Orkuveita Reykjavíkur og Geogreenhouse ehf. hafa komist að samkomulagi sem felur í sér að byggt verði upp stórt ylræktarver á svæði sem skipulagt hefur verið fyrir slíka starfsemi vestan Hellisheiðarvirkjunar. Fyrirhugað er að framleiða þar tómata í gróðurhúsum og flytja á erlenda markaði. OR mun selja til starfseminnar rafmagn til lýsingar, heitt vatn til upphitunar og kalt vatn til vökvunar. Framleiðsla á þessum afurðum er þegar fyrir hendi í rekstri Hellisheiðarvirkjunar. Samningur þess efnis var undirritaður í dag.

Uppbyggingin er áformuð í þremur áföngum á næstu árum. Samningurinn, sem lagður var fyrir stjórn OR í dag, nær til fyrsta áfangans. Áætlað að hann skapi um 50 manns störf og verði tekinn í notkun haustið 2012. Hann er fjórðungur af áformaðri endanlegri stærð versins. Annar áfanginn, sem er jafnstór, á að vera tilbúinn haustið 2014 en sá síðasti, sem er jafnstór hinum tveimur til samans, er enn ótímasettur. Fyrsti áfanginn, sem felur í sér byggingu 50.000 fermetra ylræktarvers, krefst um 9 megavatta rafafls.

Geogreenhouse ehf. er fyrirtæki sem stofnað var sérstaklega um þetta uppbyggingarverkefni. Stærsti eigandi þess er Sölufélag garðyrkjumanna og aðrir stórir eigendur eru fjárfestingarfélagið Investum Holding og Nýsköpunarsjóður. Áætlað er að framleiða árlega nokkur þúsund tonn af tómötum aðallega fyrir Bretlandsmarkað. Fyrirtækið mun sjálft greiða fyrir tengingu við vatns- og hitaveitu auk rafmagnsins. Flutningaleiðir eru raunar stuttar þar sem verið mun verða rúman kílómetra frá stöðvarhúsi Hellisheiðarvirkjunar og liggur lóð þess rétt við kaldavatnsæðina til virkjunarinnar og heitavatnsæðina frá henni.

Samið er um orku- og vatnsverð í erlendri mynt og er það verðtryggt. Samningurinn er til 20 ára. Fjárfesting OR vegna samningsins er hverfandi og því eru áhrif teknanna á arðsemi Hellisheiðarvirkjunar bein. Væri byggð ný virkjun vegna verkefnisins, með um þriðjungs eiginfjárframlagi, næmi arðsemi samningsins um 13% á eigið fé. Miðað við byggingakostnað Hellisheiðarvirkjunar er arðsemin þó meiri.

Á síðustu misserum hefur Sveitarfélagið Ölfus unnið að skipulagi svæðis fyrir iðn- og tæknigarða á flatlendinu vestur af Hellisheiðarvirkjun. Í gildandi aðalskipulagi er nú gert ráð fyrir iðnaði á svæðinu. Við virkjunina eru nú þegar rekin nokkur vísindaverkefni tengd jarðhitanýtingunni. Umfangsmest þeirra er CarbFix verkefnið, sem nýverið hlaut myndarlegan fjárstyrk frá Evrópusambandinu. Ekki er loku fyrir það skotið að í framtíðinni geti ylræktarverið einnig fengið koltvísýring frá Hellisheiðarvirkjun.

Bjarni Bjarnason, forstjóri OR:

Þessi samningur er mikilvægur og skemmtilegur áfangi á leið til fjölnýtingar háhitasvæða. Gróðurhúsið kaupir rafmagn, heitt vatn og kalt af Orkuveitunni og hefur einnig óskað eftir því að kaupa koltvísýring af okkur þegar við höfum náð tökum á því að vinna hann úr gufunni sem kemur frá Hellisheiðarvirkjun.
Þetta er jafnframt fyrsti stórnotendasamningur Orkuveitunnar þar sem rafmagnið er ekki nýtt til álvinnslu.

Ljósmynd: Hellisheiðarvirkjun, Guðrún A. Tryggvadóttir.

Til glöggvunar er staðsetning fyrirhugaðs ylræktarvers sýnd á uppdrættinum sem gulir fletir á gráum. Stöðvarhús Hellisheiðarvirkjunar er guli flöturinn neðarlega til hægri á kortinu.

Birt:
Nov. 18, 2011
Tilvitnun:
Eiríkur Hjálmarsson „Græn stóriðja við Hellisheiðarvirkjun“, Náttúran.is: Nov. 18, 2011 URL: http://natturan.is/d/2011/11/18/graen-storidja-vid-hellisheidarvirkjun/ [Skoðað:May 29, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: