Á liðnu ári setti Norræna ráðherranefndin af stað svokölluð „kyndilverkefni“ á þeim sviðum sem nefndin telur mest knýjandi fyrir framtíð atvinnu- og nýsköpunar á Norðurlöndunum. Verkefni um „grænan hagvöxt og velferð“  er eitt þeirra verkefna sem lýtur forystu Íslands og er á ábyrgð iðnaðarráðuneytis. Formaður verkefnisstjórnar er Berglind Hallgrímsdóttir, framkvæmdastjóri á Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Norðurlöndin standa frammi  fyrir mikilvægum áskorunum á komandi árum og er Ísland þar engin undantekning.  Þörfin fyrir aukinn hagvöxt í skugga efnahagskreppu liðinna ára er knýjandi  um leið og þrengir að auðlindum og umhverfi.  Lífsgæði , velferð og samfélag kalla á aukinn hagvöxt og öflugt og nýskapandi atvinnulíf.  Framtíð okkar og komandi kynslóða byggir á því að tekist verði á við þessar áskoranir af hugkvæmni og afli.

Markmið verkefnisins er að greina hvernig nýsköpun getur verið hvati nauðsynlegra umbreytinga á  ríkjandi hagkerfa Norðurlanda, yfir í hagkerfi sem byggja á sjálfbærum hagvexti sem staðið getur undir velferð og lífsgæðum íbúa landanna.

Alþjóðleg ráðstefna og kynning á verkefninu verður haldin á Hilton Reykjavík Nordica, fimmtudaginn 24. maí frá kl. 09:00 – 12:30. Ráðstefnan verður á ensku. Allir þeir sem áhuga hafa á málaflokknum eru hvattir til að mæta á ráðstefnuna, aðgangur er ókeypis.

Skráning á nmi.is.

 

Birt:
May 22, 2012
Tilvitnun:
Nýsköpunarmiðstöð Íslands „Grænn vöxtur og velferð - framtíð nýsköpunar“, Náttúran.is: May 22, 2012 URL: http://natturan.is/d/2012/05/22/graenn-voxtur-og-velferd-framtid-nyskopunar/ [Skoðað:Dec. 1, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: