlag hans til varðveislu skóga á Norðurlöndum og uppbyggingu tengslanets á Norðurlöndum til að virkja grasrótarsamtök á umhverfissviðinu.

22. maí er dagur Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika. Margar tegundir og landsvæði eru í útrýmingarhættu þrátt fyrir alþjóðlega samninga og aðgerðir til verndar náttúrunni. Sem betur fer eru fjölmargir eldhugar um allan heim, sem gera sitt til að vekja athygli á vandanum.

Norðurlandaráð og umhverfisráðherrar norrænu ríkjanna hafa nú ákveðið að heiðra einn af þessum eldhugum, finnska líffræðinginn Olli Manninen, sem hlýtur umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs þetta árið.

Manninen er virkur í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð, hann hefur unnið fyrir nær öll umhverfissamtök á Norðurlöndum og meðal annars sett á stofn vefsetrið nordicforests.org.

Hann var staddur í skógi í Värmland í Svíþjóð þegar hann fékk fréttirnar, en þar var hann að vinna við kortlagningu og skráningu á friðunarþörf í norrænum skógum, sem hann fær nú verðlaun fyrir.

„Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs falla ekki eingöngu mér í skaut, heldur öllum þeim sem vinna að verndun norrænna skóga. Sjálfboðastarf er afar mikilvægt, einnig þegar um er að ræða að hafa áhrif á stjórnmálamenn þannig að þeir geri meira fyrir náttúru okkar. Verðlaunin eru hluti af því að tryggja starf okkar til framtíðar”, segir Olli Manninen, sem er ekki síst þekktur fyrir að virkja og mennta aðra líffræðinga og umhverfissinna.

Dómnefndin lagði sérstaka áherslu á vinnu Manninen við að skilgreina markmið umhverisstefnu. Í rökstuðningi segir meðal annars:

„Olli Manninen hefur með framlagi sínu sem skrásetjari og upphafsmaður tengslaneta verið hvatamaður að friðun tugþúsunda hektara skóglendis í Finnlandi, Svíþjóð og Noregi. Hann hefur þróað einstakt kerfi til að kortleggja tegundir í útrýmingarhættu og verið drifkrafturinn í herferðum sem hafa aukið þekkingu almennings á líffræðilegum fjölbreytileika skóga”.

Í Finnlandi hefur Manninen verið hvatamaður að friðun meira en 100.000 hektara skóglendis og hann hefur einni tekið þátt í að safna meira en 100.000 undirskriftum frá finnskum borgurum með það að markmiði að hvetja stjórnmálamenn til að efla friðunaraðgerðir.

Verðlaunin verða afhent í Helsinki þann 30. október á árlegu Norðurlandaráðsþingi.

Upplýsingar um verðlaunin:

Í ár eru verðlaunin sem nema 350.000 dönskum krónum veitt norrænu fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi sem hefur unnið að því að efla líffræðilegan fjölbreytileika í nærumhverfi sínu eða á alþjóðavettvangi.

Norrænu umhverfisráðherrarnir ákveða hver hlýtur umhvefisverðlaun Norðurlandaráðs með aðstoð dómnefndar. Þema verðlaunanna er mismunandi frá ári til árs. Þetta árið er það líffræðilegur fjölbreytileiki og verður tilkynnt um verðlaunahafann á degi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni.

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráð eru ein af fjórum verðlaunum sem norrænu ríkin veita fyrir sérstaka frammistöðu á sviði lista og umhverfismála. Verðlaunin verða afhent á árlegu Norðurlandaráðsþingi, sem í ár verður haldið í Helsinki.

Ljósmynd: Olli Manninen, af vef norden.org.

Birt:
May 23, 2012
Tilvitnun:
Norræna ráðherranefndin „Finnskur umhverfissinni hlýtur umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs “, Náttúran.is: May 23, 2012 URL: http://natturan.is/d/2012/05/23/finnskur-umhverfissinni-hlytur-umhverfisverdlaun-n/ [Skoðað:March 20, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: