• Nýtt lagalega bindandi samkomulag um losun með þátttöku allra náist 2015
  • Gengið verður frá 2. skuldbindingartímabili Kýótó en með takmarkaðri þátttöku
  • Ísland tekur á sig sambærilegar skuldbindingar og önnur Evrópuríki
  • Tillaga Íslands um endurheimt votlendis til að draga úr losun samþykkt

Samkomulag náðist aðfararnótt sunnudags á loftslagsráðstefnunni í Durban í Suður-Afríku um aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Meginþættirnir í samkomulaginu eru að þróuð ríki taka á sig lagalega bindandi skuldbindingar um minnkun losunar á vettvangi Kýótó-bókunarinnar eftir 2012, en nýtt samningaferli sem tekur til allra ríkja á að hefjast strax á næsta ári og leiða til samkomulags árið 2015, sem sé lagalega bindingu.

Örlög Kýótó-bókunarinnar voru pólitískt mikilvægasta viðfangsefni fundarins í Durban, sem var 17. árlegt aðildarríkjaþing Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Skv. Kýótó taka nær 40 þróuð ríki á sig tölulegar skuldbindingar um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda á tímabilinu 2008-2012. Viðræður um skuldbindingar á nýju tímabili eftir 2012 hafa staðið yfir í um 5 ár, en hafa verið í sjálfheldu um langt skeið vegna skilyrða sem ríkin sem bera skuldbindingar hafa sett. Annars vegar vilja þau að Bandaríkin, sem staðfestu bókunina ekki, hafi sambærilegar skuldbindingar og Kýótó-ríkin, en hins vegar að stór og ört vaxandi þróunarríki á borð við Kína, Indland og Brasilíu taki á sig aukna ábyrgð. Á liðnu ári hafa svo þrjú stór ríki tilkynnt að þau séu ekki tilbúin að taka á sig frekari losunarskuldbindingar undir hatti Kýótó: Japan, Rússland og Kanada. Þróunarríki hafa lagt ofurþunga á að Kýótó haldi áfram eftir 2012 þrátt fyrir að þessi ríki auk Bandaríkjanna hyggist standa þar fyrir utan. Ríkin sem hafa tilkynnt að þau séu tilbúin að taka á sig nýjar skuldbindingar innan Kýótó eru ríki ESB, Ísland, Noregur, Sviss, Ástralía, Nýja-Sjáland og nokkur fleiri. Þessi ríki eru ábyrg fyrir um 16% heimslosunar, en upphaflega átti Kýótó að ná til meira en helmings losunar í heiminum.

ESB setti þá kröfu fram í Durban að vinna hæfist við gerð nýs lagalega bindandi samkomulags sem næði til allra ríkja og gengi í gildi ekki síðar en 2020. Ella gætu ríki sambandsins ekki auðveldlega tekið á sig skuldbindingar innan Kýótó. Þessi krafa náðist í gegn á lokasprettinum, viðræður eiga að hefjast á næsta ári og ljúka 2015, en reiknað er með að samkomulagið taki gildi á heimsvísu 2020. Það gæti verið bókun, sambærileg við Kýótó, en einnig eru tilgreindir aðrir og veikari möguleikar á lagalegu formi. Indland barðist harkalega gegn orðalagi um sterka lagalega bindingu slíks samkonulags, en Bandaríkin og Kína og fleiri ríki hafa einnig verið treg til að taka á sig skuldbindingar sem eru bindandi samkvæmt alþjóðalögum.

Í ákvörðun Durban-fundarins sem lýtur að endurnýjun Kýótó eru sett fram tölubil um áformaða minnkun losunar til 2020 sem ríkin sjálf hafa tilkynnt. Á næsta ári á að ganga frá fastri tölu fyrir einstök ríki um minnkun losunar á 2. skuldbindingartímabili, sem verður annað hvort 5 eða 8 ár eftir árslok 2012. Einnig var gengið frá reglum um losunarbókhald og skráningu, s.s. varðandi kolefnisbindingu og viðskipti með losunarkvóta. Þessar reglur taka nokkrum breytingum frá því sem áður var, en ekki stórvægilegum.

Ýmsar fleiri ákvarðanir voru teknar í Durban um framkvæmd loftslagssamningsins og verkefni á sviði loftslagsvænnar tækni, aðlögunar að loftslagsbreytingum, stöðvun skógareyðingar o.fl. Ein sú veigamesta lýtur að fyrirkomulagi og stjórn nýs loftslagssjóðs til að aðstoða þróunarríki við ýmis verkefni á sviði loftslagsmála. Stefnt er að því að framlög þróaðra ríkja til þróunarlanda á sviði loftslagsmála verði árlega um 100 milljarðar Bandaríkjadala árið 2020.

Skuldbindingar og áherslumál Íslands

Ísland hefur lýst sig reiðubúið til að taka þátt í 2. skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar og er listað meðal slíkra ríkja í ákvörðun Durban-fundarins um framlengingu Kýótó. Þar kemur fram að Ísland muni taka á sig sameiginlega skuldbindingu með ríkjum ESB á 2. skuldbindingartímabili. Ísland mun því ekki vera með sérstaka tölulega skuldbindingu innan Kýótó eftir árslok 2012, heldur vera undir sameiginlegu hvolfi flestra Evrópuríkja. Samkomulag um þetta var gert við ESB fyrir Kaupmannahafnarfundinn 2009, en það kemur fyrst til framkvæmda nú þegar ákvörðun liggur fyrir um framtíð Kýótó. Ísland verður virkur hluti af evrópsku viðskiptakerfi eftir áramót 2012 -2013 skv. ákvæðum EES-samningsins, sem mun þá ná til yfir 40% losunar hér á landi, einkum frá stóriðju. Með þessu fyrirkomulagi er komið í veg fyrir tvöfalt reglukerfi yfir losun á Íslandi; annars vegar skv. Kýótó en hins vegar skv. EES-samningnum. Ísland býr nú við sérstakt ákvæði í Kýótó-bókuninni gagnvart losun frá stóriðju. Á 2. skuldbindingartímabili verður þetta ákvæði óþarft, þar sem stóriðja mun þá búa við samræmdar evrópskar reglur skv. EES-samningnum.

Ný aðgerð til að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda var samþykkt í Durban, um endurheimt votlendis. Ísland lagði þá tillögu upphaflega fram og var efni hennar að mestu samþykkt í fyrra. Sumar tillögur sem tengjast losun frá landnotkun og upptöku kolefnis í gróðri og jarðvegi eru umdeildar, en votlendistillaga Íslands hefur almennt fengið jákvæðar undirtektir. Ísland hefur haldið fram sjónarmiðum kynjajafnréttis og virkrar þátttöku kvenna í ákvarðanatöku. Texti þess efnis, sem Ísland hefur lagt til, er á nokkrum stöðum í Durban-samkomulaginu og fyrri samningstextum.

Birt:
Dec. 11, 2011
Tilvitnun:
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „Samkomulag í loftslagsmálum á COP17 í Durban“, Náttúran.is: Dec. 11, 2011 URL: http://natturan.is/d/2011/12/11/samkomulag-i-loftslagsmalum-cop17-i-durban/ [Skoðað:July 27, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: