Ég fór einu sinni á fyrirlestur í Garðyrkjuskólanum í Hveragerði. Þar vorum við hvött til að læra að meta skordýrin og gagnsemi þeirra, og læra að elska þau eins og annað í náttúrunni. Líka ranabjöllur? – spurði ein konan í uppgjafartón, því hún vissi hvert svarið yrði. Ég fann til samkenndar því þrátt fyrir allt verðum við að læra að verjast ranabjöllunni og sniglunum. Alveg sama þótt barnabarnið syngi ljóð séra Kristjáns Vals um snigilinn og blómanna blöð eins og engill svo við fáum tár í augun. Ég set erindið hérna til að minna okkur á helgi lífsins áður en við grípum til aðgerða.

Því minnsta lífi í moldu sem býr
ég má ekki trampa á
en svolítið hræddur þó snigillinn flýr
og smámaurinn ber sitt strá

Helstu ráð til varnar sniglum úti og inni eru:

 • Gildrur með bjór, pilsner eða súrmjólk
 • Setja tóma greipaldinhelminga, sem fanga snigla og lirfur, í innibeð
 • Eggjaskurnir muldar
 • Kalk
 • Handtína snigla úr moldinni og undan blöðum, helst á kvöldin þegar þeir eru komnir á kreik
 • Tína sniglana og sjóða og vökva með vatninu og soðnu sniglunum
 • Vökva með rotnuðu efninu úr sniglagildrunum ef maður hefur sig í það
 • Setja kínakál á stöku stað og láta sniglana hafa það í von um að þeir láti annað í friði
 • Setja litla kanta úr blikki umhverfis beðin
 • Slá grasið umhverfis beðin svo sniglar eigi þar ekki athvarf
 • Vera ánægð yfir því að maður sé ekki farinn að fást við kanínur líka, það kemur að því.
 • Kaupa sniglaeitur í búð, ef allt annað bregst og illa stendur á hjá manni. Ef gripið er til slíkra ráðstafana er líka sjálfsagt að athuga hvort þær duga betur en þær náttúrulegu.

Greipaldinhelmingar á hvolfi hafa reynst mér best inni við og líka dregið undir sig ranabjöllulirfur og ég held að sniglarnir verpi undir þeim. Síðan má moka lirfum og sniglum upp með skeið og henda. Sniglar naga kringlótt göt á blöð en ranabjallan nagar utan úr jöðrunum. Úti við hefur mér reynst best að handtína sniglana meðan plönturnar eru örsmáar. Mér líður óneitanlega betur við þessar aðgerðir ef sniglarnir hafa verið látnir vita að þeir séu ekki velkomnir í matjurtagarðinn, en jafnframt að þeir hafi þá friðland annars staðar. Það geri ég með þeim hætti að tengja mig við hópsál sniglanna og segja skýrt og ákveðið hvað sé mitt rými og hvar þeir séu óhultir. Eggert vill nota sót uppleyst í vatni og hella því kringum smáplöntur til að hamla gegn bjöllum en það er ég ekki búin að reyna sjálf. Þetta er vel athugandi fyrir þá sem hafa eldstæði í sumarbústöðum.

Úr bókinni Ætigarðurinn - handbók grasnytjungsins eftir Hildi Hákonardóttur. 

Birt:
June 3, 2014
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Sniglar og ranabjöllur“, Náttúran.is: June 3, 2014 URL: http://natturan.is/d/2007/11/07/sniglar-og-ranabjllur/ [Skoðað:Dec. 3, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Nov. 7, 2007
breytt: June 3, 2014

Messages: