Í kristnum sið er hún til minningar um úthellingu heilags anda yfir lærisveinana sjöunda sunnudag eða fimmtugasta dag eftir upprisu frelsarans.
Meðal gyðinga var hún upphaflega fagnaðarhátíð vegna hinna nýþroskuðu ávaxta einsog páskarnir sakir lambanna nýfæddu. Má nærri geta, að hvorugt hefur gerst á ákveðnum almanaksdegi, heldur var miðað við fyrstu tunglkomu eða fyllingu, eftir að ástæða var orðin til að fagna. Síðar var hún talin til minnis um birtingu lögmálsins eða boðorða Móse sjö vikum eftir að hann leiddi Ísraelslýð út af Egyptalandi.
Þar sem “sending heilags anda” varð 50 dögum eftir upprisuna, heitir dagurinn á máli Nýjatestamentsins, grísku, einfaldlega pentekoste, sem þýðir “fimmtugasti”. Af því orði er dregið nafn hátíðarinnar á þýsku og skandínavísku málunum (Pfingsten, Pinse).

Íslenska orðið er hinsvegar komið úr engilsaxnesku, líklega á 11. öld. Hinn upphalegi “hvítasunnudagur” hjá kirkjunni var og er allt annar, nefnilega 1. sunnudagur eftir páska. Hann heitir á latínu “Dominica in albis”, og var það reyndar kórrétt þýtt á íslensku sem “drottinsdagur í hvítadögum”. Þannig stendur á nafninu, að aðalskírnartími kristinna manna á fyrri hluta miðalda voru vikurnar hvor sínu megin við páskana. Meðan það stóð yfir, klæddust hinir nýskírðu hvítum klæðum sem tákni sakleysis rétt eins og börn eru enn í dag öðru fremur ausin vatni í hvítum kjól. Hvítur heitir “albus” á latínu, og af því drógu vikurnar nafn. Enný á heitir fyrsti sunnudagur eftir páska Weisser Sonntag á þýsku og Hvidesöndag á dönsku.

Minningarhátíðin um setningu heilags anda var annar helsti skírnartími hinna kristnu söfnuða. Og engilsaxneska kirkjan færði skírnarhátíðina alfarið þangað frá páskavikunni. Því heitir hún enn á ensku Whitsunday líkt og hér. Mun þetta með eldri dæmum um hina frægu bresku sérvisku.

Heitið hwitan sunnandæg kemur fyirr í engilsaxnesku þegar um 1100 og mun vafalítið komið þaðan inn í íslensku með hinum ensku farandbiskupum, sem hér voru á stjái snemma á 11. öld, áður en biskupsstóll var settur í Skálholti. Orðið sunnudagur er það sama og hið gamla latneska heiti dagsins “dies solis”. Orðið drottinsdagur (Dominica) útrýmdi því aldrei, enda mun nafn sólar ekki hafa þótt jafnóguðlegt og forn ásanöfn. Hinsvegar voru orðin drottinsdagur og hvítadrottinsdagur meira viðhöfð í trúarlegum ritum á miðöldum, en eftir siðbreytinguna sigrar orðið hvítasunna algerlega. Þetta litla dæmi sýnir betur en margt annað, að íslensingar kristnuðust í reyndinni mikllu fremur frá Bretlandseyjum en Norðurlöndum, og sér þess jafnvel stað enn í dag þrátt fyrir ýmsar leiðréttingartilraunir danskra yfirvalda á sínum tíma.

Það er þrálát árátta hjá Norðmönnum, að telja allt íslenskt frá þeim komið, þar á meðal kristin áhrif. Ekki mega þeir t.d. sjá fornan kaleik án þess að þykjast finna þar norskar menjar, jafnvel þótt fyrirmyndin sé engan veginn til úti í Noregi. Engin ástæða er til að ætla, að norskra kristilegra áhrifa hafi gætt hér að nokkru marki fyrr en á 12. öld. Fyrstu biskupar okkar hlutu sína menntun og vígðust í Þýskalandi og Svíþjóð og jafnvel suður í París, og Noregur eignaðist ekki einu sinni erkistól til að vígja biskupa fyrr en 1153.
Norðmenn tóku ekki lögboðið við kristni fyrr en eftir Stiklastaðarorrustu 1030, mannsaldri á eftir Íslendingum. Kristniboð Ólafs Tryggvasonar náði fram að ganga á Íslandi kringum árið 1000, en ekki í Noregi. Hafi því verið um einhver gagnverkani kristileg áhrif að ræða á 11. öld, er a.m.k. eins líklegt, að þau hafi verið frá Íslandi til Noregs, en ekki endilega öfugt.
Orðið hvítadagar var á miðöldum notað um vikuna eftir hvítasunnu. Fyrir kemur, að heitið pikkisdagar er brúkað um hvítasunnuna. Þetta eru greinilega skandínavísk áhrif frá “pinse”, þótt einkennileg séu, og virðast einkum vera frá 17. öld. Aldrei sýnist þetta þó hafa orðið almenningsmál. Þríheilagt var á hvítasunnu hérlendis einsog á jólum og páskum fram til ársins 1770.

Ekki verður bent á neina veraldlega hátíðasiði í sambandi við hvítasunnuna, nema ef vera skyldi kappreiðar hestamannafélagsins Fáks í Reykjavík. Hinsvegar var inna mest trú á mætti guðsþjónustunnar á þessum degi. Hvort heldur það voru töfragrös eða særingarpistlar sem leggja skyldi undir altarisdúkinn, þótti sem presturinn mundi vera bænheitari þá en ella.

Ýmsar heldur kátlegar venjur hafa afturámóti tíðkast erlendis á hvítasunnunni og lifað langt fram yfir siðbreytingu. Til dæmis var eldneistum látið rigna yfir kirkjugesti ofan úr hvelfingunni til að minna á sendingu heilags anda. Einnig var það til að láta dúfur flögra um kirkjuna til að upplýsa fólk um að heilagur andi hefði á sínum tíma birst í dúfulíki. Voru fætur þeirra bundnar saman, svo að þæt gætu ekki sest.
Þá hafa menn sumstaðar gert sér þann dagamun af þessu tilefni, auðvitað undir kristilegu yfirskini, að fara á fuglaveiðar á þessum degi, einkanlega til að skjóta örn. En örninn var talinn dúfunni allra fugla hættulegastur. En ekkert hefur frést af slíkum tiltækjum hér á landi, þótt erninum hafi ananrs verið margt illt kennt.

Mynd: Dominica in albis, úr handriti, óþekktur höfundur. Religiousreading.blogspot.com

Birt:
June 8, 2014
Höfundur:
Árni Björnsson
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Hvítasunna“, Náttúran.is: June 8, 2014 URL: http://natturan.is/d/2007/04/11/hvtasunna/ [Skoðað:Jan. 29, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: April 11, 2007
breytt: June 8, 2014

Messages: